Ég var örugglega ekki ein um að undrast fréttir af því að maður sem, samkvæmt hæstaréttardómi átti að vera að afplána nokkurra ára fangelsisdóm, lenti í þyrluslysi. Þessi atburður, nýja fangelsið á Hólmsheiðinni og umfjöllun um breytingar á lögum um fullnustu refsinga hafa valdið mér heilabrotum undanfarið.
Þetta er svo sem ekki í fyrsta sinn sem ég hef áhyggjur af refsivörslukerfinu eða hvernig málum þar er háttað. Og ástæðan fyrir því að þetta er mér svo hugleikið er að í flestum tilfellum held ég að um mannlegan harmleik sé að ræða, harmleik sem samfélagið okkar hefði átt að koma í veg fyrir áður en svo margir sköðuðust. Hvort það hefði bjargað útrásarvíkingnum frá þyrluslysinu er þó ekki víst.
Af hverju fremur fólk glæpi og hvað gerum við til þess að reyna að koma í veg fyrir það? Við þeirri spurningu er auðvitað ekki til neitt stutt og laggott svar en það er mikilvægt að reyna að skilja vandann.
Í nýlegu svari innanríkisráðherra við fyrirspurn Páls Vals Björnssonar þingmanns Bjartrar framtíðar segir að samkvæmt nýrri en óbirtri rannsókn áttu tæplega 60% fanga við vímuefnavanda að glíma og 10% til viðbótar höfðu átt í slíkum vanda. Hér væri hægt að álykta að vímuefnin valdi glæpum en málið er auðvitað ekki svo einfalt, þótt um 25% fanga sitji inni fyrir fíkniefnabrot og að vímugjafar tengist enn fleiri brotum. Fólk misnotar vímuefni nefnilega ekki bara upp úr þurru. Í áðurnefndu svari innanríkisráðherra kemur fram að um helmingur fanganna uppfylltu skimunarviðmið fyrir athyglisbrest og ofvirkni í æsku og meirihluti þess hóps sýndi enn þau einkenni þegar rannsóknin fór fram. Mun fleiri fangar í þeim hópi greindust einnig með félagskvíða og persónuleikaröskun en aðrir. Því miður spurði Páll Valur ekki um fleira, svo sem þunglyndi, sjálfskaðandi hegðun eða félagslega stöðu en sjálfsagt mætti veiða meiri upplýsingar úr rannsókninni sem innanríkisráðherra vísar til. Vandinn virðist nefnilega skapast snemma en við gerum ekki nærri nóg til að leysa hann þegar hann kemur upp; byrgja brunninn áður en barnið dettur í hann. Sálfræðiþjónusta er eins og hver annar lúxusvarningur á Íslandi sem aðeins þeir efnameiri geta veitt sér og börnum sínum. Og þegar annar félagslegur vandi, t.d. fátækt, bætist við margfaldast erfiðleikarnir.
Ástandið í fangelsismálum hér á landi hefur verið hrikalegt en nú horfir til betri vegar í þeim efnum. Nítjándu aldar fangelsinu við Skólavörðustíg hefur loks verið lokað og brátt tekur nútímalegt fangelsi á Hólmsheiði við fyrstu íbúum sínum.
Ástandið í fangelsismálum hér á landi hefur verið hrikalegt en nú horfir til betri vegar í þeim efnum. Nítjándu aldar fangelsinu við Skólavörðustíg hefur loks verið lokað og brátt tekur nútímalegt fangelsi á Hólmsheiði við fyrstu íbúum sínum. Það er eitthvað bogið við að gleðjast yfir nýju fangelsi en það er eiginlega ekki annað hægt. Með Hólmsheiðinni getum við lagað sumt af því sem pyntingarnefnd Evrópuráðsins hefur bent á í skýrslum sínum, svo sem skilið karla og konur í afplánun að og boðið upp á fjölbreyttari störf, nám og virkniúrræði. Fólk verður nefnilega oft galið ef það hefur ekkert við að vera.
Pyntingarnefndin hefur líka sett fram athugasemdir við ýmislegt sem ekki er hægt að laga með byggingarframkvæmdum. Íslendingum hættir til að reyna að leysa öll vandamál með steypu og stórvirkum vinnuvélum en í mörgum tilfellum er skortur á þjónustu rót vandans. Eftir að fólk brýtur af sér ætti að vera auðveldara að nálgast það og veita meðferð. Það er allavega á vísum stað. Það gullna tækifæri notum við illa. Í síðustu skýrslu pyntingarnefndarinnar er bent á að heilbrigðisþjónusta fanga á Íslandi er í molum. Meðferðarúrræði fanga eru alltof fá og þeir þurfa jafnvel að greiða fyrir þau. Þá er heilbrigðisþjónusta sögð ófullnægjandi og skortur á læknisskoðun og eftirliti þegar fangar hefja afplánun óásættanleg, sérstaklega þegar þeir glíma við fráhvarfseinkenni vegna vímuefnaneyslu. Hættan á sjálfsvígum og útbreyðslu smitsjúkdóma í fangelsunum stóreykst við slíka vanrækslu. Skráning áverka, bæði við komu og meðan á afplánun stóð var einnig ábótavant. Alvarlegustu athugasemdirnar lúta þó að geðheilbrigðisþjónustu en geðlæknir hafði ekki viðkomu á Litla-Hrauni nema tvisvar í mánuði, þrátt fyrir margþættan vanda margra fanga og að fangelsisstjórinn hafi talið að minnst fjórir vistmenn ættu frekar að vera á heilbrigðisstofnun en í fangelsi. Geðlæknir heimsótti fangelsið á Akureyri á þriggja mánaða fresti og það sjá allir að það gerir ekki neitt fyrir neinn. Þá skorti algjörlega meðferðarúrræði fyrir kynferðisafbrotamenn.
Staðan virðist því sú að við gerum alltof lítið til að koma í veg fyrir að börn í áhættuhópum lendi í djúpstæðum vanda en þegar það gerist og þau, sem fullorðið fólk, er komið inn í refsivörslukerfið gerum við alltof lítið til að hjálpa því að vinna úr vandanum og komast út í lífið aftur.
Ný löggjöf um fullnustu refsinga felur í sér nokkrar bætur á því beyglaða kerfi sem við höfum búið við, þ.e. ef farið verður eftir lögunum. Til þess þarf fjármagn sem ég held að hafi ekki fylgt með en lögin tóku gildi strax við samþykkt í mars. Þar er t.d. kveðið á um að fangar eigi kost á að geta stundað náms- og starfsþjálfun í fangelsi og ýmislegt fleira sem mér finnst gáfulegt.
Annað kemur á óvart, t.d. að í kjölfar lagasetningarinnar fengu sumir þeirra sem hæsta dóma hafa fengið fyrir efnahagsbrot á Íslandi tækifæri til að afplána refsingu á áfangaheimilinu Vernd í stað þess að dúsa í hefðbundnu fangelsi. Um þetta áttu Helgi Gunnlaugsson prófessor í afbrotafræði og fréttamaður RÚV ágætt spjall í útvarpinu um daginn þar sem hvorugur virtist botna nokkuð í því hvernig fangar með svo þunga og alvarlega dóma á bakinu gátu verið svífandi um á þyrlum. „Fyrir almenning sem horfir upp á þetta dettur manni fyrst í hug að þarna sé ekki um brotamann í iðrun að ræða. Skilaboðin sem þetta veitir, að vera í útsýnisflugi yfir hausamótunum á þjóðinni sem hafði bara nýlega sent viðkomandi í fangelsi með þungan dóm á bakinu, virka í fljótu bragði ekki fælandi fyrir brot. En svo kemur hin hliðin að þessu líka, varðandi endurhæfingu og aðlögun að samfélagi,“ sagði Helgi í viðtalinu.
Og það er nefnilega málið. Við lokum fólk inni þegar það brýtur af sér til að tryggja öryggi annarra borgara, kenna því lexíu og fæla aðra frá brotum. Þetta með öryggi borgaranna getur staðið fyrir sínu og við sem upplifðum hrunið finnst full ástæða til að vernda okkur fyrir þeim sem hafa framið alvarleg efnahagsbrot. Iðrunin virðist þó hvergi sjáanleg hjá okkar ástsælu útrásarvíkingum og umfjöllun um sumarhúsaferðir og þyrluflug þessara manna mun vart fæla nokkurn mann frá alvarlegum efnahagsbrotum. Ekki er annað að sjá en að þau margborgi sig.
Heima úr sófanum virðist það ansi góður díll að þurfa bara að dvelja á Vernd yfir blánóttina en geta verið að reka fyrirtækin sín sem fengu einmitt afskrifaða tugi milljarða eftir hrunið meðan almenningur var ekki svo heppinn. Á sama tíma býðst öðrum föngum ekki að dvelja á Vernd vegna þess að þeir geta ekki greitt fyrir veru sína þar. Á Vernd þurfa menn annað hvort að vera í námi eða vinna. Fangar eiga ekki alltaf auðvelt með að útvega sér vinnu og þeir sem eru í námi geta oft ekki greitt fyrir dvölina á Vernd því þeir eru tekjulausir. Ég er ekki alveg viss um hvernig það stenst jafnræðisákvæði stjórnarskrárinnar.
Á Vernd þurfa menn annað hvort að vera í námi eða vinna. Fangar eiga ekki alltaf auðvelt með að útvega sér vinnu og þeir sem eru í námi geta oft ekki greitt fyrir dvölina á Vernd því þeir eru tekjulausir. Ég er ekki alveg viss um hvernig það stenst jafnræðisákvæði stjórnarskrárinnar.
Kannski þurfum við að geta beitt refsivörslukerfinu með skapandi og einstaklingsmiðaðri hætti. Fólk í vanda hefur held ég almennt ekkert sérstaklega gott af því að vera lokað inni en þegar það er gert er synd að reyna ekki að nota tímann til uppbyggingar og raunverulegrar betrunar. Auk þess er það líka miklu dýrara fyrir okkur öll. Glæpir kosta nefnilega samfélagið allt peninga. Meðferð og hjálp kostar líka en það er samt miklu ódýrara að veita slíka aðstoð en gera það ekki.
Í skólum landsins er gjarna talað um einstaklingsmiðað nám þar sem skólinn mætir hverjum nemanda þar sem hann er staddur. Við ættum kannski að fara að huga að því hvort hægt sé að bjóða upp á einstaklingsmiðaða betrun? Fanginn sem er í námi og hefur því ekki tekjur til að geta greitt með sér á Vernd þyrfti í mörgum tilfellum meira á slíkum stuðningi og aðlögun að halda en menn sem keyra um á Land Cruiserum.
Ég veit ekki hvað hægt er að gera við útrásarvíkingana. Sumum finnst að þeir ættu að vera í raunverulegri samfélagsþjónustu að bæta fyrir brot sín; hugsa um gamla fólkið okkar eða sjúklinga. Það virðist ágæt hugmynd alveg þar til maður hugsar um þiggjendur þjónustunnar. Myndi maður treysta útrásarvíkingi fyrir ömmu sinni? Ég er ekki viss. Hitt virðist augljóst; að senda þá aftur í vinnuna sína, þar sem brotin voru framin, er ekki að virka heldur.