Þegar það er orðið rangt að hjálpa

Auglýsing

Fyrir nokkrum dögum rakst ég á grein í Stund­inni sem fjall­aði um upp­færða like-tak­ann á Face­book – eða öllu heldur um nýju geð­lýsandi táknin sem okkur bjóð­ast nú og við getum notað til að tjá ást, reiði og sorg. Þarna var rætt við íslenskan sál­fræð­ing og jafn­framt vitnað í við­vör­un­ar­orð Larry D. Rosen nokk­urs, sál­fræði­pró­fess­ors við Kali­forn­íu­há­skóla: „Líf okkar hefur verið smættað á þann veg að við finnum leiðir til að tjá til­finn­ingar okkar með minnsta mögu­lega átaki. Ef það að ýta á „leið­ur“ takk­ann fær okkur til að líða eins og við höfum tjáð djúpa til­finn­ingu í örskamma stund, þá erum við í vanda,“ segir hann.

Þessi orð sál­fræð­ings­ins fengu mig til að hugsa um netið sem slíkt og áhrifin sem það hefur á heil­ann að fletta frétta­síðum og skrolla upp og niður eftir sam­fé­lags­miðlum á hverjum degi. Það hlýtur að setja sitt mark á heil­ann þegar mann­eskja sest nývöknuð við tölv­una með kaffi­boll­ann og það fyrsta sem blasir við henni er lim­lest barns­lík. Og því næst mynda­röð af lík­um, af börnum jafnt sem full­orðn­um, sem hafa reynt að flýja stríð. Þegar aðrar eins fréttir eru dag­legt brauð þá hlýtur það – já, bara hlýtur – að hafa áhrif á mót­töku­stöð­ina, heil­ann.

Þegar ég eyddi Gylfa Ægis

Sumir kunn­ingjar mínir á Face­book pósta myndum sem þessum hvenær sem færi gefst. Ég lít á það sem sið­ferð­is­lega skyldu mína að staldra við myndir af dánum börnum fólks á flótta og ég neyði sjálfa mig líka til að staldra við myndir af barna­fjöldamorðum í Palest­ínu. En þegar Gylfi Ægis­son, þáver­andi Face­book-vinur minn, póstaði mynd af barns­líki án höf­uðs – af því að honum var svo mikið í mun að vara við múslimum – þá fékk ég nóg. Ég eyddi hon­um!

Auglýsing

Þó að hann sé fjar­skyldur frændi minn og ágætis karl, að sögn pabba míns, og ég finni til með honum fyrir að vera svona fullur af mann­fyr­ir­litn­ingu og for­dómum gagn­vart sam­kyn­hneigðum og líka fólki sem er kennt við trú á spá­mann­inn Múhammeð.

Ég hafði skrifað for­dómana á eitt­hvað sem hann hlyti að hafa upp­lifað í blautri barn­æsku og ekki borið gæfu til að skilja betur en svo að ráð­ast með hat­ursá­róðri á sak­laust fólk. Og satt að segja er ég ennþá með vott af sam­visku­biti yfir að hafa eytt hon­um, enda trúi ég því að fólk geti verið ágætt inn við beinið þó að það burð­ist með myglaða for­dóma. Og maður á auð­vitað ekki að eyða fólki. En ég geri það samt á Face­book – og vona bara að sem fæstir sál­fræð­ingar komi til með að lesa þessa játn­ingu.

Frekar en að eyða Gylfa hefði ég viljað rök­ræða við hann yfir kaffi­sopa til að reyna að skilja ógæfu hans, þessa brengl­uðu sýn á mann­eskj­urn­ar. En það eru tak­mörk fyrir því hvað ég get séð mörg lim­lest barns­lík á dag, alls óvið­búin hryll­ingnum þegar ég opna net­vafra til að tsjilla aðeins og spjalla við vini. Mér bregður alltaf jafn mikið við að sjá ljós­mynd af dánu barni, sama hversu oft á dag ég rekst á slíka mynd. En allar þessar myndir eru farnar að hafa áhrif á hegðun mína. Nú skrolla ég æ oftar fram­hjá þeim, óþarf­lega hratt en þyk­ist þó ekki sjá þær. Og ég tel mér trú um að í dag­legu lífi myndi ég aldrei ganga fram­hjá veiku barni án þess að stað­næm­ast til að hjálpa, þó að ég skrolli stundum fram­hjá veikum börnum á net­inu.

Eymd í nán­asta umhverfi

Netið hefur gert mig harðsvíraða. Svo harðsvíraða að ég gekk fram­hjá veikum og þjáðum manni um dag­inn án þess að taka eftir hon­um. Hann var ekki á net­inu heldur í raun­heim­um, á járn­brauta­stöð í Berlín. Sjáðu, mamma! hróp­aði sonur minn og tog­aði ákaft í mig. Hvað, elskan? spurði ég ann­ars hug­ar. Mað­ur­inn, hann er veik­ur! sagði sonur minn. Ég leit í kringum mig og sá mann sem sat svo fram­lágur í hjóla­stól að veðr­aður stóll­inn virt­ist tómur að aft­an­verðu séð. Ég hefði stikað þarna fram­hjá ef sonur minn hefði ekki togað í mig, rétt eins og ég er vön að stika fram­hjá veiku og svöngu fólki í nán­asta umhverfi mínu, sífellt van­ari því að hunsa það því fólkið er ekki – eða að minnsta kosti sjaldn­ast – á barns­aldri. Birt­ing­ar­mynd eymdar þeirra bliknar í sam­an­burði við það sem ég sé nokkrum sinnum á dag í tölv­unni minni, jafn­vel þótt þau séu þarna, beint fyrir framan mig.

Þau eru

Þau eru út um alla Evr­ópu með biðj­andi augu, hor­aða lík­ama og von­leysi í hverri hreyf­ingu. Sum varla af ung­lings­aldri, önnur fram­lág af elli, ein­hver með börn sem iða í veikluðu fangi og stundum eru börnin veik, kannski, ég veit það bara ekki, því ég spyr þau ekki að því heldur hraða mér fram­hjá þeim í hvert skipti sem ég rölti út í búð eða á leik­skól­ann að sækja son minn.

Þau koma héðan og það­an, frá ýmsum löndum og menn­ing­ar­heimum – líka fjöl­breyttum menn­ing­ar­heimum innan eins og sama sam­fé­lags­ins. Kannski hafa þau ein­hver tím­ann aðhyllst ein­hver trú­ar­brögð – eða ekki. Sum eru fædd í Þýska­landi, sum í Sýr­landi, ein­hver í Rúm­eníu eða fyrrum Júgóslavíu; sum flýja stríð, ein­hver eru fædd á göt­unni, önnur hafa dottið í gegnum svarta glufu í kerf­inu, ósýni­legar jök­ul­sprung­ur, eins og fólkið sem ég las um í The Guar­dian um dag­inn sem hafði aldrei gert ráð fyrir að verða heim­il­is­laust en svo bara gerð­ist það því gluf­urnar leyn­ast þar sem síst skyldi. Guð má vita hvaðan þau koma og hverjar sögur þeirra eru. Þau bara ... eru.

Eymd ann­arra venst

Sum þeirra sé ég betur en önn­ur. Síð­ast­liðið vor fór ég til Par­ísar að kynna skáld­sögu og rölti um borg­ina með kynn­ing­ar­full­trúa for­lags­ins, létt­stígri, Par­ís­ar­vanri konu sem gekk svo hratt að hún var strax komin fram úr mér þegar ég staldr­aði við hjá feðgum sem hírð­ust á göt­unni, mað­ur­inn með son sinn í fang­inu að betla.

Mað­ur­inn var á aldur við mann­inn minn, son­ur­inn á aldur við son minn. Hrærð fálm­aði ég eftir vesk­inu en þá var konan komin svo langt áleiðis að ég kunni ekki við að biðja hana um að stoppa og hrað­aði mér á eftir henni. Leið okkar lá á bistró, eins fínan bistró og þeir ger­ast í iðrum Par­ís­ar, og ég sat þar næstu klukku­stund­irnar og borð­aði þrí­réttað með kökk­inn í háls­inum en gat ekki sagt gest­gjaf­anum að ég hefði rétt í þessu séð mann­inn minn og son minn hungr­aða á göt­unni og gæti ekki hætt að hugsa um þá. Talið barst að vísu að heim­il­is­lausa fólk­inu og hún sagð­ist hafa átt erfitt með það fyrst eftir að hún flutti til Par­ís­ar, en hefði svo van­ist því eins og allir aðrir – svo langt sem það næði.

Eymd ann­arra venst nefni­lega.

Við venj­umst því að horfa á fólk svelta fyrir framan okk­ur. Úti á götum og strætum og á bað­ströndum vítt og breitt um álf­una. Já, hvar sem er; ég upp­lifði það síð­asta sumar að sóla mig á strönd sunn­ar­lega á Ítalíu og reyna að ímynda mér að grind­hor­uðu menn­irnir með hung­ur­glampa í augum og klyfj­aðir sölu­varn­ingi í flæð­ar­mál­inu væru ímyndun mín, eins konar martrað­ar­kenndur sól­sting­ur.

Þjáðar mann­eskjur verða eins og hver önnur mynd á face­book sem gæti allt eins verið fótó­sjopp­uð.

Mann­eskja utan sam­fé­lags­ins

Mað­ur­inn í hjóla­stólnum gæti verið dáinn núna. Það lagði af honum hræði­legan daun, stybbu eins og ég ímynda mér að sé af líki sem hefur ekki fund­ist strax. Ég staldr­aði við hjá honum en reyndi að halda syni mínum sem lengst frá ver­unni sem líkt­ist varla mann­eskju leng­ur. Í kjöl­farið stað­næmd­ist ung kona hjá okkur og við reyndum að bjóða mann­inum vatn að drekka og buð­umst til að hringja á sjúkra­bíl. Hann not­aði þá litlu krafta sem hann hafði til að banda okkur frá sér, reis upp með óráð í aug­unum og hrundi svo aftur niður þannig að efri hluti búks­ins féll ofan á hné hans. Við hörf­uðum og þótt­umst hafa gert skyldu okkar en auð­vitað áttum við að hringja á sjúkra­bíl.

En við létum gott heita, búnar að virða hann fyrir okkur eins og ljós­mynd sem sam­viskan skipar manni að skoða á skjánum áður en maður skrollar áfram og gerir sitt besta til að gleyma henni. Vanda­málið bara að barnið gleymir ekki svo glatt.

Dó mað­ur­inn hjá lest­inni? spurði sonur minn dag­inn eft­ir.

Ég veit það ekki, ást­in, svar­aði ég og hafði allt í einu ekki geð í mér til að fegra ver­öld­ina fyrir fimm ára barni. Því meðan ég fegra heim­inn er lítil von til þess að hann verði betri þegar sonur minn vex úr grasi.

Af hverju kom lækn­ir­inn ekki? spurði hann þá.

Átti ég að segja honum að mamma hans hefði ekki lagt í að hringja á hjálp út af mann­eskju sem sam­fé­lagið gerir ekki ráð fyr­ir?

Ég náði ekki að hugsa upp svar áður en hann bar upp næstu spurn­ingu: Var mað­ur­inn einu sinni lít­ill strákur eins og ég?

Sak­felld fyrir að hjálpa

Þegar eymd ann­arra er orðin sjálf­sögð í flestum þeim borgum sem eiga að kall­ast sið­menntuð sam­fé­lög, eymd þeirra sem eiga hvergi húsa­skjól eða lág­marks­rétt­indi, er hætt við að yfir­völd geti sett glóru­laus lög án þess að almenn­ingur kippi sér upp við það.

Fyrir nokkrum dögum var Lis­beth Zornig, rit­höf­undur og fyrr­ver­andi umboðs­maður barna í Dan­mörku, sak­felld fyrir að smygla fólki. Eða rétt­ara sagt: Hún bauð dauð­þreyttu fólki frá Sýr­landi bílfar þegar hún keyrði fram á hóp flótta­manna á þjóð­veg­in­um.

Sam­kvæmt dönskum lögum er ólög­legt að flytja fólk á milli staða sem hefur ekki dval­ar­leyfi. Zornig – sem kvaðst ekki hafa vitað að það væri bannað að ferja putta­ferða­langa – var á leið til Kaup­manna­hafn­ar. Henni fannst ástæðu­laust að keyra þetta ein og leyfa ekki fólk­inu að nýta plássið í bílnum svo hún ók með bæði full­orðna og börn til Sol­rød, rétt sunnan við Kaup­manna­höfn.

Eig­in­maður hennar var jafn­framt sak­felldur fyrir að hafa boðið fólk­inu upp á kaffi og kökur og síðan ekið því á járn­braut­ar­stöð þar sem það keypti sér miða til Sví­þjóð­ar. Hjón­unum er gert að greiða sekt sem jafn­gildir 430.000 íslenskum krón­um.

Á vef Rík­is­út­varps­ins má lesa að alls hafi 279 Danir verið ákærðir fyrir aðstoð við flótta­fólk það sem af er vetri.

Mannúð í nafni sjálfs­virð­ingar

Hvar erum við stödd þegar það er orðið sak­næmt að hjálpa öðrum mann­eskj­um?

Við lifum á tímum þegar lög og reglu­gerðir í mál­efnum fólks í leit að vernd virð­ast ekki meika neinn sens lengur og einmitt það er hættu­legt. Það verður að vera vit í lög­un­um, ann­ars er hætt við því að fólk hætti að virða þau.

Nú er ástand mála þannig að millj­ónir manna eru á ver­gangi af mis­jöfnum ástæðum en allt þetta fólk hrópar á hjálp. Það þýðir að ráða­menn verða að end­ur­skoða lög og reglu­gerðir og víkka út rammann svo það megi hjálpa svo miklu fleirum en við gerum nú. Lögin þurfa að vera þannig að þau forði okkur frá sinnu­leysi frekar en að stuðla að því, sér­stak­lega nú þegar veru­leik­inn minnir einna helst á in-yer-face-­leik­sýn­ingu sem hefur engin áhrif á áhorf­endur leng­ur. 

Sem betur fer mót­mælir almenn­ingur á Íslandi reglu­lega þegar það á að senda mann­eskjur í leit að vernd út á guð og gadd­inn. Við höm­umst á þessum geð­lýsandi táknum til að ákallið megi brjót­ast í gegnum varn­ar­vegg ráða­manna, Útlend­inga­stofn­un. En það þarf að herja á ráða­menn­ina, sér­stak­lega núna þegar fer að stytt­ast í kosn­ing­ar, og láta vita af því að við, bæði sem þjóð og mann­eskj­ur, viljum fá að sýna þá mannúð sem sjálfs­virð­ingin býður okkur en ekki bara hlæja og gráta og reið­ast yfir myndum í gegnum geð­lýsandi tákn og telja okkur trú um að þannig séum við búin að gera okk­ar, þjást með hinum þjáða í netheim­um. Þá erum við í vanda!

Höskuldur H. Ólafsson hringir bjöllunni frægu við upphaf viðskipta með bréf í Arion banka fyrir einu ári.
Fyrir einu ári síðan: Arion banki skráður á markað
Á þessum degi fyrir einu ári síðan, þann 15. júní 2018, voru bréf í Arion banka tekin til viðskipta í Kauphöll Íslands. Hann varð þar með fyrsti íslenski bankinn til að verða skráður á markað eftir bankahrunið í október 2008.
Kjarninn 15. júní 2019
Sigurður Hlöðversson
Makríll á leið í kvóta – Eftir höfðinu dansa limirnir
Kjarninn 15. júní 2019
Margrét Tryggvadóttir
Hver skapaði skrímslið?
Leslistinn 15. júní 2019
Tíðavörur loks viðurkenndar sem nauðsyn
Alþingi samþykkti á dögunum að lækka virðisaukaskatt á tíðavörum úr efra skattþrepi í neðra. Ákvörðunin kemur í kjölfar þess að konur hafa á síðustu árum vakið athygli á því að það skjóti skökku við að skattleggja ekki tíðavörur sem nauðsynjavörur.
Kjarninn 15. júní 2019
Órói í stjórnmálum haggar varla fylgi stjórnmálablokka
Meirihluti stjórnarandstöðunnar mælist nú með meira fylgi en stjórnarflokkarnir þrír, frjálslyndu miðjuflokkarnir hafa sýnt mikinn stöðugleika í könnunum um langt skeið og fylgi Miðflokksins haggast varla þrátt fyrir mikla fyrirferð.
Kjarninn 15. júní 2019
Wikileaks: Blaðamennska í almannaþágu eða glæpur?
Julian Assange, stofnandi Wikileaks, á í hættu á að vera framseldur til Bandaríkjanna þar sem hann gæti átt yfir höfði sér 175 ár í fangelsi verði hann fundinn sekur.
Kjarninn 15. júní 2019
Segir forystu Sjálfstæðisflokksins vera sama um vilja flokksmanna
Stríð Davíðs Oddssonar og Morgunblaðsins sem hann stýrir við Sjálfstæðisflokkinn heldur áfram á síðum blaðsins í dag. Þar gagnrýnir hann forystu flokksins harkalega og bætir í gagnrýni sína vegna þriðja orkupakkans.
Kjarninn 15. júní 2019
Nýliðunarbrestur veldur Hafró áhyggjum
Hlýnun sjávar í íslenskri lögsögu er einn áhrifaþátturinn sem Hafró fylgist grannt með.
Kjarninn 14. júní 2019
Meira úr sama flokkiSleggjan
None