Framan af virtust þetta ætla að verða óskaplega óspennandi forsetakosningar. Nú má búast við nýjum stórtíðindum alltaf þegar maður opnar fyrir fréttir. Valið virðist standa á milli nýja Íslands með heiðarleika, réttlæti, virðingu, jafnrétti og ekki síst ábyrgð að leiðarljósi, svo vitnað sé til nokkurra gilda þjóðfundarins 2009, eða gamla, súra og spillta Íslands þar sem menn eru alls ekki í fjárhagslegu sambandi við eiginkonur sínar, finnst sjálfsagt að gefa vinum sínum auðlindir sjávar og sveita og hafa jafnvel persónulega reynslu af því að setja Seðlabanka á hausinn.
Og ekkert lát er á skoðunum hinna ýmsu álitsgjafa. Einn þeirra sagði að Andri Snær ætti að draga framboð sitt til baka svo Guðni Th. gæti sigrað Ólaf Ragnar en kvað svo upp þann dóm daginn eftir að Guðni væri gamla Ísland holdi klætt. Nú er Ólafur hættur og sennilega margir fegnir því að ráðgjöf bloggarans náði ekki lengra.
Það eru nefnilega allir að reyna að segja okkur hvernig við eigum að kjósa. Og álitsgjöfunum er vorkunn. Þegar fjölmiðlar hringja með ný tíðindi verða þeir að kokka upp fyrir okkur nýja sviðsmynd á nokkrum mínútum. Þá er kannski óhjákvæmilegt að einfalda myndina nokkuð – ég meina hver man nöfnin á öllum þessum frambjóðendum og hverjir eru hættir við og hverjir ekki? Úr verða gjarna tveir turnar, stundum þrír eða jafnvel fjórir. En aldrei fimm. Sumir reyna að gera úr þessu einvígi og þá æsast fréttamenn enda væri það svo miklu betra sjónvarp. Svo koma skoðanakannanir sem umvenda öllu, eina ferðina enn. Bæði álitsgjafarnir og skoðanakannanirnar gefa tónin fyrir umræðuna og eru skoðanamyndandi í sjálfu sér.
Samt er framboðsfrestur ekki runninn út og engin framboð hafa enn verið samþykkt af kjörstjórn. Við vitum sem sagt ekki nákvæmlega hvaða nöfn verða á kjörseðlinum. Og eins og við höfum sannreynt undanfarið er vika langur tími í pólitík og enn eru nærri sjö vikur þangað til við göngum að kjörborðinu. Enn geta komið fram stórstjörnur eða aðrir dregið sig í hlé, vinsælir frambjóðendur leikið af sér eða þeir sem við munum ekki hvað heita slegið í gegn. Það er okkar að kjósa og það er gert á kjördag en ekki í skoðanakönnunum mörgum vikum fyrr.
Bloggarar, stjórnmálafræðingar og fjölmiðlar munu halda áfram að reyna að greina stöðuna og stilla upp hinum ýmsu valmyndum. Það er þeirra hlutverk. Frambjóðendur halda væntanlega áfram að kynna sig. Nema þeir hætti við. Og hugsanlega hætta einhverjir við að hætta við.
Við kjósendur þurfum að kynna okkur vel fyrir hvað allir þessir frambjóðendur standa. Það er alltof snemmt að segja til um hverjir eigi raunverulegan séns og hverjir ekki. Fyrir nokkrum vikum var til dæmis kallað eftir því að næsti forseti yrði kona. Nú virðast bara karlar í slagnum, ef marka má álitsgjafana. Samt hafa nokkrar konur tilkynnt um framboð sitt.
Því að vera borgari fylgja ekki bara réttindi heldur líka skyldur. Kosningaréttinum fylgir sú borgaralega skylda að taka upplýsta ákvörðun þegar við kjósum. Á næstu vikum munu alvöru frambjóðendur reyna eftir bestu getu að kynna sig og við kjósendur ættum að gefa þeim færi á því áður en við ákveðum okkur. Það liggur nefnilega ekkert á. Þrátt fyrir allt er ekki sjálfsagt að allt þetta fólk, hvað sem okkur kann nú að finnast um hvert og eitt þeirra, bjóði sig fram til starfa fyrir okkur hin. Fyrir það ættum við að þakka og sýna frambjóðendum þá virðingu að skoða hvað þeir hafa fram að færa. Það ættum við að gera með opnum en gagnrýnum huga. Við þekkjum þetta fólk misvel og í sumum tilfellum sjáum við strax hvort frambjóðandinn gæti orðið góður forseti eða ekki. Aðrir gætu komið ánægjulega á óvart.
Hugsanlega mun ég á endanum ákveða að kjósa strategíst þann 25. júní. Ef kannanir sýna að frambjóðendur gamla Íslands séu líklegir til sigurs getur vel verið að ég muni ekki kjósa þann sem mér líst best á heldur þann boðbera nýrra tíma sem líklegastur er til að ná kjöri. Þangað til ætla ég að leyfa mér að velta öllum valkostum vel fyrir mér og hafa bæði augu og eyru opin.