Fyrir nokkrum dögum rakst ég á grein í Stundinni sem fjallaði um uppfærða like-takann á Facebook – eða öllu heldur um nýju geðlýsandi táknin sem okkur bjóðast nú og við getum notað til að tjá ást, reiði og sorg. Þarna var rætt við íslenskan sálfræðing og jafnframt vitnað í viðvörunarorð Larry D. Rosen nokkurs, sálfræðiprófessors við Kaliforníuháskóla: „Líf okkar hefur verið smættað á þann veg að við finnum leiðir til að tjá tilfinningar okkar með minnsta mögulega átaki. Ef það að ýta á „leiður“ takkann fær okkur til að líða eins og við höfum tjáð djúpa tilfinningu í örskamma stund, þá erum við í vanda,“ segir hann.
Þessi orð sálfræðingsins fengu mig til að hugsa um netið sem slíkt og áhrifin sem það hefur á heilann að fletta fréttasíðum og skrolla upp og niður eftir samfélagsmiðlum á hverjum degi. Það hlýtur að setja sitt mark á heilann þegar manneskja sest nývöknuð við tölvuna með kaffibollann og það fyrsta sem blasir við henni er limlest barnslík. Og því næst myndaröð af líkum, af börnum jafnt sem fullorðnum, sem hafa reynt að flýja stríð. Þegar aðrar eins fréttir eru daglegt brauð þá hlýtur það – já, bara hlýtur – að hafa áhrif á móttökustöðina, heilann.
Þegar ég eyddi Gylfa Ægis
Sumir kunningjar mínir á Facebook pósta myndum sem þessum hvenær sem færi gefst. Ég lít á það sem siðferðislega skyldu mína að staldra við myndir af dánum börnum fólks á flótta og ég neyði sjálfa mig líka til að staldra við myndir af barnafjöldamorðum í Palestínu. En þegar Gylfi Ægisson, þáverandi Facebook-vinur minn, póstaði mynd af barnslíki án höfuðs – af því að honum var svo mikið í mun að vara við múslimum – þá fékk ég nóg. Ég eyddi honum!
Þó að hann sé fjarskyldur frændi minn og ágætis karl, að sögn pabba míns, og ég finni til með honum fyrir að vera svona fullur af mannfyrirlitningu og fordómum gagnvart samkynhneigðum og líka fólki sem er kennt við trú á spámanninn Múhammeð.
Ég hafði skrifað fordómana á eitthvað sem hann hlyti að hafa upplifað í blautri barnæsku og ekki borið gæfu til að skilja betur en svo að ráðast með hatursáróðri á saklaust fólk. Og satt að segja er ég ennþá með vott af samviskubiti yfir að hafa eytt honum, enda trúi ég því að fólk geti verið ágætt inn við beinið þó að það burðist með myglaða fordóma. Og maður á auðvitað ekki að eyða fólki. En ég geri það samt á Facebook – og vona bara að sem fæstir sálfræðingar komi til með að lesa þessa játningu.
Frekar en að eyða Gylfa hefði ég viljað rökræða við hann yfir kaffisopa til að reyna að skilja ógæfu hans, þessa brengluðu sýn á manneskjurnar. En það eru takmörk fyrir því hvað ég get séð mörg limlest barnslík á dag, alls óviðbúin hryllingnum þegar ég opna netvafra til að tsjilla aðeins og spjalla við vini. Mér bregður alltaf jafn mikið við að sjá ljósmynd af dánu barni, sama hversu oft á dag ég rekst á slíka mynd. En allar þessar myndir eru farnar að hafa áhrif á hegðun mína. Nú skrolla ég æ oftar framhjá þeim, óþarflega hratt en þykist þó ekki sjá þær. Og ég tel mér trú um að í daglegu lífi myndi ég aldrei ganga framhjá veiku barni án þess að staðnæmast til að hjálpa, þó að ég skrolli stundum framhjá veikum börnum á netinu.
Eymd í nánasta umhverfi
Netið hefur gert mig harðsvíraða. Svo harðsvíraða að ég gekk framhjá veikum og þjáðum manni um daginn án þess að taka eftir honum. Hann var ekki á netinu heldur í raunheimum, á járnbrautastöð í Berlín. Sjáðu, mamma! hrópaði sonur minn og togaði ákaft í mig. Hvað, elskan? spurði ég annars hugar. Maðurinn, hann er veikur! sagði sonur minn. Ég leit í kringum mig og sá mann sem sat svo framlágur í hjólastól að veðraður stóllinn virtist tómur að aftanverðu séð. Ég hefði stikað þarna framhjá ef sonur minn hefði ekki togað í mig, rétt eins og ég er vön að stika framhjá veiku og svöngu fólki í nánasta umhverfi mínu, sífellt vanari því að hunsa það því fólkið er ekki – eða að minnsta kosti sjaldnast – á barnsaldri. Birtingarmynd eymdar þeirra bliknar í samanburði við það sem ég sé nokkrum sinnum á dag í tölvunni minni, jafnvel þótt þau séu þarna, beint fyrir framan mig.
Þau eru
Þau eru út um alla Evrópu með biðjandi augu, horaða líkama og vonleysi í hverri hreyfingu. Sum varla af unglingsaldri, önnur framlág af elli, einhver með börn sem iða í veikluðu fangi og stundum eru börnin veik, kannski, ég veit það bara ekki, því ég spyr þau ekki að því heldur hraða mér framhjá þeim í hvert skipti sem ég rölti út í búð eða á leikskólann að sækja son minn.
Þau koma héðan og þaðan, frá ýmsum löndum og menningarheimum – líka fjölbreyttum menningarheimum innan eins og sama samfélagsins. Kannski hafa þau einhver tímann aðhyllst einhver trúarbrögð – eða ekki. Sum eru fædd í Þýskalandi, sum í Sýrlandi, einhver í Rúmeníu eða fyrrum Júgóslavíu; sum flýja stríð, einhver eru fædd á götunni, önnur hafa dottið í gegnum svarta glufu í kerfinu, ósýnilegar jökulsprungur, eins og fólkið sem ég las um í The Guardian um daginn sem hafði aldrei gert ráð fyrir að verða heimilislaust en svo bara gerðist það því glufurnar leynast þar sem síst skyldi. Guð má vita hvaðan þau koma og hverjar sögur þeirra eru. Þau bara ... eru.
Eymd annarra venst
Sum þeirra sé ég betur en önnur. Síðastliðið vor fór ég til Parísar að kynna skáldsögu og rölti um borgina með kynningarfulltrúa forlagsins, léttstígri, Parísarvanri konu sem gekk svo hratt að hún var strax komin fram úr mér þegar ég staldraði við hjá feðgum sem hírðust á götunni, maðurinn með son sinn í fanginu að betla.
Maðurinn var á aldur við manninn minn, sonurinn á aldur við son minn. Hrærð fálmaði ég eftir veskinu en þá var konan komin svo langt áleiðis að ég kunni ekki við að biðja hana um að stoppa og hraðaði mér á eftir henni. Leið okkar lá á bistró, eins fínan bistró og þeir gerast í iðrum Parísar, og ég sat þar næstu klukkustundirnar og borðaði þríréttað með kökkinn í hálsinum en gat ekki sagt gestgjafanum að ég hefði rétt í þessu séð manninn minn og son minn hungraða á götunni og gæti ekki hætt að hugsa um þá. Talið barst að vísu að heimilislausa fólkinu og hún sagðist hafa átt erfitt með það fyrst eftir að hún flutti til Parísar, en hefði svo vanist því eins og allir aðrir – svo langt sem það næði.
Eymd annarra venst nefnilega.
Við venjumst því að horfa á fólk svelta fyrir framan okkur. Úti á götum og strætum og á baðströndum vítt og breitt um álfuna. Já, hvar sem er; ég upplifði það síðasta sumar að sóla mig á strönd sunnarlega á Ítalíu og reyna að ímynda mér að grindhoruðu mennirnir með hungurglampa í augum og klyfjaðir söluvarningi í flæðarmálinu væru ímyndun mín, eins konar martraðarkenndur sólstingur.
Þjáðar manneskjur verða eins og hver önnur mynd á facebook sem gæti allt eins verið fótósjoppuð.
Manneskja utan samfélagsins
Maðurinn í hjólastólnum gæti verið dáinn núna. Það lagði af honum hræðilegan daun, stybbu eins og ég ímynda mér að sé af líki sem hefur ekki fundist strax. Ég staldraði við hjá honum en reyndi að halda syni mínum sem lengst frá verunni sem líktist varla manneskju lengur. Í kjölfarið staðnæmdist ung kona hjá okkur og við reyndum að bjóða manninum vatn að drekka og buðumst til að hringja á sjúkrabíl. Hann notaði þá litlu krafta sem hann hafði til að banda okkur frá sér, reis upp með óráð í augunum og hrundi svo aftur niður þannig að efri hluti búksins féll ofan á hné hans. Við hörfuðum og þóttumst hafa gert skyldu okkar en auðvitað áttum við að hringja á sjúkrabíl.
En við létum gott heita, búnar að virða hann fyrir okkur eins og ljósmynd sem samviskan skipar manni að skoða á skjánum áður en maður skrollar áfram og gerir sitt besta til að gleyma henni. Vandamálið bara að barnið gleymir ekki svo glatt.
Dó maðurinn hjá lestinni? spurði sonur minn daginn eftir.
Ég veit það ekki, ástin, svaraði ég og hafði allt í einu ekki geð í mér til að fegra veröldina fyrir fimm ára barni. Því meðan ég fegra heiminn er lítil von til þess að hann verði betri þegar sonur minn vex úr grasi.
Af hverju kom læknirinn ekki? spurði hann þá.
Átti ég að segja honum að mamma hans hefði ekki lagt í að hringja á hjálp út af manneskju sem samfélagið gerir ekki ráð fyrir?
Ég náði ekki að hugsa upp svar áður en hann bar upp næstu spurningu: Var maðurinn einu sinni lítill strákur eins og ég?
Sakfelld fyrir að hjálpa
Þegar eymd annarra er orðin sjálfsögð í flestum þeim borgum sem eiga að kallast siðmenntuð samfélög, eymd þeirra sem eiga hvergi húsaskjól eða lágmarksréttindi, er hætt við að yfirvöld geti sett glórulaus lög án þess að almenningur kippi sér upp við það.
Fyrir nokkrum dögum var Lisbeth Zornig, rithöfundur og fyrrverandi umboðsmaður barna í Danmörku, sakfelld fyrir að smygla fólki. Eða réttara sagt: Hún bauð dauðþreyttu fólki frá Sýrlandi bílfar þegar hún keyrði fram á hóp flóttamanna á þjóðveginum.
Samkvæmt dönskum lögum er ólöglegt að flytja fólk á milli staða sem hefur ekki dvalarleyfi. Zornig – sem kvaðst ekki hafa vitað að það væri bannað að ferja puttaferðalanga – var á leið til Kaupmannahafnar. Henni fannst ástæðulaust að keyra þetta ein og leyfa ekki fólkinu að nýta plássið í bílnum svo hún ók með bæði fullorðna og börn til Solrød, rétt sunnan við Kaupmannahöfn.
Eiginmaður hennar var jafnframt sakfelldur fyrir að hafa boðið fólkinu upp á kaffi og kökur og síðan ekið því á járnbrautarstöð þar sem það keypti sér miða til Svíþjóðar. Hjónunum er gert að greiða sekt sem jafngildir 430.000 íslenskum krónum.
Á vef Ríkisútvarpsins má lesa að alls hafi 279 Danir verið ákærðir fyrir aðstoð við flóttafólk það sem af er vetri.
Mannúð í nafni sjálfsvirðingar
Hvar erum við stödd þegar það er orðið saknæmt að hjálpa öðrum manneskjum?
Við lifum á tímum þegar lög og reglugerðir í málefnum fólks í leit að vernd virðast ekki meika neinn sens lengur og einmitt það er hættulegt. Það verður að vera vit í lögunum, annars er hætt við því að fólk hætti að virða þau.
Nú er ástand mála þannig að milljónir manna eru á vergangi af misjöfnum ástæðum en allt þetta fólk hrópar á hjálp. Það þýðir að ráðamenn verða að endurskoða lög og reglugerðir og víkka út rammann svo það megi hjálpa svo miklu fleirum en við gerum nú. Lögin þurfa að vera þannig að þau forði okkur frá sinnuleysi frekar en að stuðla að því, sérstaklega nú þegar veruleikinn minnir einna helst á in-yer-face-leiksýningu sem hefur engin áhrif á áhorfendur lengur.
Sem betur fer mótmælir almenningur á Íslandi reglulega þegar það á að senda manneskjur í leit að vernd út á guð og gaddinn. Við hömumst á þessum geðlýsandi táknum til að ákallið megi brjótast í gegnum varnarvegg ráðamanna, Útlendingastofnun. En það þarf að herja á ráðamennina, sérstaklega núna þegar fer að styttast í kosningar, og láta vita af því að við, bæði sem þjóð og manneskjur, viljum fá að sýna þá mannúð sem sjálfsvirðingin býður okkur en ekki bara hlæja og gráta og reiðast yfir myndum í gegnum geðlýsandi tákn og telja okkur trú um að þannig séum við búin að gera okkar, þjást með hinum þjáða í netheimum. Þá erum við í vanda!