Nú er árið 2016 rétt handan við hornið, aðeins örfáar vikur í áramótin. Á því herrans ári hefur Ólafur Ragnar Grímsson verið forseti Íslands í tuttugu ár, nánar tiltekið síðan árið 1996. Á þessum langa tíma hefur hann gert ærið margt, sumt gott að sumra mati, annað slæmt í augum annarra og þannig þvers og kruss út í hið óendanlega, enda er Ólafur Ragnar svipsterkur karakter sem gustar af.
Stundum hef ég dáðst að núverandi forseta, stundum býsnast yfir honum, stundum örvænt út af einhverju sem hann gerði eða sagði – en þær stundir hafa samt komið að ég hef verið þakklát honum. Ég á vini til vinstri og hægri sem jafnframt hafa ýmist dáðst að honum eða gagnrýnt hann harkalega í gegnum tíðina og það er kannski ekkert skrýtið þegar um svo langan tíma er að ræða og mann sem hefur aldrei óttast að taka umdeildar ákvarðanir.
En nú um daginn hringdi systir mín í mig. Ein heima, með ungabarn á brjósti og annað að dunda sér með dúkkur í skammdegisrökkrinu, dæsti hún: Veistu, ég er orðin 37 ára og Ólafur Ragnar er búinn að vera forseti síðan ég fékk kosningarétt. Mér finnst það bara svolítið skrýtið og ég veit eiginlega ekki af hverju ég er að velta mér upp úr því en mér bara finnst það ekki eðlilegt.
Útspekúlerað hugsunarleysi
Systir mín hljómaði buguð í þessum óvæntu vangaveltum sínum um forsetann. Hún er réttsýn hugsjónamanneskja sem á erfitt með að kyngja því sem henni þykir rangt. Hún er jafnframt af kynslóðinni sem flækti sig einna mest í netum Hrunsins og tók afleiðingum alls þess sem útrásarvíkingarnir brölluðu í útlöndum með blessun Ólafs Ragnars sem virtist á köflum vera sjálfskipaður kynningarfulltrúi þeirra í hjástörfum. Hún veit auðvitað að hann hafnaði Icesave-samningnum – eins og við höfum öll verið svo rækilega minnt á að einhver okkar vilja helst deyja fyrir Ólaf Ragnar, að minnsta kosti á Facebook. En hún veit líka að hann er forseti loftbólunnar sem við kölluðum um tíma góðæri og eigum ennþá svo langt í land með að greina og gangast við til fullnustu að það hriktir reglulega í stoðum samfélagsins.
Í kjölfar hryðjuverkanna í París hefur ýmsum þótt Ólafur Ragnar sundra þjóðinni frekar en sameina og ala á fordómum með nokkuð einhæfum málflutningi sem jaðrar við að vera ábyrgðarlaus. Raunar hefur Ólafur Ragnar ósjaldan verið sakaður um að sundra þjóðinni frekar en sameina hana og fólk nánast hætt að kippa sér upp við annað eins. Þegar hann tjáði sig um voðaverkin í sjónvarpsfréttum tautaði ég fyrst eitthvað á þá leið að þetta væri svo hugsunarlaust tal að ætla mætti að hann væri aðeins forseti ákveðinna hópa í þjóðfélaginu – en svo runnu á mig tvær grímur. Gat verið að þetta væri einmitt andstæðan: útspekúlerað tal til að höfða til íslenskra kjósenda í þessum tilteknu hópum?
Hakkavél slúðurmiðla
Það er erfitt að segja til um ásetning hins ófyrirsjáanlega forseta, í þessu máli sem öðrum. Þessa dagana eru veðbankar í gangi út um allan bæ. Fólk spyr: Ætlar hann að bjóða sig fram einu sinni enn?
Og eina ferðina enn fáum við að bíða í óvissu um hvað Ólafur Ragnar ætli að gera og meðan fjara önnur hugsanleg framboð út, krafturinn vætlar smám saman úr þeim, allir vita jú hvernig fór fyrir Þóru. Maki hennar tættur í sundur í hakkavél slúðurmiðla og hún fyrst látin finna almennilega fyrir kosningavél Ólafs Ragnars þegar hún var hvað varnarlausust að fæða barn. Hver treystir sér til að glíma við annað eins? Líkast til þarf þaulreyndan knattspyrnumann til þess að tækla svo miskunnarlausan andstæðing.
En hvort sem Ólafur Ragnar ætlar sér að vera forseti til æviloka eða ekki, þá er hann ekki lengur forseti okkar systra. Hann var það kannski, níutíu og eitthvað, jafnvel upp úr síðustu aldamótum. Þegar foreldrar okkar voru á besta aldri og veröldin ennþá ung. En nú erum við sjálfar miðaldra konur, gætum líffræðilega verið ömmur, og okkur þyrstir í að samfélagið sem fóstrar börnin okkar öðlist nýja táknmynd. Forseta sem stendur fyrir nýja tíma, ekki gamlan hrunforseta sem var á sínum tíma ansi reffilegur en virðist vera orðinn talsmaður ákveðinna pólitískra afla í þjóðfélaginu og að sama skapi áhugalaus um að vera ásjóna og rödd ólíkra hópa í fjölbreyttu, flóknu nútímasamfélagi.
Kominn tími á konu á Bessastaði
Forseti Íslands er maður sem stendur fyrir tímabil sem við, sem þjóð, þurfum svo sárlega að halda áfram að gera upp – og þannig dregur hann móðinn úr okkur. Samfélagið þarf tákn um nýja tíma og nýja menningu, ef ekki á að leggja forsetaembættið niður.
Núverandi forseti þarf að bera nógu mikla virðingu fyrir þjóðinni til að sitja ekki, einna líkastur einræðisherra, í næstum því aldarfjórðung á Bessastöðum.
Auðvitað hefur Ólafur Ragnar látið til sín taka á mikilvægum vígstöðvum, eins og ýmsu því sem lýtur að loftslagsbreytingum og alþjóðasamskiptum. En hann er ekki einn um að geta ljáð Íslandi mikilvæga rödd. Þvert á móti þarf forseti sem álítur að hann sé ómissandi að hugsa sinn gang. Þá fyrst er hætta á ferðum. Það verður alltaf til fólk sem vill hengja sig utan í slíkan þjóðhöfðingja, valdið heillar vissulega. En sem betur fer er líka til fólk sem aðhyllist lýðræðislegri og heilbrigðari skipan mála.
Persónulega finnst mér vera kominn tími til að fá aftur konu á Bessastaði. Við skráðum okkur á spjöld sögunnar þegar við höfðum vit á að kjósa Vigdísi Finnbogadóttur árið 1980. Hvers vegna ekki að halda þeirri glæsilegu arfleifð á lofti? Í næstum tvo áratugi hefur karl verið forseti Íslands. Er ekki bara réttlátt að það verði næst kona? Ég er viss um að hún systir mín með litlu dætur sínar tvær heima í stofu myndi gleðjast yfir því.