Ein útbreiddasta uppfinning allra tíma er tannburstinn. Þetta litla og bráðnauðsynlega áhald, sem oftast gagnast eigandanum vel og lengi, stundum jafnvel lengur en skynsamlegt er. En er ekki svolítið undarlegt að hugsa til þess að einhvern tíma á einhverjum stað í þróunarsögunni varð fyrsti tannburstinn til? Líklega var það lítið annað en gróft strá eða lítil grein sem notandinn fann einhvers staðar á sléttunni, en með því að japla á þannig trefjabögglum hefur forfeðrum okkar sennilega tekist að einhverju leyti að halda tannsteini í skefjum. Hvaða augum ætli þeir hafi litið brautryðjandann sem fyrstur fann grein, tók hana upp og tuggði? Hvort skyldi viðkomandi persóna hafa verið álitin vís eða vanheil?
Víðs vegar um heiminn tyggur fólk ennþá trefjar, en í hinum vestræna hluta að minnsta kosti hefur mikil framþróun átt sér stað. Sígildi burstinn með stíf hár og lélegt handfang er enn til, en flestir tannburstar líta nú orðið frekar út eins og háþróuð tækniundur. Líkt og þeim sé ætlað að bjarga okkur frá eilífri útskúfun andfýlunnar. Sú ákvörðun að endurnýja burstann leiðir því marga út í alls kyns vangaveltur og erfiða ákvarðanatöku. Hversu stíf eiga hárin að vera? Fer skaftið vel í hendi? Er það mátulega sveigjanlegt? Stundum virðist úrvalið nær endalaust þegar við stöndum frammi fyrir mörgum hillumetrum af lokkandi lögun og litum. Þá óska margir þess heitt og innilega að einhver hjálpi þeim við að einfalda valið og jafnvel lífið yfirleitt. En er það ekki einmitt það sem hefur gerst? Er ekki í raun þegar búið að taka margar flóknar og krefjandi ákvarðanir fyrir okkur?
Allar þær vörur og áhöld sem við notum í daglegu lífi eiga það sameiginlegt að vera hönnuð á einhvern hátt. Þrátt fyrir reglubundinn valkvíða flestra eru tannburstar þar engin undantekning. Nákvæmlega hversu mjúk tannburstahár eiga að vera til að geta talist mjúk hefur þegar verið ákveðið. Lengd handfangsins er engin tilviljun og sú staðreynd að flestir burstar fást í 3 eða 4 ólíkum litasamsetningum, tekur mið af stærð dæmigerðar fjölskyldu, svo hver og einn meðlimur geti eignast bursta í sínum lit. Allt í kringum okkur eru hlutir sem þannig er búið að móta og laga að því lífi sem við annaðhvort lifum nú þegar eða langar til að lifa í nánustu framtíð. Til þess þarf meira en tommustokk og talnagrind.
Það er einmitt á því sviði sem starf hönnuðarins aðskilur sig frá störfum margra annarra. Vissulega eru enn til vörur sem eru algerlega útbúnar, framleiddar og markaðssettar án aðkomu hönnuða, en flestar skortir þær þessa óræðu og ef til vill svolítið tilfinningatengdu vídd. Þann djúpa skilning á upplifun notandans af einhverju tilteknu vandamáli, sem gerir það að verkum að handfangið er einmitt nógu langt, hárin af réttum stífleika og skaftið nákvæmlega eins sveigjanlegt og það á að vera. Það merkilega er hins vegar að einmitt þegar vel tekst til við hönnun á hversdagslegum hlut, tökum við minnst eftir því hve mikið er í raun búið að hjálpa okkur. Vönduð hönnun er þannig orðinn óaðskiljanlegur hluti af þægilegu lífi, án þess að við endilega tökum eftir því. Ef þau auknu lífsgæði sem slík hönnun hefur veitt okkur yrðu hins vegar fjarlægð á einu augnabliki myndum við án efa taka eftir því, til dæmis næst þegar við burstuðum tennurnar.
Hvort má bjóða þér, strá eða grein?