Fyrir marga er kampavín óhjákvæmilegt við gleðileg tilefni. Því er sprautað yfir sigurvegara í íþróttum, skálað í því við brúðkaup og áramót og sumt fólk jafnvel baðar sig upp úr því. Er þá ekki undarlegt til þess að hugsa að kampavín, eftir því sem þjóðsagan segir, varð til fyrir mistök?
Sagan segir að franski munkurinn Dom Perignon hafi búið til hvítvín sem hélt áfram að gerjast eftir að því var tappað á flöskuna. Þrýstingur myndaðist í flöskunni, tappinn small úr með látum og þegar víninu var hellt í glös, stigu loftbólur upp á yfirborðið þar sem vínið og kolsýran snertu agnarsmá óhreinindi í vínglasinu. Og það glas var örugglega mun óhreinna en glösin sem við notum í dag.
Það var þó ekki nóg að finna upp sjálft vínið. Þrýstingurinn sem myndaðist í fyrstu flöskunum, ýmist sprengdi þær eða skaut töppunum langar vegalengdir, sem varð til þess að vínið fékk viðurnefnið „vin de diable“, vín djöfulsins. Þetta kallaði bæði á betri flöskur úr þykkara gleri og aðra nýja lausn, svokallað „muselet“, en það er litla vírgrindin sem læsir korktappanum við flöskuna. Tappinn er reyndar líka mjög ólíkur öðrum víntöppum. Breiðari á neðri endanum, sem vinnur gegn því að hann skjótist úr flöskunni og með stóra kúlu efst, sem dreifir álaginu frá „muselet“ lausninni jafnt á allan tappann. Þá er ótalinn fjöldinn allur af tæknilegum lausnum sem þurfti til, svo framleiðslan yrði viðráðanleg, hagkvæm og áreiðanleg. En hvar kemur hönnun þá inn í myndina? Hvernig hannar maður kampavín?
Að þróa sjálft vínið, til dæmis með því að setja sykur út í það og auka gerjunina, eða að búa til flöskuna og tappann sem þoldu þrýstinginn, eru ágæt dæmi um tæknileg vandamál sem þurfti að leysa svo vínið gæti orðið að seljanlegri vöru. En það útskýrir ekki hvers vegna fólk eyðir mörgum tugum þúsunda króna í það sem í grunninn er ekkert annað en mátulega skemmd berjasaft.
Snilldin við markaðssetningu kampavíns liggur í því að höfða til tilfinninga neytandans. Þannig hefur kampavínsframleiðendum tekist að tengja afurðina við nær öll mikilvægustu augnablik lífsins. Fæðingar, afmæli, útskriftir, brúðkaup og jafnvel aðrir og minni viðburðir eins og áramót og íþróttasigrar eru tilefni þess að tappar fljúga úr þykkum glerflöskum kampavínsframleiðenda. Á tveim öldum hefur salan þannig vaxið úr örfáum þúsundum flaskna upp í rúmar 330 milljónir á veisluárinu 2007. Og þá er bara nefndur dýrasti hluti markaðarins, ekta og ósvikið kampavín frá Frakklandi.
Nú vill svo til að sagan um Dom Perignon er ekki sönn. Hið rétta er að um miðja 16. öld tóku Benediktusarmunkar upp á því að tappa sínu víni á flöskur áður en gerjunarferlinu var lokið og sköpuðu þar með freyðandi vín. Hvaðan þeir fengu hugmyndina er ekki fyllilega ljóst. Kannski var óvenju mikið að gera við handritaskrifin. Ef til vill var veðurfar slæmt það ár og áríðandi að klára töppunina áður en frostið skall á. Hvað sem því líður var það ekki fyrr en heilli öld síðar að Christopher Merret skráði fyrstur manna aðferðir við að bæta sykri í vínið til að auka gerjunina og hálfri öld eftir það kom margfrægi munkurinn Dom Perignon fram á sjónarsviðið.
Hvað hefði gerst, ef munkarnir hefðu hellt niður skemmda víninu sem sprengdi flöskurnar? Ef gerjunin hefði stöðvast fyrr og engar loftbólur myndast? Ef glösin hefðu ekki verið svona skítug? Væri þá ekki Champagne héraðið eins og hvert annað vínræktarhérað Frakklands, frekar en heimsmiðstöð verslunar og framleiðslu fyrir einn best heppnaða iðnað í heiminum? Þegar maður veltir þannig fyrir sér þróun kampavíns, er í raun með öllu óskiljanlegt hvers vegna svona margt fólk er hrætt við að gera tilraunir og jafnvel mistök í vöruþróun. Því sannleikurinn er sá að mistök geta vel borgað sig.
Mjög vel.