Ég hjólaði í fyrsta skipti á ævinni í erlendri stórborg í síðustu viku. Ég hef aðeins fiktað við hjólreiðar eins og svölu krakkarnir í Reykjavík en aldrei orðið daghjólamaður. Aðallega af því að ég nenni því ekki og bý við hliðina á strætóstoppistöð.
Það sem kom mér mest á óvart var hvað það var auðvelt, eiginlega bara alveg eins og að hjóla. Og það á þéttbýlasta svæði í heimi, Manhattan. Í þessu höfuðvígi lands frelsisins og fjölskyldubílsins er hjólamenning hratt að ryðja sér til rúms. Hjólaakreinar við nánast allar götur, allir hjóla hjálmlausir og þrátt fyrir alla sturlunina sem ríkir í umferðinni er mikið tillit tekið til hjólandi vegfarenda. Kannski vegna þess að ef ég væri ekki hjólandi þá væru ég og bíllinn minn miklu meira fyrir en annars.
Það sem sló mig samt mest var þessi undarlega öryggistilfinning sem ég fann. Allt í kringum mig voru leigubílar að berjast um dýrmætar akreinar og risavaxnir sendiferðabílar að gefa hverjum öðrum puttann með flautunni. Þrátt fyrir það fannst mér eins og ökumenn tækju meira tillit til mín en jólasveinarnir sem skjóta hægri hjólunum á bílnum út á hjólabrautina við Lönguhlíðina til að geta straujað yfir strætóhraðahindrunina án þess að slá af. Ég fann fyrir því að mér fannst ég öruggari á hjóli í ókunnugri stórborg en í litlu sætu Reykjavík.
Þetta fékk mig aðeins til að hugsa. Hvenær finn ég, hvítur bráðum miðaldra karlamaður í meðalhæð, fyrir öryggistilfinningu? Í sjálfu sér aldrei. Ég finn ekki fyrir létti þegar vafasami maðurinn sem sat fyrir aftan mig í strætó fer út á annarri stoppistöð en minni eða þegar óþægilega ágenga stelpan á barnum áttar sig allt of seint á að ég hef engan áhuga á að tala við hana finnur sér einhvern annan til að tala á. Og mér líður heldur ekki betur vitandi að kollegi minn úr Vesturbænum labbar með mér í áttina heim þannig að ég þurfi ekki að labba einn gegnum illa upplýsta garðinn fyrir aftan Landakotskirkju eða þegar maðurinn sem hefur fyrir tilviljun gengið á eftir mér óþægilega lengi beygir inn aðra götu og ég losa um krepptan hnefann til að hleypa blóði aftur i hnúana sem eru fyrir löngu orðnir hvítir. Eða þegar ég ligg hálfnakinn uppi í rúmi með stelpu og átta mig á að ég vilji eiginlega ekki fara lengra en það og hún brosir bara og ég fer áhyggjulaus að sofa.
Ástæðan fyrir því að mér líður ekkert betur við þetta er að engar af þessum aðstæðum fá mig til að óttast um öryggi mitt. Reynsla vina minna á svipuðu reiki og svipuðum stað í lífinu af þessum aðstæðum gefur mér ekkert tilefni til annars en að upplifa mig alveg jafnósnertanlegan við þessar aðstæður og hverjar aðrar. Reynsla karlkyns vina minna að sjálfsögðu.
Öryggistilfinning er eins og sársauki. Þú fattar ekki hvað það er gott að finna ekki til fyrr en þú hefur fundið til. Þangað til tekurðu því sem sjálfsögðum hlut. Óttinn við að verða fyrir ofbeldi, sérstaklega kynferðislegu eða kynbundnu ofbeldi, er ekki eitthvað sem við eigum að taka sem sjálfsögðum hlut og gera þolendum að takast á við í myrkrinu. Ekki frekar en að freki kallinn á Land Rovernum sínum, bíll sem verður holdgervingur hrunsins tvöþúsundogeitthvað, geti afskrifað ábyrgð sína á hjólafólki með því að segja að það eigi að nota hjálm, eða línan „Passaði þig á bílunum“ sem allir ábyrgir feður segja við börnin sín þegar hún ætti auðvitað að vera „Ekki vera athyglislaus fáviti þegar þú keyrir og keyra á óverndaða fótgangendur með stálbúrinu þínu“. Þetta er heimsmynd þess sem hefur aldrei búið við óöryggi og ætlar því ekki að skilja að það er ekki hins „veika“ að verja sig, heldur allra hinna að koma fram þannig að þau þurfi heldur aldrei að upplifa öryggistilfinningu, því þau eiga aldrei að upplifa óttann.