Gríðarlega mikið magn persónuupplýsinga er varðveitt á internetinu. Ýmis fyrirtæki á borð við Facebook, Twitter, Instagram, Amazon, Ebay, Spotify og svo lengi mætti telja, geyma upplýsingar og gögn um fólk. En er á einhvern hátt hægt að safna þessum upplýsingum saman og stjórna því hvað verður um þær? Julian Ranger er stofnandi og stjórnarmaður fyrirtækisins digi.me sem gerir notendum kleift að safna saman persónulegum gögnum af samfélagsmiðlum og deila þeim með þriðja aðila á sínum eigin forsendum.
Ranger hélt fyrirlestur um persónuupplýsingar og hagnýtingu þeirra á ráðstefnu á vegum Reiknistofu bankanna um upplýsingatækni og fjármálaþjónustu framtíðarinnar þann 4. maí síðastliðinn. Kjarninn hafði samband við hann og spurði hann út í fyrirtækið og hvað það væri að gera.
Hvernig er gagnasöfnun háttað á netinu?
Ranger segir að í fyrsta lagi sé alltaf hætta á að fyrirtæki týni gögnum eða upplýsingum um fólk. Aðalástæðan fyrir því sé að það hættir að nota þjónustu tiltekins fyrirtækis. Til dæmis skipti fólk iðulega um banka og þá flytjast gögn ekki milli. Í öðru lagi sé erfitt að leita í gagnagrunnum eins og til dæmis Facebook og að það geti verið erfitt að finna gögn sem eru margra ára gömul. Í þriðja lagi sé erfitt að hafa heildarsýn yfir gögnum sem safnast saman á netinu.
Hægt er að safna öllum þessum gögnum saman og þá er mun auðveldara að hafa yfirsýn yfir þau, leita að þeim og eru þau öruggust í þínum höndum, segir Ranger. Það sé þó ekki gott ef öll gögnin eru geymd hjá einum aðila og bendir hann á að ekki sé hægt að niðurhala gögnum frá til dæmis Facebook og geyma þau annars staðar. Hann segir að þó sé til leið framhjá þessu vandamáli. Með því að hlaða niður hugbúnaði digi.me þá kemst fólk hjá því að fyrirtækið sjálft sjái eða meðhöndli gögnin.
Aðeins notandinn hefur aðgang að gögnum
Ranger vill sérstaklega taka það fram að digi.me sjái ekki gögnin eða varðveiti þau á nokkurn hátt. Hugbúnaðurinn sé þannig gerður að aðeins notandinn geymi gögnin og hafi aðgang að þeim. Tilgangurinn með hugbúnaðinum sé einungis að gera notandanum kleift að nálgast sín persónulegu gögn á auðveldan hátt.
„Við byrjuðum fyrst að safna gögnum af samfélagsmiðlum þar sem notendur sáu auðveldlega gildi þess,“ segir Ranger. Núna hafi þau hjá digi.me aftur á móti byrjað að safna ýmsum öðrum gögnum, eins og heilsufars- og fjármálaupplýsingum og upplýsingum um innkaup og fleira.
Notendur geta notað hugbúnaðinn í hvaða tæki sem er, tölvu, spjaldtölvu og síma í gegnum hvaða ský sem er. Vinnsla gagnanna og notkun er algjörlega í þeirra höndum, segir Ranger.
Fyrirtæki taka oft gögn ófrjálsi hendi
„Við trúum því statt og stöðugt að eina manneskjan sem eigi að sjá um þín persónulegu gögn eigi að vera þú,“ segir Ranger. Hann segir að þetta atriði skipti þau gríðarlega miklu máli, sérstaklega í ljósi siðferðilegrar afstöðu. Fólk eigi sjálft að sjá um deilingu gagna og að hafa umsjón með sínu efni. Þess vegna hafi þau ákveðið að nefna gagnagrunninn Netið mitt.
Hann bendir þó á að þetta sé ekki raunin. Gögn séu alltaf að leka út þegar fólk notar öpp eða heimsækir vefsíður. Stundum gefi notendur leyfi en alls ekki alltaf.
Hvernig á losna við siðlausa gagnasöfnun?
En af hverju gera fyrirtæki þetta svona þegar augljóst er að það sé á siðferðilega gráu svæði? Ranger telur að í heimi viðskiptanna sé forskot mjög mikilvægt fyrir fyrirtæki til að afla tekna í gegnum kaup og sölu þjónustu. Hann segir að þetta muni breytast þegar markaðurinn uppgötvar að það sé betra að fá leyfi til að nota gögn og þá verði auðvitað neytendur ánægðari. „Þannig að þær fjárhæðir sem eytt er í siðlausa gagnasöfnun munu minnka þar til það er ekki lengur þess virði að eyða þeim þannig,“ segir hann.
Hægt er að hlusta á Julian Ranger útskýra hvernig digi.me virkar á síðunni þeirra og nálgast frekari upplýsingar um Netið mitt.