Það er algjör sturlun að fylgjast með stokkhólmsheilkenninu sem á sér stað um þessar mundir. Fyrrum forsætisráðherra er sannfærður um að alheimspressan hafi svo mikla óbeit á Framsóknarflokknum á Íslandi að hún hefji alþjóðlegt samstarf til þess eins að leiða hann í gildru – allt til þess að skaða bændaflokk á lítilli eyju í Norður-Atlantshafi. Og flokkurinn hlustar, kinkar kolli á miðstjórnarfundi og klappar sínum manni á öxlina. Fullur samúðar yfir meðferðinni á bjargvættinum.
Á sama tíma birtist annar fyrrum forsætisráðherra skyndilega úr hyldýpi Reykjavíkurbréfsins og telur sig geta sameinað þjóðina nægilega lengi á bak við sig til að endurskrifa hlut sinn í hruninu og eftirmála þess. Þó er ritstjórinn það mikið út í (Hádegis)móa að hann sér ekkert athugavert við að verða Dabbi Grensás og heldur að fólk hjakki enn svo í sama farinu að það láti Icesave stjórna atkvæði sínu.
Það má alveg ábyggilega skrifa meistaraverk um sálarástand þeirra sem geta ekki slitið sig frá slíkum leiðtogum. En til þess þarf nægilega mikið þrek til að afbera að skyggnast inn í hugsanahátt þeirra Davíðs og Sigmundar.
Hver nennir í slíka atrennu þegar það er hitabylgja á Íslandi? Jafnvel þingmennirnir eru komnir með nóg af þrasi í bili. Og þrátt fyrir allt er fylgi Framsóknar í lágmarki og 80% kjósenda virðast ákveðnir í að kjósa framtíðina á Bessastaði. Tuttugu prósentin hans Davíðs, 10% hennar Sveinbjargar Birnu og 9% hans Sigmundar eru þrátt fyrir allt ekkert nema hávær minnihluti.
Samtakamáttur Jóns og Gunnu
Helsta ástæða þess að ég finn ekki með nokkru móti hjá mér löngun til að skrifa um sturlunina er samt sú að ég er sjúklega meyr yfir þeim krafti sem Íslendingar geta búið yfir þegar þeir standa saman. Verandi búsett erlendis fell ég stundum í þá gryfju að telja mig sjá atburðina heima skýrar en samlandar mínir, að fjarlægðin veiti mér forskot, og ég sé sú eina sem reyti hár mitt yfir stokkhólmsheilkenninu. En það sem skilar sér illa yfir nettenginguna er velvilji hins almenna Íslendings.
Ég fékk nefnilega að fylgjast með því í vikunni, stödd á Íslandi, þegar nokkrum flóttamönnum var hjálpað við að koma undir sig fótunum. Á mánudagskvöldi voru þeir húsnæðislausir. Fjórum dögum síðar voru þeir komnir með íbúð, húsgögn, og húsbúnað – sitt eigið heimili. Ég klökkna í hvert sinn sem ég hugsa um alla þá sem vildu hjálpa til. Þá sem keyrðu húsgögn bæjarfélaga á milli, þá sem köfuðu ofan í geymsluna eða klöngruðust upp á háaloft til að sjá hvað þeir gætu lagt til. Nágrannakonuna sem leyfði okkur að bera stærstu húsgögnin í gegnum íbúðina hennar því eina leiðin til að koma þeim á efri hæðina var að lyfta þeim milli svalanna. Millilandasímtalið frá hamborgarafestivali í Berlín til að bjóða fram húsgögn í geymslu. Hér var ekki um að ræða lítinn vinahóp heldur almennan vilja til að hjálpa þeim sem mest þurfa á að halda.
Vegið að málfrelsinu
Á sama tíma varpa fjölmiðlar ítrekað ljósi á brestina í kerfinu sjálfu. Í nýlegu viðtali við Kastljós lýsir Isabel Alejandra Días óttanum sem hún mátti búa við alla sína æsku því íslensk stjórnvöld voru einungis tilbúin til að veita henni, barnungri, dvalarleyfi í 6 mánuði í senn. Þessu fylgdi viðvarandi ótti um að vera send frá fjölskyldu, vinum og Íslandi, sem er í raun hennar heimaland. Að hafa slíka fallöxi hangandi yfir sér frá fjögurra til átján ára aldurs er erfið raun, enda segist Alejandra eiga erfitt með að hugsa til þessa tíma því hún finni enn sársaukann sem honum fylgdi. Dæmin eru fleiri. Hælisleitandinn Eze er snúinn niður í Leifstöð og sendur með valdi til Svíþjóðar þrátt fyrir að hafa dvalið hér í fjögur ár og að í lögum sé skýr heimild til að veita hæli á grundvelli mannúðarsjónarmiða ef meðferð máls hefur dregist lengur en tvö ár.
Þá sýndi sjónvarpsþátturinn Hæpið einangrun hælisleitanda á Íslandi og hversu langt Útlendingastofnun er tilbúin að ganga til að verjast fréttaflutningi. Að sjálfsögðu þarf að verja friðhelgi hvers og eins og fara með mál flóttamanna af ítrustu varfærni. En þegar ríkið reynir að koma í veg fyrir að hælisleitendur þori að leita til fjölmiðla vegur það að málfrelsi þeirra. Ríkið má aldrei kúga viðkvæma minnihlutahópa til hlýðni – það er einfaldlega mannréttindabrot.
Núið og framtíðin
Fjölmargir vilja að við gerum miklu betur, sem kristallast í síendurteknum áskorunum til Útlendingastofnunar og innanríkisráðherra að snúa við ákvörðunum þar sem fólki hefur verið synjað um hæli. Ég trúi því líka að raunverulegur vilji sé innan kerfisins til að gera betur og nú þegar hafa mikilvæg skref verið tekin í þá átt. Ný útlendingalög voru samþykkt á Alþingi í síðustu viku með stuðningi allra flokka. Þar er reyndar margt sem má bæta, en grunnurinn er góður.
Framfarir eru ekki síst drifnar áfram af framsæknum hugsunarhætti. Þess vegna skiptir höfuðmáli hverja við kjósum í valdastöður og þar liggur mikilvægi forsetaembættisins. Forseti getur markað veginn með ferskri hugmyndafræði, en hann getur líka hægt á okkur með því að ala á totryggni og halda á lofti hugmyndasnauðri umræðu.
Um það snýst þetta; núið og framtíðina. Það á enginn að fá að halda okkur aftur eða sundra, sérstaklega ekki með afgreiddum málum eins og Icesave eða þorskastríðum. Við erum komin lengra. Við erum heppin að geta valið á milli nokkurra mjög frambærilegra kandídata til forseta Íslands, sem búa yfir spennandi hugmyndum og bjartri framtíðarsýn. Þar er ekkert pláss fyrir fúla karla.
Gleðilega hitabylgju!