„Aðkoma stjórnvalda að kjarasamningum á almennum vinnumarkaði er óhjákvæmileg því staðan kallar á mikilvægar breytingar á grundvallarkerfum íslensks samfélags. Stjórnvöld verða að koma að borðinu með samtökum launafólks og atvinnurekenda eigi kjarasamningaviðræður að skila þeim ávinningi sem vonir standa til. VR og LÍV gera þær kröfur til stjórnvalda að þau afnemi verðtryggingu á neytendalánum, lækki álögur og skatta á launafólk og lækki virðisaukaskatt á nauðsynjavörum.“
Þetta kemur fram í kröfugerð VR sem þetta stærsta stéttarfélag á Íslandi hefur birt Samtökum Atvinnulífsins, mótaðila þess við gerð kjarasamninga sem eru lausir í haust. VR krefst þess einnig að stjórnvöld minnki skerðingar í almannatryggingakerfinu, afnemi tekjutengingar bóta og niðurgreiði sálfræðiaðstoð.
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, sagði við Morgunblaðið um miðjan þennan mánuð að hann vildi takmarkaða aðkomu ríkisins að kjarasamningum. Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hefur talað á svipuðum nótum. Í viðtali við RÚV í síðustu viku sagði hann: „„Við höfum verið að bregðast við ábendingum um hluti sem mættu betur fara, þar vantar framboð af húsnæði, en að öðru leyti finnst mér að stjórnvöld eigi að halda sig frá hinum eiginlegu samningaviðræðum, aðilar verða að axla ábyrgðina á því að ná saman.“
Efling, næst stærsta stéttarfélag landsins, hefur ekki birt kröfugerð sína en í síðustu útgáfu Kjarafrétta, sem félagið heldur úti, kom fram að ríkið þyrfti að leggja fram stóran pakka til liðka fyrir kjarasamningagerð.
Vilja fjögurra daga vinnuviku
VR vill að samið verið til þriggja ára, eða til loka októbermánaðar 2025. Í kröfugerðinni er ekki sett fram bein krafa um launahækkun heldur sagt að kjarasamningarnir þurfi að verja þann árangur sem náðist í Lískjarasamningunum sem gerðir voru árið 2019. Aukinn kaupmáttur ráðstöfunartekna liggi til grundvallar launakröfum. Launafólk eigi að gæta lifað mannsæmandi lífi á dagvinnulaunum og lágmarkslaun eigi að duga til framfærslu.
VR gerir þá kröfu að vinnuvikan verði stytt í fjóra daga, eða sem samsvarar 32 tímum á viku, á samningstímanum án þess að laun verði skert og að allt félagsfólk fái rétt til 30 orlofsdaga á ári.
Uppsagnarfrestur sumra verði lengdur verulega
Þá gerir VR kröfu um að uppsagnarfrestur, sem vanalega er þrír mánuðir, þeirra sem hafa langan starfsaldur verði lengdur þannig að ef viðkomandi hefur unnið hjá sama atvinnurekanda í tíu ár sé fresturinn fjórir mánuðir, ef starfsaldurinn sé 15 ár verði hann fimm mánuðir og hálft ár hjá þeim sem hafa unnið í að minnsta kosti 20 ár hjá sama atvinnurekanda. Starfsmenn eiga hins vegar að halda þeim rétti að segja upp starfi með þriggja mánaða fyrirvara.
Í kröfugerðinni er þess einnig krafist að rammasamningur um fjarvinnu verði tekinn til gagngerrar endurskoðunar „með það í huga að tryggja betur réttindi fjarvinnustarfsfólks og ásættanlega vinnuaðstöðu, starfsfólki að kostnaðarlausu.“ Kórónuveirufaraldurinn hafi sýnt að fjarvinna sé orðin ómissandi hluti af vinnuumhverfinu og við því þurfi að bregðast. VR gerir einnig þá kröfu að félagsfólk hafi „frelsi til þess að vinna í fjarvinnu þegar aðstæður leyfa, sveigjanleikinn verði aukinn og tryggt að samþykki beggja aðila liggi fyrir.“
Vilja að sjóðsfélagar kjósi fulltrúa í stjórnir
VR gerir einnig kröfu um aukið atvinnulýðræði starfsfólks, sem felur í sér að það geti kosið fulltrúa sinn í stjórn fyrirtækis sem það starfi hjá, og stóraukið sjóðsfélagslýðræði í lífeyrissjóðum, sem felur í sér að sjóðsfélagar geti kosið fulltrúa í stjórn þeirra.
Er þar lagt til að „stéttarfélögin og atvinnurekendur komi sér saman um að helmingur stjórnar lífeyrissjóða verði kosinn beinni kosningu af sjóðfélögum á samningstímanum.“
Ýmsar aðrar kröfur eru settar fram, svo sem að fleiri dagar verði skilgreindir sem stórhátíðardagar. Er þar sérstaklega talað um 1. maí og aðfanga- og gamlársdag, en þeir tveir síðarnefndu eru sem stendur einungis skilgreindir sem stórhátíðardagar eftir klukkan 12.
Þá fer VR fram á að atvinnurekendur greiði ferðakostnað félagsfólks sem býr utan höfuðborgarsvæðisins þegar almenningssamgöngur eru ekki í boði.