Danski Þjóðarflokkurinn (Dansk folkeparti) vill að tólf opinberar stofnanir verði fluttar frá Kaupmannahöfn og komið fyrir á landsbyggðinni. Hugmyndin hefur fengið blendnar undirtektir.
Danski Þjóðarflokkurinn jók stórlega fylgi sitt í kosningunum 18. júní síðastliðinn og er nú næst stærsti flokkurinn á danska þinginu með 37 þingmenn. Flokkurinn hefur þrátt fyrir velgengnina valið að vera utan stjórnar, telur sig þannig hafa meiri áhrif á stjórn landsmálanna. Fylgi flokksins jókst um allt land en þó mest í landsbyggðarkjördæmum langt frá höfuðstaðnum Kaupmannahöfn eða öðrum stórum bæjum, í þeim landshlutum sem Danir kalla gjarna udkantsdanmark. Íbúum á þessum svæðum hefur á undanförnum árum fækkað mikið en að sama skapi fjölgað í stærri bæjum. Mest í Kaupmannahöfn, þar fjölgar íbúum í hverjum mánuði um tæplega eitt þúsund. Afleiðingin er húsnæðisskortur í höfuðborginni en úti á landsbyggðinni standa mörg þúsund hús, kannski tugþúsundir, auð og yfirgefin og grotna niður.
Kosningamál
Eitt helsta kosningamál Danska Þjóðarflokksins fyrir kosningar var að snúa því, sem flokkurinn kallar öfugþróun, við og kynnti strax í ársbyrjun hugmyndir sínar um flutning opinberra stofnana frá Kaupmannahöfn. Þær hugmyndir voru almennt orðaðar, hvorki nefndar stofnanir né fjöldi starfa sem æskilegt færi að flytja burt úr höfuðstaðnum. Þótt í aðdraganda kosninganna væri talsvert rætt um vanda landsbyggðarinnar og hvað væri þar hægt að gera til úrbóta var umræðan um nákvæmlega hvað gera skyldi ekki áberandi.
Nefnd eða ekki nefnd
Danski Þjóðarflokkurinn lagði til í mars að komið yrði á fót sérstakri nefnd sem skyldi kanna og koma með tillögur um hvaða stofnanir væri æskilegt að flytja frá Kaupmannahöfn, hvert þær yrðu fluttar og hvað slíkt myndi kosta. Starfsmönnum nokkurra stofnana, sem einstakir þingmenn höfðu nefnt að upplagt væri að flytja, þótti nefndarhugmyndin góð. Með því móti yrði tekið tillit til allra þátta en ekki ráðist í hlutina í einhverju fljótræði.
Þingmaðurinn Hans Kristian Skibby er talsmaður Danska Þjóðarflokksins í atvinnumálum.
Nú hefur Danski Þjóðarflokkurinn hins vegar skipt um skoðun. Talsmaður flokksins í atvinnumálum, Hans Kristian Skibby sagði í viðtali í danska sjónvarpinu fyrir helgi að með því að stofna einhverja nefnd myndi þessu brýna hagsmunamáli seinka. Nefndastörf hafi tilhneigingu til að dragast von úr viti og á endanum fáist kannski engin niðurstaða. Í þessu máli megi engan tíma missa, stjórnarflokkurinn Venstre eigi einfaldlega að leggja fram hugmyndir og þær eigi síðan að ræða í þinginu áður en endanleg ákvörðun verði tekin. Með þessu sparast mikill tími. Aðspurður um hvort slíkt fyrirkomulag bjóði ekki heim alls konar kjördæmapoti þingmanna, sem allir vilji fá allt í sitt kjördæmi, sagði Hans Kristian Skibby ekki óttast slíkt.
Vill flytja 12 stofnanir og 4000 störf frá Kaupmannahöfn
Fyrir nokkrum dögum lagði Danski Þjóðarflokkurinn fram tillögur sínar um hvaða stofnanir flokkurinn teldi að flytja ætti frá höfuðborginni til annarra staða í landinu. Á listanum eru tólf stofnanir. Sú stærsta á listanum er stofnunin BaneDanmark með 2250 starfsmenn. Þessi stofnun hefur yfirumsjón með danska járnbrautakerfinu, lagningu teina, uppsetningu merkjaljósa, viðhaldi á merkjum, ljósum og teinum o.s.frv. Sú næst fjölmennasta er Danska Umhverfisstofnunin með tæplega 1300 starfsmenn, 400 þeirra í Kaupmannahöfn. Síðan kemur Eftirlitsstofnun með landbúnaði og fiskveiðum, þar eru starfsmenn um það bil 1100, 800 þeirra í höfuðborginni.
Á listanum eru auk áðurnefndra stofnana meðal annars Danska veðurstofan, Umferðarstofnunin, Orkumálastofnunin og Siglingamálastofnun. Samtals eru þessar stofnanir með fleiri en 6000 starfsmenn en ljóst er að ef af flutningum verður munu ekki allir starfsmenn verða fluttir til, hluti þeirra verður áfram í Kaupmannahöfn. Það er mat Danska Þjóðarflokksins að um 4000 störf verði með þessum hætti hægt að flytja til ýmissa staða á landsbyggðinni. Það hefur vakið nokkra athygli að helstu forystumenn Danska Þjóðarflokksins hafa lítt eða ekki tjáð sig um hugsanlegan flutning ríkisstofnana.
Ekki allir jafn hrifnir af hugsanlegum flutningum
Hugmyndir Danska Þjóðarflokksins hafa mælst misjafnlega fyrir. Allmargir þingmenn stjórnarandstöðuflokkanna hafa lýst sig andsnúna þessum hugmyndum, segja þær bera keim af lýðskrumi, þarna sé verið að kasta fram hugmyndum, sem falli í kramið hjá tilteknum hópi kjósenda. Algjörlega sé sneitt hjá að ræða kostnaðinn sem slíkur flutningur stofnana hafi í för með sér. Og jafnframt röskunina fyrir starfsemi viðkomandi stofnana. Margir þingmenn hafa jafnframt lýst efasemdum um að flutningur stofnana breyti nokkru, til þess þurfi meira en flutningur 4000 starfa að koma til.
Reynsla Norðmanna
Í tengslum við nýframkomnar tillögur Danska Þjóðarflokksins hefur hér í Danmörku talsvert verið fjallað um nýlega skýrslu sem norskt ráðgjafarfyrirtæki, Asplan Viak, gerði um flutning norskra stofnana á undanförnum árum. Markmiðið með þeim flutningum átti að vera að flytja sérhæfð störf frá Ósló. Niðurstaða ráðgjafafyrirtækisins var sú að slíkir flutningar hafi í för með sér mikinn kostnað, eða um eina milljón norskra króna á hvert starf, það jafngildir um það bil 18 milljónum íslenskum. Kjarninn greindi frá þeirri skýrslu í desember 2014.
Lars Løkke Rasmussen forsætisráðherra hefur lýst því yfir að stjórn sín muni skoða gaumgæfilega að flytja stofnanir og störf frá höfuðstaðnum.
Sparnaður, sem reiknað hafði verið með, reyndist enginn því ýmis aukakostnaður varð mun meiri en áætlað hafði verið. Starfsemi þeirra stofnana sem fluttar voru frá Ósló raskaðist verulega, meðal annars vegna þess að margir starfsmenn ákváðu að segja upp og mikill tími og kostnaður fylgdi því að ráða nýtt starfsfólk, sem að stórum hluta þekkti lítt til starfseminnar. Mjög erfitt reyndist í mörgum tilvikum að fá til starfa sérmenntað starfsfólk þannig að margar stofnanir sem fluttar voru með þessum hætti eru nú mannaðar fólki með mun minni menntun en það fólk sem áður var þar við störf. Niðurstaða ráðgjafarfyrirtækisins er í stuttu máli sú að stofnanaflutningurinn hafi kostað mikið en skilað litlu.
Pólitísk ákvörðun
Norska skýrslan hefur, eins og áður var sagt, verið talsvert til umfjöllunar í dönskum fjölmiðlum. Þingmenn Danska Þjóðarflokksins hafa lagt á það áherslu að þeir telji flutning stofnana styrkja landsbyggðina en hafa lítið gefið fyrir þau rök að slíkur flutningur veiki viðkomandi stofnanir. Troels Lund Poulsen atvinnumálaráðherra sagði í viðtali í danska sjónvarpinu, þegar rætt var um kostnaðinn við slíkan flutning, að aðstæður hér í Danmörku væru aðrar en í Noregi, án þess að útskýra það nánar.
Lars Løkke Rasmussen forsætisráðherra hefur lýst því yfir að stjórn sín muni skoða gaumgæfilega að flytja stofnanir og störf frá höfuðstaðnum en sagði jafnframt að stjórnin þyrfti ekki að bera slíkar ákvarðanir undir þingið, né einstaka flokka sem þar eiga fulltrúa. Flutningur stofnana sé pólitísk ákvörðun.