Nýlega birtust tvær burðargreinar í Der Spiegel, önnur um Angelu Merkel í mótbyr og hin um Donald Trump í meðbyr. Þessi vönduðu skrif segja sögu sem er því miður sönn.
Mannkynssagan virðist í stuttu máli sagt dæmd til að endurtaka sig, aftur og aftur, með hryllilegum afleiðingum.
Donald Trump hótar því að gera múslima brottræka frá Bandaríkjunum og lýsingarnar á viðhorfum hans í greininni voru svo gasalegar að ég kíkti lítillega á bandaríska netmiðla og rakst fyrir tilviljun á pistil eftir fastan pistlahöfund hjá The New York Times, Ross Douthat nokkurn. Sá prédikar nauðsyn þess að koma Angelu Merkel frá völdum vegna stefnu hennar í málum fólks í leit að vernd en til að rökstyðja það setur hann hryðjuverkin í París undir sama hatt og ofbeldið sem konur í Köln urðu fyrir á gamlárskvöld.
Engu skiptir þó að hryðjuverkin séu þaulskipuð aðgerð hryðjuverkamanna en ofbeldismennirnir í Köln upp til hópa götustrákar frá Marokkó sem hafa margir verið á vergangi síðan í bágri barnæsku – allt virðist mega skrifa á flóttafólk frá Sýrlandi þessa dagana.
Fjölskyldufólk úr millistétt, fyrst og fremst umhugað um að bjarga börnunum sínum, er umsvifalaust flokkað sem mögulegir hryðjuverkamenn eða kynferðisofbeldismenn.
Ekki bætti úr skák nú í vikunni þegar hjón frá Alsír, dulbúin sem fjölskylda á flótta frá Sýrlandi, voru handtekin í búðum fyrir flóttafólk, grunuð um að leggja á ráðin um stórtæk hryðjuverk á vinsælum túristastöðum í Berlín.
Traðkað á lýðræðinu
Því miður færist það stöðugt í vöxt að fólk leyfi sér í tilfinningahita óttans við hið óþekkta að halda því blákalt fram sem heldur engu vatni. Á sama tíma freistast einstaka blaðamenn til að verða málpípur voldugra afla í þjóðfélaginu.
Við – og komandi kynslóðir eigi þær að fá að vaxa úr grasi – eigum ólýsanlega mikið undir góðri blaðamennsku komið í tíðaranda sem verður stöðugt eldfimari og geggjaðri en um leið eru fjölmiðlar heimsins flæktir í net hagsmunaafla.
Og það er kannski mesta ógnin sem steðjar að hinu margtuggða tjáningarfrelsi.
Helstu talsmenn tjáningarfrelsis í orði eru stundum þeir sem misnota það á borði. Donald Trump geysist um Bandaríkin og kyndir undir ótta fólks við múhameðstrú í nafni skrumskældrar hugmyndar um frelsi á sama tíma og hann lætur henda þeim út úr sjónvarpssal sem styðja hann ekki í blindni. Í nafni frelsis traðkar hann jafnt á frelsi til tjáningar og frelsinu til að iðka sína trú. Hann traðkar á grunnstoðum lýðræðisins í nafni frelsis. Því miður er hann ekki einn um það, þessi maður sem er gegnsósa af mannfyrirlitningu, og hræðilegt að hann hafi náð svo langt í forsetaframapoti sínu sem raun ber vitni.
Afhjúpun
Eftir fjöldamorðin á ritstjórn Charlie Hebdo er mörgum umhugað um þessa grunnstoð lýðsræðissamfélagsins, tjáningarfrelsið. Skiljanlega. Því tjáningarfrelsið er lýðræðinu eins mikilvægt og lungun manneskjunni. Mikilvægi tjáningarfrelsisins býður samt upp á að hægt sé að misnota það á ýmsa vegu. Það afhjúpar okkur þegar við könnum þanþol þess; ofbjóðum öðrum, mistnotum aðstöðu okkar og göngum á hlut annarra, fróum okkur hvert á öðru og nuddum okkur utan í grá svæði eins og langt leiddir kynlífsfíklar. Það afhjúpar okkar innsta eðli, þrár okkar og mótsagnakenndar kenndir. Og rasisma.
Um daginn birtist skopmynd í Charlie Hebdo sem gaf til kynna að Alan Kurdi, litla drengurinn sem fannst látinn í fjöruborði eftir að hafa drukknað á flótta með fjölskyldu sinni, hefði orðið kynferðisafbrotamaður í Evrópu hefði hann komist til vits og ára.
Mér brá hrottalega við að sjá þessa skopmynd, enda hafði ég fullyrt í pistli hér á Kjarnanum að skopmyndir af múslimum í Charlie Hebdo væru ekki sambærilegar við skopmyndir af gyðingum í aðdraganda seinni heimsstyrjaldarinnar. Ég er ekki lengur viss lengur um að ég hafi haft rétt fyrir mér þar.
En á móti kemur að það er fengur í þessari mynd því hún afhjúpar mannhatrið og fyrirlitninguna á múslimum sem virðist vera á góðri leið með að verða stueren – eins og Danir segja – í ýmsum velmektarlöndum heimsins. Þessi mynd fyllti mig sjálfsfyrirlitningu og sorg.
En það verður alltaf til fólk sem hugsar: Ég á þetta, ég má þetta! Frelsið er mitt – ekki þitt.
Áróðursstríð Rússa
Tímar sem þessir krefjast mikils af bæði blaðamönnum og lesendum og um það fjallaði pistill eftir Klaus Brinkbäumer, aðalritstjóra Der Spiegel, ekki alls fyrir löngu. Der Spiegel er í eigu blaðamannanna sem þar vinna þá og þegar og á því ekkert undir öðrum komið en ritstjórninni. En á ólgutímum sæta blaðamenn þar samt ýmsum ásökunum um að draga taum ólíkra aðila.
Tímum þar sem enginn skortur er á furðulegum uppákomum. Til dæmis bendir ýmislegt til þess að rússneskir ráðamenn séu farnir að heyja áróðursstríð í von um að heilaþvo fólk af rússneskum uppruna í Þýskalandi, að því er virðist til að gera Angelu Merkel lífið leitt.
Ráðamenn í Rússlandi hafa undanfarið látið öllum illum látum út af stúlku af rússneskum ættum sem hvarf um tíma og sagði foreldrum sínum að sér hefði verið nauðgað af hópi dökkleitra innflytjenda. Þýska lögreglan kvittaði ekki upp á þetta og þegar á reyndi játaði stúlkan að hún hefði verið að fela sig yfir ströngum foreldrum á heimili vinar síns. En ráðamenn í Rússlandi vilja ólmir telja sínu fólki trú um að þarna hafi flóttamenn nauðgað rússneskri stúlku og það sé Merkel að kenna.
Stórhættuleg öfl
Það er nóg af kandídötum í heiminum sem vilja telja fólki trú um að lýðræðinu stafi hætta af flóttafólki þegar raunin er sú að lýðræðinu stafar mesta hættan af þeim sjálfum. Þetta eru stórhættuleg öfl sem sumir pólitískir þjóðfélagsrýnar hér í Þýskalandi vilja meina að sé ekki seinna vænna að stöðva eigi þau ekki að ná yfirhöndinni.
Umræðan í Þýskalandi minnir nánast á ofsafengnar jarðhræringar þessa dagana. Frauke Petry, forsprakki popúlistaflokksins Alternativ für Deutschland – þriðja stærsta stjórnmálaflokks Þýskalands – er vel til höfð kona á aldur við sjálfa mig, lekker og lagleg móðir með íbyggið bros. Hún vill ganga svo langt að skjóta á flóttafólk nálgist það þýsk landamæri og fer ekki dult með það.
Hún er ekki ein um að flagga mannhatrinu stolt. Frændur okkar Danir veigra sér ekki við að hirða persónulegar eigur af flóttafólki; skartgripi jafnt sem farsíma, ef eitthvað er að marka grein sem ég rakst á um daginn – en símarnir ku vera það dýrmætasta sem manneskja á flótta á, það sem heldur tilveru hennar saman. Danir hrista gagnrýnina harðsvíraðir af sér því síðasta áratuginn hefur Danski þjóðarflokkurinn náð að magna hatursorðræðu í garð innflytjenda upp úr öllu valdi og nota völd sín til að gera gallsúran boðskapinn almennan. Hræsnin vefst ekki fyrir þeim og nú eru danskir stjórnmálamenn sármóðgaðir yfir að skopmyndateiknari úti í heimi hafi líkt þeim við svín. Það er ekki sama hver teiknar skopmynd af hverjum og hvenær.
Pútín á fjósbitanum
Í Danmörku má sýnilega hæðast að múslimum en ekki Dönum. Þetta er reyndar kjánalegur samanburður því múslimar eru ekki þjóðríki heldur milljónir manna sem lifa í ólíkum menningarsamfélögum í ólíkum löndum og aðhyllast ólíka lífshætti. En þegar ætlunin er að tala gegn fordómum hættir manni til að tala í alhæfingum sem eiga ekki við rök að styðjast. Þannig er álíka fordómafullt að bera blak af múslimum sem slíkum eins og að gagnrýna þá sem eina heild. Fólk sem aðhyllist múhameðstrú er jú bara allskonar fólk. Sjálf hef ég fallið í þá gryfju að tala um fjölskylduvænan menningarheim múslima í eintölu sem er heimskulegt þó að það hafi verið gert af góðum hug í æsingnum að reyna að rétta hlut alls þessa fólks sem sætir svo miklum fordómum. En – og enginn þrætir fyrir það – auðvitað fylgja því flækjur, erfiðar uppákomur og átök þegar menningarheimar mætast og milljónir manna eru á flótta undan martröð, svo dramatískar spurningar að skrattanum er skemmt.
Pútín hlær að mannlegum flækjunum – skellihlær – og öfgaflokkar út um alla Evrópu taka undir hláturinn. Í Skandinavíu, í Frakklandi, í þýskumælandi löndum, út um alla álfuna og víðar.
Pútín iðar af ánægju því honum er einstaklega vel við Trump en illa við lýðræðið og hann veit að fólk út um allan heim er hætt að treysta á lýðræðislega hætti. Nú hriktir í stoðum lýðræðisríkja því það heyrist svo hátt í öllum þeim sem vilja skjóta á fólk – og hefta frelsi fólks til að tjá sig og stunda trúarbrögð sín innan ramma lýðræðissamfélagsins. Í lýðræði má heyrast hátt í þeim en allar hinar raddirnar verða líka að láta í sér heyra og hafa ennþá hærra því annars er hætt við að eitthvað hrikalegt gerist.
Í lýðræðinu felast réttu leikreglurnar til að vernda okkur fyrir sjálfum okkur – ef við svínbeygjum þær ekki í tilfinningaofsa og blindu augnabliksins, ef við förum öll eftir þeim, hverrar trúar sem við erum, hvað sem okkur kann að þykja um skoðanir annarra. Ef við gagnrýnum snákaolíusala stjórnmálanna. Ef við trúum á mannúð og frelsið til að virða lýðræðislegar leikreglur – því án þeirra fær það ekki þrifist. Um það snýst frelsið.
Og eitt að lokum: Hér í Þýskalandi sýður á sjónvarpinu því það er svo hressilega rætt saman í öllum umræðuþáttunum þar sem fólk skiptist á skoðunum um þessi mikilvægu mál. Er ekki löngu kominn tími á eldheitan umræðuþátt í íslensku sjónvarpi um alþjóðastjórnmál og sögulegar hræringar í heiminum?