Í næsta húsi við mig í Berlín bjó Adler-fjölskyldan. Pabbinn var á aldur við manninn minn, mamman á aldur við mig og Thomas sonur þeirra á aldur við son minn, nýorðinn fimm ára, þegar yfirvöld sendu þau í útrýmingarbúðir þar sem þau létust nokkrum dögum síðar. Stundum stend ég mig að því að mæna út um stofugluggann, út í portið sem húsin tvö deila og hugsa um þau. Hvaða gluggi á húsinu hafi tilheyrt þeim, hvernig foreldrunum hafi verið innanbrjósts síðustu dagana áður en fjölskyldan fór með lestinni út í opinn dauðann. Staðurinn er sá sami, tíminn hefur liðið á sinn afstæða hátt. Þau voru þarna rétt áðan, þau eru þarna ennþá.
Í síðustu viku flaug ég frá Berlín til Reykjavíkur og á leiðinni út á flugvöll keyrði leigubíllinn framhjá ílöngu húsi við járnbrautateina þar sem stóð aðeins ein lest. Sjáiði! sagði leigubílstjórinn. Þarna er stöð sem flóttafólk kemur á með lestum áður en það tvístrast í aðrar áttir.
Mér
varð litið á þennan einkennilega stað sem ég sá rétt svo í sjónhendingu og varð ósjálfrátt hugsað til helfararinnar.
Þarna var lest sem hafði flutt örvæntingarfullt
fólk inn í Berlín í stað þess að ferja það út úr henni. Angela Merkel hefur,
eins og víðfrægt er orðið, lagt þá línu að fólk sem er komið til Þýskalands frá
Sýrlandi fái að dvelja þar um sinn. Stór hluti landsmanna virðist vera hlynntur
þessari ákvörðun hennar, þó að margir deili vissulega hart á hana og nýnasistar
safni eldfærum. Þjóðverjar hafa gefið svo mikið af varningi í búðir fyrir flóttafólk að stundum þarf að
afþakka frekari gjafir, ýmsir hafa boðið fólki að búa hjá sér og mörg samtök
létta fólki lífið á
annan hátt,
svo fátt eitt sé nefnt.
Ábyrgð stjórnvalda
Margir kunna vel að meta að Angela Merkel sé við stjórnvölinn, manneskja sem er sjálf alin upp í einræðisríki og getur þar að auki talað rússnesku við Pútín á viðsjárverðum tímum. Á sama tíma er deilt um hvort það sé raunhæft mat hjá henni að þýsku þjóðinni takist að höndla þetta mikla verkefni – eins og hún sjálf vill meina að þjóðin geti þó að það sé erfitt. Staðfestan uppmáluð þegar hún sagði í sjónvarpsþætti ekki alls fyrir löngu: Ef við þurfum nú að byrja að afsaka okkur fyrir að sýna vinsemd í neyðarástandi, þá er þetta ekki lengur landið mitt.
Málið snýst jú, fyrst og fremst, um stefnumótun stjórnvalda, hvort sem um er að ræða Ísland eða Þýskaland. Kanslarinn vill opna landið og orðum hans fylgja athafnir.
En
á sama tíma og nefnd um málefni flóttafólks á Íslandi setur tvo milljarða í
aðstoð við flóttafólk og hælisleitendur á næstu tveimur árum, þá bólar hvergi á
flugvélum með nauðstadda. Þvert á móti finnst manni eins og ennþá sé einungis
verið að vísa fólki úr landi. Til að mynda fjölskyldunni frá Sýrlandi sem flúði
til Íslands, hjón með tvær dætur, þriggja og fjögra ára, en fær ekki mál sitt
til efnislegrar meðferðar af því að það náðist af þeim fingrafar í
hörmungarástandinu sem nú ríkir í Grikklandi.
Yfirlýsing
Ríkisstjórn Íslands hefur nýlega sent frá sér yfirlýsingu um áðurnefndan fjárstuðning.
Í fyrsta lagi á hluti fjárins að fara til alþjóðastofnana og hjálparsamtaka sem vinna með og koma að málum flóttafólks erlendis.
Í
öðru lagi verður peningunum varið til móttöku fólks sem leitar eftir alþjóðlegri vernd,
þar sem áhersla verði lögð á að hjálpa fólki að koma sér fyrir í samfélaginu og
hefja hér nýtt líf. Er þar bæði gert ráð fyrir flóttafólki sem kæmi hingað
fyrir milligöngu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og þeim sem koma til landsins
eftir öðrum leiðum.
Í þriðja lagi á að nota peningana til að hraða afgreiðslu hælisumsókna hérlendis svo fólk velkist ekki of lengi um í kerfinu.
Samkvæmt
þessum upplýsingum er verið að vinna í því, að íslenskum hætti, að taka á móti
hópi flóttafólks og auðvitað má ekki gera lítið úr því sem vonandi verður vel
af hendi leyst, þó að vissulega mætti taka á móti miklu fleirum. Samt verður
það að teljast í besta falli mótsagnakennt að senda sýrlenska fjölskyldu úr
landi á sama tíma og ríkisstjórnin birtir þetta plagg. Eðli málsins samkvæmt
hrannast upp statusar á samskiptamiðlunum þar sem fólk bölvar Útlendingastofnun
í sand og ösku.
Stofnun á vegum ríkisins
En hvað er Útlendingastofnun annað en einmitt það sem nafnið gefur til kynna: stofnun á vegum ríkisins. Stofnunin er rekin til að þjóna lagasetningum ráðamanna og þeim fjármunum sem þeir ráðstafa henni. Það eru ráðamennirnir, Angela Merkel og Sigmundur Davíð, sem stjórna skútunni, hvort í sínu landi, og þar með er ábyrgðin fyrst og fremst þeirra og ríkisstjórna þeirra. Væntanlega hefur starfsfólkið eitthvað svigrúm – sem það ætti að nýta svo miklu betur en raunin er – en hversu mikið er það svigrúm í raun og veru? Hversu lengi heldur starfsfólk Útlendingastofnunar störfum sínum ef ákvarðanir þess brjóta í bága við stefnu stjórnvalda hverju sinni, hvort sem sú stefna er opinber eða ekki?
Lífshættuleg löghlíðni
Foreldrar Thomasar Adler voru væntanlega löghlýðið fólk og kannski keyptu þau sjálf lestarmiða fyrir fjölskylduna frá götunni okkar, Ebersstrasse, í útrýmingarbúðir – eins og svo margir aðrir í samfélagi þar sem fólk var alið upp við að hlýðni við yfirvöld væri dyggð, nokkuð sem ýmsir fræðingar hafa nefnt sem eina af ástæðum þess að svo fór sem fór í Þýskalandi nasistanna. Fórnarlömbin skráðu sig og sína í möppur þeirra sem síðar myrtu þau í þeirri trú að reglugerðir ríkisins væru hinn eini endanlegi sannleikur. Hið eina rétta á tímum þegar mannúð flokkaðist undir óþarfa tilfinningasemi.
Nú gæti einhver sagt: Við viljum öll sýna mannúð en hversu mörgum getum við í raun og veru tekið við? Ekki getum við boðið milljón manns til Íslands nema rústa innviðum þjóðfélagsins – eða hvað?
Þá má spyrja á móti hvort slík spurning eigi rétt á
sér þegar neyð er til staðar. Helsta skylda manneskjunnar er kannski sú að sýna
mannúð. Auðvitað er illgerlegt að opna landið algjörlega. Það er hætt við að
velferðarkerfið og löggæslan myndu ekki ráða við endalausan fjölda fólks. En
það verður að segjast eins og er, við erum ennþá talsvert langt frá því að taka
við þeim fjölda sem innviðir samfélagsins ráða við.
Í
rauninni ætti fólk sem er þegar komið til Íslands frá Sýrlandi að fá að dvelja
þar áfram. Ráðherrar viðeigandi málaflokks mega ekki vera með hallærislegan
fyrirslátt í svo viðkvæmum málum, það er vissulega í þeirra valdi að setjast
yfir reglugerðirnar og reyna að breyta því sem breyta þarf svo orð og athafnir
megi fara saman.
Annars er er hættan sú að kornung börn sem eru komin hingað til lands eigi
eftir að deyja einhver staðar úti í heimi.
Heimóttaskapur í utanríkisráðuneytinu
Á heimasíðu Utanríkisráðuneytisins stendur einnig: Samþykki Alþingi ofangreindar tillögur ríkisstjórnarinnar verður Ísland meðal þeirra þjóða sem mest leggja af mörkum til aðstoðar flóttafólki vegna vandans í Sýrlandi ...
Þessi
staðhæfing er hlægileg hafi maður fylgst lítillega með fréttaumfjöllun í
Þýskalandi en um þessar mundir eru Þjóðverjar að taka á móti átta hundruð og
fimmtíu þúsund manneskjum í neyð og nýta til þess íþróttahús og öll hugsanleg
híbýli.
Stjórnvöld verða að hysja upp um sig brækurnar og reyna að minnsta
kosti að skilja eigin yfirlýsingar. Það er ekki hægt að benda ábyrgðarlaust á
kærunefndir sem byggja væntanlega úrskurð sinn á löggjöfinni (allir meðlimir
kærunefndar útlendingamála eru jú lögfræðingar) eða stofnanir sem eiga að
framfylgja lögunum. Stefnan er stjórnvalda, nefndir og stofnanir eru verkfæri
til þess að koma henni í framkvæmd. Og lög og reglugerðir án mannúðar eru, eins
og sagan sýnir, hættuleg, bæði þjóðum og mannkyninu. Ég skora á stjórnvöld
að standa við eigin orð og leyfa fjölskyldunni frá Sýrlandi að vera á Íslandi.