Yfirmenn dönsku leyniþjónustunnar sögðu forsætis- og dómsmálaráðherrum landsins ósatt um fjölmargt varðandi viðbrögð lögreglunnar eftir hryðjuverkin í Kaupmannahöfn 14. og 15. febrúar síðastliðinn. Þetta kemur fram í skýrslu rannsóknarnefndar. Yfirmaður leyniþjónustunnar, PET, tilkynnti um uppsögn sína klukkustund áður en skýrslan var gerð opinber og hættir 1. júní nk.
Mette Frederiksen dómsmálaráðherra kynnti skýrslu rannsóknarnefndar lögreglunnar á fundi með fréttamönnum sl. fimmtudag. Rannsóknarnefndin starfar algjörlega sjálfstætt og heyrir beint undir ráðherrann.
Hryðjuverkin
Eins og mörgum er líklega í fersku minni réðst ungur maður, Omar El- Hussein að nafni, til atlögu við samkomuhúsið Krudttønden á Austurbrú laugardagionn 14. febrúar. Þá stóð þar yfir fundur um tjáningarfrelsi og meðal fundarmanna var sænski teiknarinn Lars Wilks sem meðal annars hafði teiknað Múhameð spámann í hundsgervi. Einn maður lést, danski kvikmyndagerðarmaðurinn Finn Nörgaard.
Þetta gerðist um hálffjögur síðdegis. Tilræðismaðurinn komst undan. Rúmum níu klukkustundum síðar, skömmu fyrir klukkan eitt aðfaranótt sunnudagsins 15. febrúar kom Omar El- Hussein að bænahúsi gyðinga við Krystalgade í Kaupmannahöfn. Þar skaut hann einn mann til bana, sá var vörður við húsið, Dan Uzan að nafni. Aftur komst Omar El- Hussein undan en rétt fyrir klukkan fimm á sunndagsmorgninum skaut lögreglan hann til bana fyrir utan hús í norðurhluta Kaupmannahafnar.
Árásin átti sér stað á Krudttønden.
Forsætisráðherrann brást skjótt við
Helle Thorning-Schmidt forsætisráðherra brást skjótt við, kallaði saman sérstaka neyðarnefnd ríkisstjórnarinnar og hélt fréttamannafund strax á laugardagskvöldinu. Það var áður en tilræðismaðurinn lét til skarar skríða í seinna skiptið. Þar fór hún yfir atburðarásina eins og yfirmaður leyniþjónustunnar hafði lýst henni. Forsætisráðherrann þótti standa sig vel við þessar erfiðu og óvanalegu aðstæður, vera landsföðurleg eins og það var orðað.
Um nóttina komu svo fréttirnar af seinna tilræðinu og á sunnudagsmorgninum þau tíðindi að tilræðismaðurinn, sem hefði verið að verki í bæði skiptin, hefði fallið fyrir byssukúlum lögreglu. Lögreglan handtók síðar þann dag fimm menn sem voru taldir vitorðsmenn, eða samverkamenn tilræðismannsins. Þrír þeirra sitja enn í gæsluvarðhaldi og sömuleiðis tveir sem handteknir voru síðar.
Helle Thorning-Schmidt, forsætisráðherra Danmerkur, þótti standa sig afar vel við erfiðar aðstæður sem sköpuðust eftir árásirnar. MYND:EPA
Skýrslan
Nokkrum dögum eftir þessa atburði, sem eiga sér vart, eða ekki, hliðstæðu í Danmörku óskaði Mette Frederiksen dómsmálaráðherra eftir skýrslu rannsóknarnefndar lögreglunnar. Ráðherrann óskaði eftir að nefndin ynni hratt og skýrslan, 142 blaðsíður, barst ráðherranum fyrir nokkrum dögum.
Óhætt er að segja að skýrslunnar hafi verið beðið með nokkurri eftirvæntingu því spurst hafði út að þar kæmi ýmislegt fram sem ekki væri beinlínis í samræmi við það sem lögregluyfirvöld hefðu áður greint forsætis- og dómsmálaráðherrunum frá. Það reyndust orð að sönnu. Atburðarásin, og viðbrögð lögreglu voru um margt mjög frábrugðin því sem greint var frá í upphafi.
Engin gæsla við samkomuhúsið
Vitni greindu frá því að tilræðismaðurinn hafi komi gangandi að samkomuhúsinu Krudttønden. Þegar hann átti eftir tuttugu til þrjátíu metra að húsinu dró hann upp byssuna og skrúfaði hlaupið á. Síðan gekk hann rakleiðis að húsinu án þess að verðirnir tveir sem voru í anddyrinu veittu honum minnstu athygli.
Samkvæmt frásögnum vitnis sat annar varðanna, með kaffibolla í hendi, og snéri baki að innganginum. Hinn var að skoða eitthvað í símanum. Vitnið sagði að þessir tveir hefðu einfaldlega sofið á verðinum.
Samkvæmt frásögnum vitnis sat annar varðanna, með kaffibolla í hendi, og snéri baki að innganginum. Hinn var að skoða eitthvað í símanum. Vitnið sagði að þessir tveir hefðu einfaldlega sofið á verðinum. Fleiri verðir voru á staðnum en þeir voru inni í samkomusalnum og sáu þess vegna ekki hvað fram fór. Kvikmyndagerðarmanninn sem lést skaut Omar El- Hussein af stuttu færi eftir stutt orðaskipti og komst svo undan, enginn vissi hvert hann fór. Ráðherrarnir fengu í upphafi mjög takmarkaðar upplýsingar um verðina og vitnisburður mannsins sem sá til varðanna var ekki skráður í skýrslur lögreglu í upphafi.
Á fréttamannafundi daginn eftir tilræðin sagði Helle Thorning-Schmidt forsætisráðherra að strax og fréttir hefðu borist af tilræðinu við samkomuhúsið hefði lögreglan sent verði að bænahúsi gyðinga við Krystalgade. Þessar upplýsingar fékk ráðherrann frá leyniþjónustunni. Síðar kom í ljós að þetta var víðsfjarri sannleikanum.
Engin gæsla fyrr en fjórum klukkustundum seinna
Það var ekki fyrr en tæpum fjórum klukkustundum síðar sem verðir komu að bænahúsinu en þá höfðu forsvarsmenn gyðinga margsinnis hringt til lögreglunnar og óskað eftir öryggisgæslu við bænahúsið. Formaður samtaka gyðinga sagði að gyðingar hefðu verið þess fullvissir að þeir væru skotmarkið og óttast um líf sitt.
Enginn vissi hvar tilræðismaðurinn var niðurkominn en stór hluti miðborgar Kaupmannahafnar var nánast lokaður af og mörg hundruð lögreglu-og hermenn á götunum.
Hvernig komst tilræðismaðurinn að bænahúsinu?
Þessari spurningu hefur ekki verið svarað með fullnægjandi hætti. Fram hefur komið að samtals voru sex lögreglumenn við bænahúsið. Tveir í garðinum, innan við hliðið sem snýr að götunni og fjórir á götuhornum í næsta nágrenni.
Engin skýring hefur fengist á því hvernig Omari El- Hussein tókst að komast framhjá þeim og að hliðinu við bænahúsið. Þegar vörður sem starfaði sem sjálfboðaliði við bænahúsið ávarpaði hann dró Omar El- Hussein upp byssu og skaut vörðinn, sem lést af sárum sínum.
Sannarlega víti til varnaðar
Þegar Mette Frederiksen dómsmálaráðherra kynnti skýrslu rannsóknarnefndarinnar lagði hún megináherslu á þrennt. Í fyrsta lagi að við (eins og hún orðaði það) hefðum brugðist gyðingum með því að bregðast allt of seint við og lögreglan og leyniþjónustan hreinlega ekki verið við því búnar að atburðir sem þessir gætu átt sér stað.
Mette Fredriksen dómsmálaráðherra Danmerkur.
Í öðru lagi væri það mjög alvarlegt að leyniþjónustan hefði beinlínis sagt ráðherrum ósatt, slíkt væri algjörlega óviðunandi. Stjórnvöld yrðu að geta treyst yfirstjórn lögreglunnar og þótt sannleikurinn væri kannski óþægilegur á stundum þýddi það ekki að honum mætti hagræða til að fegra hlutina.
Í þriðja lagi væri svo það að hér væri um að ræða hryðjuverk þess eðlis sem Danir hefðu blessunarlega ekki áður kynnst og það kalli á önnur vinnubrögð. Með því sagðist ráðherrann eiga við að í samfélaginu vaxi upp einstaklingar sem víli ekki fyrir sér að ráðast gegn samborgurum sínum með þeim hætti sem hér gerðist. "Hvernig við getum komið í veg fyrir slíkt er stór og erfið spurning sem við verðum að takast á við" sagði ráðherrann og bætti við "Hvað er það í samfélagi okkar og uppvexti ungmenna sem verður til þess að búa til slíkt hatur í garð samborgaranna ?"
Yfirmaður leyniþjónustunnar tilkynnti afsögn
Þótt Mette Frederiksen dómsmálaráðherra væri kurteis og gætin í orðavali þegar hún kynnti skýrslu rannsóknarnefndarinnar gat engum dulist tónninn í orðum hennar. Þegar fréttamannafundurinn hófst var rúm klukkustund frá því að yfirmaður leyniþjónustunnar Jens Madsen tilkynnti um uppsögn sína. Hvorki hann né ráðherrann vildu beinlínis tengja uppsögnina við skýrsluna en "við skiljum nú áður en skellur í tönnum" sagði einn fréttamanna þegar ráðherrann vildi ekki tala um uppsögnina.
Jens Madsen hafði aðeins verið yfirmaður leyniþjónustunnar í rúma sextán mánuði þegar hann sagði af sér. Hann var áður yfirmaður rannsóknardeildar lögreglunnar.
Jens Madsen sem hafði aðeins verið yfirmaður leyniþjónustunnar í rúma sextán mánuði var áður yfirmaður rannsóknardeildar lögreglunnar.