Vinna að því alla daga að koma Úkraínumönnum frá Póllandi
Pólskur sjálfboðaliði sem vinnur með sænskum samtökum að því að skipuleggja ferðir flóttafólks frá Varsjá til Svíþjóðar segir Pólland ekki geta hýst alla sem þar eru í dag á öruggan hátt. Koma þurfi fólki í burtu svo Pólland hafi pláss fyrir aðra stóra bylgju flóttafólks frá Úkraínu, ef stríðsátökin versna enn. Sænsku samtökin eru bara ein af mörgum sem eru starfandi í Varsjá þessa dagana að því að koma úkraínsku flóttafólki til annarra ríkja Evrópu.
Þegar flóttafólk frá Úkraínu kemur inn á lestarstöðvar í stærstu borgum Póllands bíða þeirra skilti, þar sem þeim er tjáð að tækifærin í Póllandi bíði þeirra fremur í litlum borgum en þeim sem stærri eru.
„Smærri borgir í Póllandi veita meiri möguleika á því að fá húsnæði, lægri framfærslukostnað og auknar líkur á því að fá starf. Stórar borgir í Póllandi eru þegar ofsetnar. Ekki vera hrædd við að fara til minni bæja: þeir eru friðsælir, með góða innviði og henta vel,“ segir á skilti við afgreiðsluna á lestarstöð í austurhluta Varsjár, sem blaðamaður Kjarnans heimsótti á dögunum.
Þar, rétt eins og á lestarstöðinni í miðborginni, er nokkuð stöðugur straumur flóttafólks frá Úkraínu að koma frá suðurhluta landsins. Mörg þeirra hafa litla hugmynd um hvert væri best að leita í framhaldinu, en í grunninn má segja að flóttafólkið frá Úkraínu skiptist í tvo hópa.
Annars vegar eru það þau sem eiga einhver tengsl í Póllandi eða öðrum löndum, fjölskyldu eða vini sem hægt er að dvelja hjá um hríð, og svo þau sem búa ekki við þann munað og eru komin út í algjöra óvissu. Og þurfa aðstoð.
Hve lengi endist velvilji almennings?
Í Varsjá rétt eins og flestum borgum og bæjum Póllands opnaði samfélagið arma sína við upphaf innrásar Rússa í Úkraína og fjölmargir íbúar tóku fólk á flótta inn á heimili sín. En það komast ekki allir fyrir inni á heimilum og í höfuðborginni er búið að koma upp allnokkrum miðstöðvum þar sem flóttafólk getur dvalið tímabundið.
Heimamenn sem Kjarninn ræddi við í Varsjá síðustu vikuna segja flestir að þeir sem á annað borð hafi ætlað sér að hjálpa til og taka inn flóttafólk séu nú þegar búnir að því, auk þess sem margir hafi álitið að það að hýsa flóttafólkið inni á heimilum yrði tímabundið.
Lítil merki eru þó um að pólska ríkisstjórnin, sem á undanförnum árum hefur verið afar andsnúin því að taka á móti flóttafólki, sé reiðubúin undir það sem margir óttast að sé framundan – að tímabundin og eftirtektarverð bylgja góðvildar hundruða þúsunda almennra borgara í garð flóttafólks frá Úkraínu fjari smám saman út.
Og hvað ef átökin í Úkraínu harðna enn og fleiri flóttamenn þurfa á skjóli að halda?
Hjálparsamtök víða að úr Evrópu eru að reyna að létta undir með Pólverjum og hjálpa fólki áleiðis til annarra ríkja, sum í nánu samstarfi við sveitarfélög í sínum heimalöndum. Kjarninn ræddi við fulltrúa nokkurra slíkra samtaka í Varsjá á dögunum.
Fólk þreytist á að gista með þúsundum annarra
Ein stærsta miðstöðin sem sett hefur verið upp fyrir flóttafólk í Varsjá er í ráðstefnumiðstöðinni PTAK Expo, sem liggur sunnan við borgina. Þar eru allnokkrar risastórar byggingar, hver um sig álíka stór og Korputorg. Tvær þeirra hafa undanfarnar vikur verið helgaðar móttöku flóttafólks frá Úkraínu og tímabundinni gistiaðstöðu fyrir allt að tíu þúsund manns verið vippað upp.
Nóttina áður en blaðamaður Kjarnans heimsótti miðstöðina höfðu um fjögur þúsund manns, aðallega konur og börn, gist á þessum stað. Búið er að koma upp bráðabirgðarútustöð í hluta einnar byggingarinnar, þar sem samtök sem skipuleggja rútuferðir til annarra ríkja í Evrópu voru búin að koma upp skráningarbásum. Hinir ýmsu þjóðfánar blöstu við á skjáum á veggjunum – sá danski, eistneski, spænski og franski auk annarra.
Blaðamaður gaf sig á tal við sjálfboðaliða frá frönskum samtökum sem voru að störfum við að skrá fólk í rútu sem stefndi til borgarinnar Tours í Frakklandi, en borgaryfirvöld þar hafa lýst sig tilbúin til þess að taka á móti fólki beint frá Varsjá. „Þar bíða þeirra stuðningsfjölskyldur og borgaryfirvöld munu veita þeim aðstoð sálfræðinga, og félagsráðgjafa, frönskunámskeið fyrir börnin og síðan mun sveitarfélagið útvega þeim íbúðir til lengri tíma,“ sagði Lucie, franskur sjálfboðaliði sem búsett er í Varsjá, við blaðamann.
En afhverju er fólk að velja að fara til Frakklands? „Það er misjafnt, sum hafa einhver tengsl og lærðu til dæmis frönsku í skóla og þekkja til tungumálsins, en sumir aðrir eru búnir að vera hérna í tvær vikur að sofa í sal með allt að tíu þúsund öðrum og eru orðin þreytt á því, vilja bara komast eitthvert annað,“ sagði Lucie.
Flýr til Spánar en foreldrarnir ætla til Rússlands
Á lestarstöðinni í miðborg Varsjár eru ungir spænskir sjálfboðaliðar, sem flest eru Erasmus-skiptinemar í borginni, búin að sitja frá morgni til kvölds undanfarnar vikur við að halda utan um skráningu flóttafólks í rútur til Spánar fyrir hönd spænskra hjálparsamtaka.
„Við erum búin að flytja um tvö þúsund manns héðan,“ sagði Alex, einn sjálfboðaliðanna, við Kjarnann. Er blaðamaður leit við á lestarstöðinni á mánudagskvöld var 17 ára strákur frá Úkraínu með spænsku ungmennunum.
Hann var búinn að skrá sig í rútu til Spánar daginn eftir, var einn á ferð og ætlaði einn spænsku sjálfboðaliðanna að skjóta yfir hann skjólshúsi yfir nótt, í stað þess að beina honum í Expo-miðstöðina með þúsundum annarra.
Úkraínumaðurinn ungi var að flýja heimili sitt og í reynd foreldra sína líka, en þau styðja Vladimír Pútín og vildu flytja frá Úkraínu til Rússlands.
Verandi samkynhneigður sá hann ekki bjarta framtíð fyrir sjálfan sig í áformum foreldranna um flutninga til Rússlands Pútíns og kaus að halda til Spánar, með ekkert nema eina íþróttatösku meðferðis.
Heildarpakki inn í nýtt líf í Svíþjóð
Á hóteli í miðborg Varsjár hafa sænsku samtökin A Demand for Action verið með aðstöðu undir starfsemi sína, en á annað þúsund manns hafa nú þegar fengið far með rútum samtakanna til Svíþjóðar.
Tveir sjálfboðaliðar samtakanna, Jakub frá Póllandi og Olena frá Úkraínu, ræddu við blaðamann Kjarnans um starfið á laugardag. „Við erum þegar búin að hjálpa yfir 1.300 manns til Svíþjóðar. Við erum að skipuleggja ferðirnar okkar í samstarfi við sveitarfélög og flóttamannastofnun Svíþjóðar, svo að þau eru tilbúin að taka á móti þeim. Við erum ekki bara að flytja fólkið, heldur mætti kalla þetta heildarpakka hjálpar, það er það sem þau þurfa,“ segir Jakub.
Hann bætir því við að flest þau sem kjósi að fara til Svíþjóðar geri það ekki vegna þess að þar eigi þau eigi þar einhverjar tengingar, heldur séu einungis að leita að besta staðnum fyrir sig og fjölskyldu sína.
„Í Póllandi erum við núna að hýsa um tvær milljónir flóttamanna. Pólland einfaldlega ræður ekki við þennan fjölda, við þurfum að finna þeim öruggt skjól utan Póllands. Þetta var fyrsta bylgjan sem kom hingað og miðað við gang stríðsins mun því ekki ljúka fljótlega. Við verðum að sjá til þess að það sé laust pláss í Póllandi til þess að við getum tekist á við næstu bylgju, sem ég held að því miður muni koma,“ segir Jakub.
Olena er frá Úkraínu en var þegar komin til Varsjár í atvinnuleit þegar innrás Rússa hófst. „Þegar stríðið hófst gat ég ekki hugsað um að leita mér að vinnu, mig langaði að hjálpa Úkraínumönnum og landinu mínu eins mikið og ég gat. Og þess vegna fór ég að vinna með A Demand for Action“.
Olena og Jakub segja blaðamanni að þau kjósi að vera með starfsemi sína og skráningar í rútur í ró og næði á hótelinu, en ekki í stærri móttökumiðstöðvum flóttafólks í Varsjá, þar sem ringulreið ríki. „Þar er ekki hægt að veita fólki neitt öryggi, við viljum hitta fólk hér, kynna þau fyrir Svíþjóð og útskýra hvernig allt ferlið þeirra verður,“ segir Jakub.
Lesa meira
-
2. janúar 2023Hungurleikar Pútíns grimma
-
2. janúar 2023Úkraínustríðið 2023: Skugginn yfir Evrópu
-
6. desember 2022Sjálfheldan í Úkraínu. Hatrið sigrar?
-
6. nóvember 2022Niðursoðin fiskilifur á meðal þess helsta sem selt hefur verið til Rússlands frá innrás
-
30. október 2022Flúði Hvíta-Rússland með röntgenmyndir særðra rússneskra hermanna