Í undirbúningshópi Melodica hátíðarinnar eru ástralski tónlistarmaðurinn Peter Uhlenbruch, Þýski skipuleggjandinn Melina Rathjen, og íslensku tónlistarmennirnir Tryggvi Heiðar Gígjuson og Svavar Knútur. Hópurinn hefur unnið saman núna í nokkra mánuði að þessu verkefni og hafa þau áður unnið saman að ýmiskonar verkefnum. Þetta er níunda árið sem Melodica hátíðin er haldin á Íslandi og hefur hún notið síaukinna vinsælda hjá íslensku tónlistarfólki og tónlistaráhugafólki. Þá er á hverju ári langur listi erlendra tónlistarmanna sem sækjast eftir að fá að taka þátt í hátíðinni. Í ár er stefnt að því að safna fyrir ferðakostnaði allra erlendra listamanna sem taka þátt í hátíðinni. Það myndi létta gríðarlegum fjárhagsáhyggjum af listamönnunum og gera upplifun þeirra af hátíðinni mun ánægjulegri. Kjarninn hitti Svavar Knút og tók hann tali.
Hvers konar tónlistarhátíð er Melodica Festival?
„Þetta er alþjóðleg tónlistarhátíð sem grundvallast á því að byggja brýr milli ólíkra samfélaga tónlistarmanna um allan heim og treysta böndin í grasrótinni í hverri borg. Melodica hátíðin hófst í Melbourne í Ástralíu og breiddist mjög fljótt út til annarra landa, fyrst til Hamborgar, síðan Reykjavíkur en svo um víðan völl, t.d. Berlínar, Parísar, Kölnar, Árósa, Oslóar, New York, Nottingham, Trier, Groningen og fleiri borga um allan heim. Upp úr hátíðinni hafa sprottið samstarfsverkefni tónlistarmanna sem hafa notið mikillar velgengni og hafa margir tónlistarmenn og hljómsveitir nýtt sér þau sambönd sem verða til við þátttöku í Melodicu. Tónlistin er oftar en ekki úr átt söngvaskálda eða órafmagnaðri átt og stemmningin ævinlega hlýleg. Það er ákveðin grundvallarhugsjón hjá Melodica hátíðinni að enginn tekur laun fyrir sína vinnu, hvorki skipuleggjendur né tónlistarmenn, en við gerum okkar besta til að fá frjáls framlög frá tónleikagestum til að borga ferðakostnað gestalistamannanna okkar,“ segir Svavar Knútur. „Við erum ótrúlega stolt af hátíðinni okkar, sérstaklega hvað varðar þennan félagslega þátt sem snýst um að tengja listamenn um allan heim og efla alþjóðlegt samfélag listafólks.“
Hvað er að gerast á Melodica Festival Reykjavík 2016 og hvar verður hún haldin?
„Hátíðin verður haldin á Kex Hostel og Café Rosenberg dagana 26.-28. ágúst næstkomandi. Þar munu koma fram fjöldi listamanna, bæði íslenskir og erlendir, bæði hljómsveitir og sólólistamenn, bæði þekktir listamenn og listamenn sem eru að stíga sín fyrstu skref í tónlistinni. Við munum líka hrista saman þennan fjölþjóðlega hóp með heitapottsferð í Vesturbæjarlaugina. Við munum líka hvetja listamennina okkar til að semja saman. Það hafa komið falleg lög út úr vinnustofunum á Melodica Festivölum. Hátíðin verður haldin á Kex á föstudag og laugardag frá 16-23 og á Café Rósenberg á sunnudeginum frá kl. 16-00.“
Hvað bjóðið þið uppá fyrir fólk sem vill heita á ykkur?
„Við bjóðum stuðningsaðilum upp á ýmiss konar verðlaun, þar á meðal lög með listamönnunum, póstkort og plaköt, og hljóðfæri árituð af listamönnunum. Þá er hægt að fá lag, samið af völdum listamönnum á hátíðinni sérstaklega fyrir stuðningsaðila.“
Verkefnið er að finna hér:
https://www.karolinafund.com/project/view/1438Linkur: https://vimeo.com/173778502