Tveir Íslendingar og þrír Keníubúar vinna nú að hjálparstarfi við innfædda í Keníu. Hópurinn hefur meðal annars hafið hópfjármögnun fyrir verkefnið á www.Karolinafund.com og tilgangurinn er að létta bláfátækum konum í sveitum Keníu lífið með því að sjá þeim fyrir vatnstunnubörum.
Kjarninn ræddi við Pétur Einarsson, fyrrverandi flugmálastjóra og einn aðstandenda verkefnisins, þar sem hann var staddur í Kenía við hjálparstörf.
Hvað eru þið þessir Íslendingar að gera í Kenía?
„Ég var hér fyrir 20 árum í nokkrum ráðgjafaverkefnum í um fimm ár. Ég kynntist þá vel Keníu, Úganda og Tansaníu. Mig hefur alltaf langað að koma aftur til Austur-Afríku. Síðastliðið haust varð það að veruleika því gamall kunningi minn Guðmundur Þór Þormóðsson bauð mér til sín. Hann hefur verið að vinna að ýmsum verkefnum í Keníu undanfarin fjögur ár. Meðal annars hefur hann verið þáttakandi í jarðhitaverkefnum. Þegar ég kom til Keníu kynntist ég Jóni Búa Guðlaugssyni jarðhitaverkfræðingi sem hefur verið í Austur-Afríku við störf að jarðhitamálum síðustu fjögur árin.
Íslendingar hafa verið umfangsmiklir í jarðhitamálum í Austur-Afríku og liggja þar stórkostlegir möguleikar og hagsmunir fyrir Íslendinga. Þá er ljóst að beislun jarðhita er forgangsmál í að bæta loftslag jarðarinnar því jarðhitinn er sjálfbær og mengar ekki og líklega er það besta þróunaraðstoðin sem við Íslendingar getum veitt.
Ég hef einnig verið að nýta tímann hér til þess að sérhæfa mig sem lögfræðingur í jarðhitamálum. Það hef ég verið að gera bæði af áhuga og vegna þess að mér er ekki kunnugt um að Íslendingar eigi neinn slíkan sem einnig hefur góða þekkingu á Austur-Afríku. Ég held að það sé brýn þörf á þannig þekkingu fyrir Íslendinga ef vel á til að takast með þátttöku okkar í því stórkostlega alþjóðlega átaki sem framundan er á þessu svæði á næstu árum í beislun jarðhita.
Við þrír, sem sagt, hittumst og úr kunningjaspjalli kom fram að við allir höfðum hug á að láta gott af okkur leiða í Keníu. Fátækt er sorgleg á mörgum svæðum, einkum þó í sveitum Keníu. Nú, til að gera langa sögu stutta þá ákváðum við að ná saman hóp með okkur innanborðs til þess að hefja starf til þess að hjálpa fátækum konum, mæðrum, til þess að hjálpa sér sjálfar með því að lána þeim eða gefa verkfæri. Þeir félagarnir þekktu ágætis fólk í Keníu sem var tilbúið til þess að taka þátt í verkefninu. Þau þrjú sem með okkur eru í hópnum frá Keníu eru öll áhrifamanneskjur hérlendis. Monicah er náin forseta landsins, Benjamin er áhrifamaður í sveitarstjórnarmálum og Ruth er bráðflink í skipulagningu og dreifingu.“
Af hverju völduð þið vatnstunnubörur?
„Jú, það var vegna þess að framangreindir kunningjar mínir þekkja til þessarar framleiðslu og hafa verið að þróa og hanna endurbætta útgáfu á vatnstunnubörum. Þær eru kallaðar hér Rural Water Rollers og voru upprunalega hannaðar í Suður-Afríku. En endurbætta útgáfan ber ekki aðeins vatn heldur margt annað.
Við komumst að þeirri niðurstöðu að besta hjálpin væri að létta störf kvenna, mæðra, í sveitum Kenía en þeirra daglega starf einkennist af linnulausum þrældómi frá morgni til kvölds. Vatnsburður er snar þáttur þar en við bætist burður á eldivið, uppskeru, börnum og margskonar aðdrætti til heimilis. Daglegur þvottur, matargerð og ummönnun barna og fjölskyldu bætist þar við – já og ekki má ég gleyma vinnu á ökrunum.“
Hvernig ætlið þið að fjármagna hjálparstarf ykkar?
„Hópurinn ákvað að byrja fjármögnunarframkvæmdir með hópfjármögnun á Karolina Fund. Vegna þess vil ég hvetja alla góðviljaða Íslendinga til þess að leggja sitt af mörkum með því að taka þátt. Í staðinn fyrir framlag sitt eignast styrktaraðilar vatnstunnubörur með nafni sínu árituðu á, sem þeir lána fátækri konu, móður, í Keníu.
Þá höfum við haft samband við ýmis hjálparsamtök í Keníu og Úganda sem hafa áhuga á að styrkja framtak okkur um að hjálpa mæðrum til sjálfsbjargar og hafa undirtektir verið mjög góðar svo hópurinn er vongóður um framtíð verkefnisins.
Í vinnslu er að þróa vatnstunnubörurnar í að vera þvottavél og einnig að gera þær þannig úr garði að þær geti hlaðið upp rafmagn. Þá er verið að vinna að þróun á mengunarlítilli eldunaraðstöðu og stöðluðum salernum, en ófullnægjandi salerni eru eitt af alvarlegu vandamálunum.“
Það er margt framundan hjá ykkur?
„Já, það má segja, en hópurinn er samhentur og bjartsýnn. Við vitum að allt tekur tíma og þrautseigju en við trúum því að við séum að gera gott með því að létta störf með tækjum, já, og höfum séð með eigin augum gleði þeirra mæðra sem nú þegar hafa fengið vatnstunnubörur.
Manni hlýnar um hjartarætur við að heyra þiggjandann segja: Það hefur aldrei nokkur maður gefið mér neitt, Guð blessi þig og þá sem að þessu standa – einss og Mary sagði þegar henni voru afhentar vatnstunnubörur."