Ég hitti íslenska vinkonu mína í morgunkaffi á kaffihúsi og bar mig heldur aumlega yfir því að þurfa að skila af mér pistli í vikunni því svo lygilega mikið hefði gerst í íslenskum stjórnmálum og íslensku samfélagi á síðustu dögum að ég væri kjaftstopp í fyrsta skipti á ævinni. Það var léttir að bera verkkvíðann undir þessa vinkonu mína því hún er svo vitur og fróð og talar að minnsta kosti fimm tungumál skammlaust, auk þess sem hún er nýbyrjuð að læra rússnesku hér í Berlín.
Má ég lauma svolitlu að þér? spurði hún og lyfti brúnum sposk.
Auðvitað, sagði ég áfjáð.
Það liggur beinast við að andmæla greiningu utanríkisráðuneytisins um að þessir atburðir hafi ekki skaðað ímynd íslensks samfélags því það stenst engan veginn, það er himinhrópandi gap á milli þess sem við upplifum til dæmis hér í Berlín og þess sem ráðherrar ríkisstjórnar Íslands reyna að telja okkur trú um, sagði hún og flissaði góðlátlega. Viðurkenndi svo að hún veigraði sér við að labba framhjá víetnömskum veitingastað í götunni sinni því eigandinn, karl frá Víetnam, væri svo undrandi á uppátækjum Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og framvindu atburða á Íslandi að hún treysti sér ekki til að reyna að útskýra málin frekar fyrir honum – enda skildi hún þau tæpast sjálf.
Við sjáum og heyrum
Ég hef svipaða sögu að segja. Meira að segja kennslukonurnar í leikskóla sonar míns spyrja stöðugt út í stjórnmálin á Íslandi, undrandi á ástandinu í landi sem þær héldu fram til þessa að væri í góðu lagi; aðra þeirra hefur árum saman dreymt um að heimsækja landið til að fara á slóðir Erlendar í bókum Arnaldar Indriðasonar og hin er hrifin af ýmsu íslensku tónlistarfólki.
Og við vinkonurnar erum ekki einar um að upplifa efasemdir fólks um Ísland. Stjúpsystir mín, stödd í Taílandi, fékk ekki frið fyrir áströlskum hjónum sem furðuðu sig á atburðarásinni á Íslandi. Á sama tíma var mágur minn í tökum hér í Berlín á finnskri kvikmynd með fjölmennu, alþjóðlegu kvikmyndateymi og þurfti stöðugt að svara fyrir stöðu mála á Íslandi. Þau systir mín fóru í göngutúr hér í Schöneberg og rákust á virðulegan, þýskan eldri borgara sem skríkti eins og unglingur þegar hann óskaði þeim til hamingju með þennan (fyrrum) íslenska forsætisráðherra en varð ólíkt alvarlegri þegar hann bætti við að annað eins mætti ekki eiga sér stað í Evrópu.
Síðustu daga hef ég heyrt ófáar sögur í þessum dúr. Sigmundur Davíð sagði af sér sem forsætisráðherra en skaðinn er skeður. Við sitjum uppi með hóp fólks sem kallar sig ríkisstjórn en neitar að horfast í augu við hádramatíska atburði í samfélaginu á síðustu vikum og viðurkenna afleiðingar þeirra. Sama þótt það blasi við í alþjóðapressunni og Íslendingar séu ófáir gáttaðir á vitleysunni.
Harðsvíruð afneitun
Lilja Alfreðsdóttir, nýkrýndur utanríkisráðherra Framsóknarflokksins, hlýtur að gera ráð fyrir að Íslendingar húki allir með tölu á netlausu eyðibýli í afdölum og skilji hvorki ensku né önnur tungumál, fyrst ráðuneytið sendir annað eins frá sér mitt í hringiðu atburða, nokkuð sem hlýtur að teljast vanhugsað uppátæki á vakt Lilju í ljósi menntunar og reynslu hennar, jafnvel harðsvíruð afneitun.
Ferðamennirnir kippa sér kannski ekki upp við ruglið í ráðherrunum, allra síst fólk sem er tilbúið að borga fyrir kranavatn á uppsprengdu verði til að upplifa eldgos, en ég hefði svosem glöð farið til Argentínu að dansa tangó og borða ódýrar nautasteikur í upphafi kreppunnar þar. Aftur á móti hefði ég beint viðskiptum mínum í annað land.
En þaulsetnum ríkisstjórnarrössunum – sem mér finnast hafa stolið ríkisstjórninni eins og Trölli stal jólunum mitt í þessari hrikalegu atburðarás – virðist vera sama um alþjóðlega samninga- og viðskiptavild, eini samningurinn sem skiptir þau sýnilegu máli er búvörusamningurinn.
Íslendingar búa jú á eyðibýli, langt í burtu frá öðrum löndum, kannski einir í heiminum – ef við föllumst á að skynja heiminn eins og valdafólk Íslands vill að við skynjum hann. Allir þessir Íslendingar á öllum aldri og úr ólíku umhverfi, sem trúa því að þjóðin sé í lifandi sambúð með öðrum þjóðum og þurfi að haga málum sínum eftir því, tilheyra að mati Tröllaríkisstjórnarinnar ungliðahreyfingum VG og Samfylkingarinnar.
Við vinkonurnar reyndumst ekki vera einar um að upplifa skynjun okkar bjagaða. Ég var rétt svo byrjuð að skrifa pistilinn þegar ég rakst á tvo aðra pistla um þessa greiningu utanríkisráðuneytisins. Annar pistillinn var eftir einn minn uppáhalds pistlahöfund, Sif Sigmarsdóttur; svo góður og beittur að ég hafði engu við að bæta. Mér féllust hendur í annað sinn. Hvað gat ég sagt sem þúsund raddir voru ekki nú þegar að hrópa
Skrumskæld orð
Ég hringdi í Göggu systur mína til að leita ráða.
Hún þurfti ekki að hugsa sig lengi um heldur sagði: Mér finnst að þú eigir að skrifa um þetta sem nýi utanríkisráðherrann sagði, þessi Lilja Alfreðsdóttir.
Ég ætlaði að segja henni að ég hefði gefist upp á því en þá kom í ljós að hún var ekki með sömu pælingu í huga og ég. Þvert á móti hafði það farið fyrir brjóstið á henni í hvaða samhengi Lilja hafði notað hugtakið auðmýkt þegar hún kvaðst taka við starfi utanríkisráðherra af auðmýkt og þakklæti.
Auðmýkt er svo stórt orð, sagði systir mín og útskýrði að sér fyndist auðmýkt svo djúpt og andlegt orð, orð sem bæri bæði með sér æðruleysi og virðingu fyrir æðri gildum, að utanríkisráðherrann hefði svipt það merkingu sinni og skrumskælt með því að misnota það.
Það er ekkert auðmjúkt við að setjast í ríkisstjórn við þessar aðstæður, sagði systir mín og dró andann djúpt áður en hún hélt áfram: Lilja hefði sýnt auðmýkt ef hún hefði sagt: Mig langar mikið til að verða ráðherra utanríkismála en nú er svo mikið búið að ganga á – og það á svo framandi og flókinn hátt – að ég fæ ekki séð að það ríki nægilega góð sátt í samfélaginu til að þessi ríkisstjórn fái starfað í nafni þjóðarinnar. Eigum við ekki að sýna raunverulega auðmýkt og bjóða fólkinu að kjósa hvort það vilji fá mig og okkur til að þjóna þjóðinni sem ríkisstjórn landsins?
Gagga þagnaði, örlítið móð af ákafa með barn á brjósti í Reykjavík, og ég fann að ég klökknaði fyrir framan tölvuna í Berlín. Því eins og svo oft áður hitti systir mín naglann á höfuðið og það sem hún sagði var svo sorglega rétt.
Nýmálið Íslenskan
Við stöndum frammi fyrir hættu sem felst í því að valdafólk hefur rænt orðin raunverulegri merkingu sinni, það notar orðin sálarlaust eftir hentisemi og án þess jafnvel að skilja þau til hlítar. Og þegar orðin missa merkingu sína glata atburðir jafnframt merkingu sinni. Þannig er hægt að afneita skynjun almennings og telja fólki trú um að það sem það sjái og heyri sé allt saman brenglað því þegar öllu sé á botninn hvolft þá hafi ekkert gerst – svo fremi að fólk sé ekki að æsa sig heldur leyfi ríkisstjórninni að vinna sín mikilvægu störf – og auðvitað megi ekki gleyma því að ekkert þýði ekki neitt og til hvers þá að ræða það sem ekkert er, svoleiðis geri jú bara þeir sem þurfi alltaf að gera veður út af engu.
Og þar með tekur fáránleikinn völdin. Og nú sér ekki fyrir endann á því sem allir eru hættir að skilja ...
Keisarinn er nakinn. Það sjá allir að hann er nakinn og hrópa það barnslega einlægum rómi en keisaranum er alveg sama því hann trúir á úreltar ranghugmyndir um eigið mikilvægi og þó umfram allt: rétt sinn til að sitja við völd, sama hvað gerist. Sama hver segir hvað.