Vinur minn vék sér upp að mér fyrir nokkru og sagði: „Gunnar, ég ætla að flytja. Líf mitt gengur bara ekki nógu vel í þessari íbúð. Ég þarf að breyta til.“ Maðurinn flutti milli póstnúmera og um stund leið honum betur, en áður en langt um leið var hann engu sælli á nýja staðnum. Vandinn var auðvitað sá að honum leið ekki vel sama hvar hann var. Vandinn var að hann átti óuppgerðar sakir við fortíðina sem hann lagði ekki í að takast á við. Svo flutti hann auðvitað aftur með sama árangri.
Ég er auðvitað engu skárri. Ég vil stundum kenna öðru um. Ég skelli skuldinni á foreldra mína fyrir að hafa gert mér að læra á trompet en ekki saxófón. Þá væri ég örugglega hluti af Mánudjassgenginu á Húrra - þess í stað næ ég ekki fram einum tón úr trompetinu þótt líf mitt lægi við. Fótboltaferillinn varð að engu því ég fékk ekki nógan stuðning þegar hið sanna er auðvitað að ég lagði mig ekki nógu mikið fram.
Við Íslendingar erum ekki svo ólík ónafngreinda vini mínum. Við viljum oft frekar takst á við vandamál með því að breyta ytri aðstæðum frekar en að horfa á vandann sjálfan. Þetta birtist sjaldan betur en kringum kosningar. Að vísu ekki forsetakosningar, þó svo þær virðist aðallega snúast um fortíðina, heldur þingkosningar, sveitastjórnarkosningar og kosningar innan stjórnmálaflokka.
Lausnin er yfirleitt nýtt fólk. Út með það gamla og inn með það nýja. Vandamálin virðast samt sem áður bara hrannast upp. Þessi sömu leiðarstef halda endalaust áfram - verðtrygging, húsnæðisvandi, kvótakerfið, heilbrigðismál og svona mætti lengi telja. Kynslóð eftir kynslóð, kosningar eftir kosningar þá virðist fátt breytast nema andlitin.
Og við getum engum kennt um nema okkur sjálfum. Við getum ekki búist við betri stétt stjórnmálamanna en þeirri sem við erum tilbúin að velja. Fjögur ár kunna að hljóma eins og langur tími en í sögu þjóðar eru þau sandkorn. Í réttu samhengi þá eru það sjaldnast stóru málin sem raunverulega hafa áhrif á hvern við veljum til að halda um taumana. Á sama tíma og ríkið greiðir niður skuldir á methraða, sem er jákvætt, þá er mannfjöldaþróun að sliga heilbrigðiskerfið því hjúkrunarheimili geta ekki lengur hýst allt það fólk sem þarf á þjónustu þeirra að halda. Hvorugt þessara er líklegt til að hafa áhrif á hvernig nema örfáir kjósa en hvort tveggja mun hafa mikil áhrif á hvenig Ísland verður á næstu áratugum.
Þangað til þetta rennur almennilega upp fyrir okkur verðum við áfram ónefndi vinur minn sem flytur til að komast burt frá vandanum. Við getum leyft okkur að vona að í þetta skipti verði öll loforðin efnd og allt verði eins og það á að vera hratt, örugglega og sársaukalaust. Þá væru hins vegar allar líkur á að við þurfum að flytja aftur eftir fjögur ár. Það sem þarf eru hundleiðinlegar langtímaáætlanir sem staðið er við um hvernig á að leysa flókin og erfið vandamál sem við vitum að muni þurfa að takast á við á næstu árum. Ég bíð í alvörunni spenntur eftir flokknum sem kemur með raunhæfar hugmyndir að lausnum á flóknum vandamálum, ekki bara fallegar myndir af frambjóðendum og þunna súpu af misviðeigandi suðorðum.