Sumir eru þeirrar gerðar að þeir eiga erfitt með að horfast í augu við staðreyndir, jafnvel þó þær séu svo augljósar að jafnvel vöggubarni eigi að vera þær ljósar. Þetta þekki ég af eigin raun. Ég var heldur ódæll unglingur og þótti gaman að hafa mikla gleði og foreldrar mínir fengu oft og tíðum að reyna það þegar þau brugðu sér af bæ yfir helgi. Þá þótti mér sjálfsagt að bjóða heim í húsið þeirra og skipti þá litlu hvort um annað hafði verið samið.
Eitt skiptið gerðu foreldrar mínir mér þann óleik, að mér fannst þá, að koma fyrr heim úr fríi en um hafði verið rætt. Þau renndu í hlað áður en ég hafði svo mikið sem byrjað að taka til eftir helgina. Í panikkástandi stökk ég til, náði í ryksuguna og inn í eitt herbergið hvar ég fór að ryksuga af miklum móð.
Þar kom móðir mín að mér og ég sá hana útundan mér, að reyna að ná sambandi við mig í gegnum hljóð hinnar miklu tiltektar, ryksugan var á fullu. Ég man það enn að ég hugsaði sem svo að ef ég bara héldi áfram að ryksuga, viðurkenndi ekki tilvist hennar, þá yrði allt í lagi. Hvort ég bjóst við að hún hyrfi, eða yrði svo ánægð með að ég væri þó að ryksuga eitt herbergið í öllu húsinu, veit ég ekki enn. Hvort þetta væri töfraryksuga sem leysti öll mín vandamál. Hitt veit ég að þetta er dæmi um hina fullkomnu afneitun.
Mér verður oft hugsað til þessa þegar ég fylgist með íslenskum stjórnmálum. Hún kom til dæmis upp í huga mér þegar ég heyri stjórnarliða, ráðherra sem aðra, láta eins og allt sé í himnalagi, það hafi allt gengið fullkomlega eftir samkvæmt plani og það verði nú bara að koma betur í ljós hvenær staðið verði við loforð sem voru gefin um kosningar í haust.
Eitt af stærstu verkefnum ríkisstjórnarinnar á þessu kjörtímabili átti að vera afnám gjaldeyrishafta. Til þessa verks hefur Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra meðal annars vísað um mikilvægi þess að Bjarni Benediktsson verði enn fjármálaráðherra. Og um mikilvægi þess að Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur verði enn við völd undir forsæti Sigmundar Davíðs Gunnl... nei undir forsæti Sigurðar Inga Jóhannssonar, allavega að einmitt þessir flokkar verði að vera við völd, annars verði höftin trauðla losuð í bráð.
Það gæti gefið þessum fullyrðingum einhverja vigt ef allt gengi ljómandi vel í losun hafta, ef allt væri á áætlun og ef allir væru sáttir við þá leið sem fara á. En því er ekki að heilsa. Ráðherra hefur lítið sem ekkert samráð um málið, af því að hann treystir bara sjálfum sér til þess, kröfuhafar boða málssókn og þátttaka í gjaldeyrisútboði Seðlabankans er lítil. Aflandskrónueignin sem leysa átti með útboðum í júní nemur um 319 milljörðum króna, en þátttakan varð svo lítil að ekki tók til nema um 83 milljarða króna.
„Eitt mikilvægasta verkefni ríkisstjórnarinnar verður að vinna að afnámi fjármagnshafta en gjaldeyrishöftin bjaga eignaverð og draga úr samkeppnishæfi þjóðarinnar,“ segir í stjórnarsáttmálanum sem kynntur var með bravúr vorið 2013. Rúmum þremur árum síðar er vandinn enn fyrir hendi og ljóst að stjórninni endist ekki örendi til að leysa hann.
Og þá er að horfast í augu við það. Ekki loka augunum fyrir því að manni hafi mistekist. Það mistekst öllum í lífinu og engin skömm að því, ef menn taka ábyrgð á því og gera sitt til að bæta fyrir mistökin. Það að stinga höfðinu í sandinn, eða ryksugunni í samband og vona að hávaðinn úr henni drekki vandanum, og neita að horfast í augu við staðreyndir, gerir illt verra.
Listinn yfir verkefni sem ríkisstjórnin ætlaði að gera en er ekki búin með, er annars býsna langur. Um það varð mér hugsað þegar ég borgaði skattinn fyrir hótelherbergi í París, en hann er settur á til að mæta fjölda ferðafólks og borgaður beint yfir skenkinn. En þetta var nú útúrdúr og fráleitt að ímynda sér að jafn einfalt kerfi mundi virka í hinu flóknu íslenska samfélagi sem er allt öðruvísi en önnur, að sögn.
En aftur að afnámi gjaldeyrishafta. Það er risastórt samfélagslegt verkefni og á ábyrgð stjórnmálastéttarinnar að leysa það. Núverandi fjármálaráðherra og ríkisstjórn hafa sýnt að verkefnið er þeim ofviða. Þá er að halda kosningar og treysta þjóðinni fyrir því hver fær næst að spreyta sig við verkefnið. Þannig virkar lýðræðið. Það er engin töfraryksuga til sem leysir vandamálin, aðeins það að standa með verkum sínum og lúta dómi kjósenda.
Og já, hvernig tengist þetta allt EM sem vísað er í í fyrirsögninni? Ekki neitt er svarið, nema að það tengist auðvitað allt EM í dag. Það var bara sett í fyrirsögnina svo fleiri myndu kannski lesa.