Vodkinn á undir högg að sækja í Rússlandi - Drykkjan enn mikið vandamál

Ómar Þorgeirsson
vodkinn.jpg
Auglýsing

Samkvæmt tölfræði rússnesku hagstofunnar, Rosstat, hefur framleiðsla á vodka verið í stöðugri lægð í Rússlandi undanfarin ár og útlit fyrir að þróunin stefni áfram niður á við á næstunni. Ýmsar kenningar eru uppi varðandi þessa niðursveiflu vodkans -  drykkjarins sem hefur verið eins og rauður þráður í gegnum sögu Rússa síðustu aldirnar.

Versnandi staða Rússlands í alþjóðasamfélaginu, í kjölfar innlimunar Krímskaga og áframhaldandi deilna um málefni Ukraínu, hefur augljóslega haft neikvæð áhrif á markaðsstöðu vodka framleiðanda í Rússlandi. Nýlegar tölur frá tollayfirvöldum í Rússlandi undirstrika það, en útflutningur á rússneskum vodka féll um fjörtíu prósent á fyrsu sex mánuðum ársins 2015, samanborið við fyrstu sex mánuðina árið 2014. Enn fremur hefur verið bent á hægfara þróun á drykkjumenningunni í Rússlandi, þar sem Rússar séu nú farnir að drekka meira af bjór og léttvíni, á kostnað vodkans.

Þá hafa forvarnaraðgerðir rússneskra stjórnvalda gegn ofneyslu áfengis einnig haft sitt að segja fyrir vodka framleiðendur þar í landi. Aðgerðirnar hafa til þessa einkum verið í formi skattahækkanna á áfengisframleiðendur, sem svo skila sér í hækkandi verði á vodka og öðru áfengi fyrir neytendur. Á tímum sem almenningur hefur minna á milli handanna vegna yfirstandandi kreppu getur slík verðþróun haft afar slæmar afleiðingar, bæði fyrir framleiðendur vodka, sem og forvarnaraðgerðir stjórnvalda. Líkt og gerðist fyrir um þrjátíu árum síðan þegar Mikhaíl Gorbatsjev var við stjórnvartaumana.

Auglýsing

Mikhaíl Gorbatsjev boðaði herferð gegn ofdrykkju áfengis í Sovétríkjunum í maí árið 1985. Þrátt fyrir harðar aðgerðir og mikinn áróður þá náði herferðin ekki tilskyldum árangri.  Mynd:  Ómar. Mikhaíl Gorbatsjev boðaði herferð gegn ofdrykkju áfengis í Sovétríkjunum í maí árið 1985. Þrátt fyrir harðar aðgerðir og mikinn áróður þá náði herferðin ekki tilskyldum árangri. Mynd: Ómar.

Gorbatsjev sagði áfenginu stríð á hendur 


Gorbatsjev var einungis búinn að vera aðalritari Kommúnistaflokks Sovétríkjanna í tæpa tvo mánuði þegar hann kynnti til sögunnar afar róttæka herferð gegn ofneyslu áfengis. Tölfræði sem þáverandi stjórnvöld höfðu látið taka saman sýndi hversu alvarlegt ástandið var orðið í landinu. Almenningur í Sovétríkjunum var þá að drekka nær tvöfalt meira magn af áfengi að meðaltali á ári heldur en það magn sem Alþjóðaheilbrigðisstofnunin, WHO, taldi vera bókstaflega lífshættulegt. Á meðal aðgerða sem Gorbatsjev boðaði voru að draga saman framleiðslu ríkisins á áfengi um þriðjung, en á þeim tíma hafði ríkisstjórnin einokunarstöðu á framleiðslu og sölu áfengis í Sovétríkjunum. Enn fremur var ákveðið að hækka söluverð áfengis um fjórðung og takmarka afgreiðslutíma þess í verslunum. Þá var lágmarksaldur til áfengiskaupa hækkaður úr átján árum upp í tuttugu og eitt ár.

Gorbatsjev var meðvitaður um að með aðgerðunum væri hann að höggva á einn helsta tekjustofn ríkisvaldsins síðustu aldirnar - sem var framleiðsla og sala á vodka. Hann útskýrði síðar í endurminningum sínum, frá árinu 1996, að reiknað hafi verið með tekjutapi vegna aðgerðanna. Vonir hafi hins vegar staðið til að aðgerðirnar myndu stuðla að betri heilsu og auknu vinnuframlagi almennings, sem ættu svo á hinn bóginn að vega upp á móti tekjutapinu.

Á pappírnum virtust aðgerðir Gorbatsjev vera að skila tilskyldum árangri. Sala á áfengi í Sovétríkjunum dróst saman um rúm fimmtíu prósent frá árinu 1985 til ársins 1988 og mælanleg meðalneysla almennings á sterku áfengi snarlækkaði frá ári til árs. Tölfræði getur hins vegar verið villandi og í þessu tilfelli gaf hún ekki rétta mynd af þeirri þróun sem var að eiga sér stað. Það var ekki nóg með að aðgerðirnar sem slíkar hafi skapað Gorbatsjev gríðarlegar óvinsældir í heimalandinu, heldur ýttu þær einnig undir óhemju mikla fjölgun á heimabruggi á sterku áfengi á meðal almennings. Aðgerðirnar misstu þannig marks og ríkisvaldið varð á sama tíma af háum fjármunum í formi áfengissölu. Hinn almenni borgari í Sovétríkjunum var því ekki endilega að drekka minna af áfengi - heldur var hann að drekka minna af „löglegu” áfengi.

Heimabruggaður landi eða “samogon” er vinsæll drykkur í Rússlandi. Þess ber að geta að einnig er hægt að kaupa drykk undir vörumerkinu samogon, en hann er vitanlega löglega bruggaður og vottaður af áfengiseftirlitinu. Á áletruninni á flöskuhálsinum stendur: “Þetta er ekki vodki! Prófaðu!”. Mynd: Ómar. Heimabruggaður landi eða “samogon” er vinsæll drykkur í Rússlandi. Þess ber að geta að einnig er hægt að kaupa drykk undir vörumerkinu samogon, en hann er vitanlega löglega bruggaður og vottaður af áfengiseftirlitinu. Á áletruninni á flöskuhálsinum stendur: “Þetta er ekki vodki! Prófaðu!”. Mynd: Ómar.

Samogon stelur senunni af vodka


Í gegnum tíðina hefur afar sterk hefð myndast hjá Rússum fyrir heimabruggi eða “landa”. Í Rússlandi er heimabruggið kallað “samogon” en áætlað er að um 250 milljón lítrar af ýmsum afbrigðum af drykknum séu framleiddir á ári, bæði til einkaneyslu og ólögmætrar sölu. Þannig hefur einnig sala á búnaði til heimabruggunar fimmfaldast á síðustu árum. Ekki endilega vegna kreppunnar, heldur vegna þess að heimabruggun er nú aftur komin í tísku, samkvæmt rússneska dagblaðinu Rossiyskaya Gazeta.

Á meðan sala á dýrustu tegundum vodka ýmist stendur í stað eða aukast má líklega rekja niðursveiflu ódýrustu vodka tegundanna að mestu leyti til samkeppninnar við samogon. Samkvæmt dagblaðinu RBC í Rússlandi er samogon allt að fjórum sinnum ódýrari en allra ódýrustu löglegu vodka tegundir sem fáanlegar eru á markaðnum. Dagblaðið heldur því jafnframt fram að ólöglegi markaðurinn, samogon og ólöglega innfluttur vodki, sé þegar orðinn stærri en löglegi vodka markaðurinn í Rússlandi.

Vadím Drobiz, sérfræðingur á sviði markaðssetningar á áfengi í Rússlandi, telur að vegna þess að verð á löglegum vodka hafi rokið upp síðustu misseri sé samogon nú að styrkja stöðu sína enn frekar á markaðnum. Þá sérstaklega utan stórborganna. “Ef þessi þróun heldur áfram þá sé ég fyrir mér að hægt verði að loka fyrir löglega sölu á vodka í dreifðari byggðum Rússlands. Á bilinu 20 til 30 milljónir Rússa munu einungis drekka heimabrugg á næstu árum,“ sagði Drobiz í samtali við rússneska dagblaðið Pravda.

Háleit markmið rússneskra stjórnvalda


Vladimír Pútín Rússlandsforseti hefur ítrekað mikilvægi þess að draga lærdóm af baráttu Gorbatsjev við ofneyslu áfengis fyrir þrjátíu árum síðan. Pútín varði þannig ákvörðun sína að frysta verð á vodka í lok árs 2014 með þeim rökum að hin sífellda hækkun verðs á vodka myndi óhjákvæmilega ýta undir heimabruggun og sölu á ólöglegu áfengi. Ekki eru þó allir sannfærðir um að rússnesk stjórnvöld séu að gera nóg í baráttunni og að aðgerðirnar séu hingað til meira í orði en á borði.

Mark Lawrence Schrad, höfundur bókarinnar Vodka Politics sem kom út árið 2014, er á meðal þeirra sem harðlega gagnrýna núverandi stjórnvöld í Rússlandi fyrir aðgerðarleysi í baráttunni gegn ofdrykkju áfengis. Schrad vill meina að Pútín og forsætisráðherrann Dimítrí Medvedev kasti fram stórum orðum þegar við á, en að gjörðir fylgi sjaldan fögrum fyrirheitum. Rússnesk stjórnvöld nái einfaldlega ekki að fylgja eftir eigin löggjöf. Þess vegna flæði ólöglegt áfengi um markaðinn í Rússlandi og þess vegna sé heilbrigðiskerfið ekki reiðubúið að aðstoða alla þá sem eigi við áfengisvandamál að stríða í landinu. Schrad vill meina að stjórnvöld einblíni of mikið á fjárhagslegt öryggi þjóðarbúsins í stað þess að hafa áhyggjur af heilsu almennings í Rússlandi.

Á meðal yfirlýstra markmiða stjórnvalda í baráttunni er að minnka meðal alkóhólneyslu Rússa um helming fyrir árið 2020, en samkvæmt skýrslu Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar frá 2014 var Rússland í fjórða sæti yfir drykkfeldustu þjóðir heims. Enn fremur ætla stjórnvöld að stuðla að hækkun meðal lífaldurs í Rússlandi í sjötíu og fimm ár fyrir árið 2025, en Rússar hafa til þessa ekki þótt standa framarlega í lýðheilsumálum. Þá hefur áfengiseftirlit ríkisins boðað að stór forvarnarherferð muni hefjast seinna á þessu ári. Herferðin mun einblína á að upplýsa ungt fólk um skaðsemi ofneyslu áfengis.

Hasarmyndahetja og bardagakappi berjist gegn „búsi


Hugmyndir eru uppi um að hasarmyndahetjan Steven Seagal og hnefaleikakappinn Roy Jones Jr. verði fengnir til þess að vera andlit nýju forvarnarherferðarinnar, ef marka má nýlega frétt í rússneska dagblaðinu Izvestia. Bandaríkjamennirnir Seagal og Jones Jr. eru báðir sagðir vinsælir á meðal yngri kynslóðarinnar í Rússlandi ásamt því að vera þekktir fyrir að vera hliðhollir Rússlandi og þá sérstaklega Rússlandsforseta.

Pútín Rússlandsforseti og kvikmyndaleikarinn Steven Seagal eru miklir vinir en Seagal hefur lýst því yfir í rússneskum fjölmiðlum að hann vilji hjálpa Rússum í baráttunni gegn ofneyslu áfengis. Mynd: EPA. Pútín Rússlandsforseti og kvikmyndaleikarinn Steven Seagal eru miklir vinir en Seagal hefur lýst því yfir í rússneskum fjölmiðlum að hann vilji hjálpa Rússum í baráttunni gegn ofneyslu áfengis. Mynd: EPA.

Vinátta Seagal og Pútín hefur raunar staðið í mörg ár en báðir voru þeir viðstaddir viðskiptaráðstefnu í Vladivostok í Rússlandi í byrjun september. Aðspurður á ráðstefnunni kvaðst Seagal gjarnan vilja leggja hönd á plóg í herferð Rússa gegn ofneyslu áfengis, samkvæmt frétt Izvestia. Hvað varðar tengsl Jones Jr. við Rússland þá greindi opinber heimasíða Kremlar frá því um þar síðustu helgi að Pútín hefði ákveðið að veita Jones Jr. flýtimeðferð til að öðlast rússneskan ríkisborgararétt, gegn því að hnefaleikakappinn myndi leggja sitt af mörkum til rússnesks samfélags. Hvort að kraftar Jones Jr. verði svo nýttir til forvarnarstarfsemi skýrist væntanlega fljótlega.

Hvernig sem því líður þá er alla vega ljóst að mörg spjót standa að framleiðendum vodka í Rússlandi og margir samverkandi þættir sem skýra minnkandi vægi drykkjarins, sem eitt sinn var þar allt í öllu.

Höfundur er sagnfræðingur og markaðsfræðingur, búsettur í Moskvu.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Örn Bárður Jónsson
Ný stjórnarskrá í 10 ár – Viska almennings og máttur kvenna
Kjarninn 29. júlí 2021
Til að fá að fljúga með flugfélaginu Play verða farþegar að skila inn vottorði um neikvæða niðurstöðu úr PCR-prófi eða hraðprófi.
Hafa þurft að vísa vottorðalausum farþegum frá
Flugfélagið Play hefur fengið jákvæð viðbrögð við þeirri ákvörðun að meina farþegum um flug sem ekki hafa vottorð um neikvætt COVID próf. Fyrirkomulagið verður enn í gildi hjá Play þrátt fyrir að vottorðalausum muni bjóðast sýnataka á landamærunum.
Kjarninn 29. júlí 2021
Kamilla Jósefsdóttir og Alma Möller landlæknir.
Sértæk bóluefni gegn delta-afbrigði „okkar helsta von“
Frá því að fjórða bylgja faraldursins hófst hér á landi hafa sextán sjúklingar legið á Landspítala með COVID-19. Tíu eru inniliggjandi í dag, þar af tveir á gjörgæslu.
Kjarninn 29. júlí 2021
Kort Sóttvarnastofnunar Evrópu sem uppfært var í dag.
Ísland orðið appelsínugult á korti Sóttvarnastofnunar Evrópu
Mikil fjölgun greindra smita hér á landi hefur haft það í för með sér að Ísland er ekki lengur grænt á korti Sóttvarnastofnunar Evrópu. Væru nýjustu upplýsingar um faraldurinn notaðar yrði Ísland rautt á kortinu.
Kjarninn 29. júlí 2021
Jóhann Björn Skúlason, yfirmaður smitrakningateymis almannavarna.
Smitrakningunni „sjálfhætt“ ef fjöldi smita vex gríðarlega úr þessu
Miklar annir eru nú hjá smitrakningarteymi almannavarna. Á bilinu 180-200 þúsund notendur eru með smitrakningarforrit yfirvalda í símum sínum og það gæti reynst vel ef álagið verður svo mikið að rakningarteymið hafi ekki undan. Sem gæti gerst.
Kjarninn 29. júlí 2021
Ari Trausti Guðmundsson
Faraldur er ekki fyrirsjáanlegur
Kjarninn 29. júlí 2021
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra.
„Ekki má hringla með marklínuna“
Dómsmálaráðherra vonar að stjórnarandstöðunni „auðnist ekki að slíta í sundur þá einingu sem ríkt hefur meðal landsmanna í baráttunni gegn veirunni“. Samhliða útbreiddri bólusetningu þurfi að slá nýjan takt og „leggja grunn að eðlilegu lífi á ný“.
Kjarninn 29. júlí 2021
Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja.
Samherji kannar hvernig afsökunarbeiðnir leggjast í landann
Þátttakendur í viðhorfahópi Gallup fengu í vikunni sendar spurningar um Samherja. Fyrirtækið, sem baðst tvívegis afsökunar fyrr í sumar, virðist fylgjast grannt með almenningsálitinu.
Kjarninn 29. júlí 2021
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar
None