Stærsta fréttin af Apple viðburðinum í fyrradag var óneitanlega skortur á 3,5mm heyrnatólatenginu á iPhone 7. Þetta er sannarlega mjög umdeilt en er alls ekki í fyrsta sinn sem Apple fjarlægir tækni sem fæstir höfðu talið úrelta. Þegar Apple gaf út fyrstu iMac tölvuna árið 1997 þá var til dæmis mjög umdeilt að á henni voru aðeins USB tengi í stað hefðbundinna Serial tengja. USB tengin voru tiltölulega ný og lítið af aukahlutum í boði fyrir þau. Á þessum tíma var þetta áhættusamt hjá Apple. Fyrirtækið rambaði á barmi gjaldþrots og erfitt var að sjá velgengni USB staðalsins fyrir. iMac sló hinsvegar í gegn og sú velgengni hjálpaði óneitanlega til við að gera USB að þeim staðli sem það er í dag.
Apple hefur verið mjög ötult í að hætta stuðningi við ýmsa tækni sem þá virtist besti valkosturinn en, eftir á að hyggja, hefðu mátt deyja mun fyrr. Eitt skýrasta dæmið um þetta var ákvörðunin að styðja ekki Flash margmiðlunarstaðal Adobe í fyrsta iPhone símanum (og öllum þar á eftir). Flash var þá með yfirburðarstöðu á markaði og engar aðrar raunhæfar lausnir í sjónmáli. Margir spáðu iPhone ekki langlífi án Flash stuðnings. Margar tilraunir voru gerðar með Flash stuðning á Android tækjum sem allar runnu út í sandinn. Í dag er Flash nánast dautt og HTML5 hefur tekið við. Með því að neita að styðja Flash gat Apple, í krafti stærðar sinnar og stöðu, ýtt markaðunum í rétta átt. Jafnvel þótt Apple hafi varla vitað hver sú átt yrði árið 2007.
Stundum er stefnan hins vegar mun skýrari. Apple bauð seinast upp á VGA tengi á fartölvu í Powerbook G3 árið 2001. Apple var þá ljóst að stafræn tengi voru framtíðin. Þeir prófuðu sig því áfram með DVI, Mini Display Port og notast núna helst við Thunderbolt tengi og HDMI. Þrátt fyrir þetta þá lifir VGA tengið ennþá góðu lífi og bjóða flestir framleiðendur upp á tölvur með slíku tengi.
Trúa á þráðlausa framtíð
Í raun má skipta svona aðgerðum Apple í tvo hópa; Tækni sem er lögð niður til að nota nýjan staðal sem er betri (t.d. Mini Display Port í stað DVI sem kom í stað VGA) og svo tækni sem einfaldlega er úrelt eða önnur innbyggð virkni er betri framtíðarkostur. Gott dæmi um það er þegar Macbook Pro Retina vélin losaði sig við hefðbundna LAN tengið.
En hvora af þessum leiðum er Apple að fara þegar kemur að 3,5mm tenginu? Vilja þeir mögulega fá alla yfir á sinn lokaða Lightning staðal? Margir virðast túlka þessa ákvörðun Apple þannig. Með því að þröngva notendum yfir í Lightning þá verða þeir mögulega tryggari (bundnari) fyrirtækinu. Viðskiptavinur sem á rándýr heyrnartól sem virka bara með iPhone er ólíklegri að versla aðra tegund af símum. Einnig er beinn fjárhagslegur ávinningur fyrir Apple því framleiðendur sem nota Lightning tengið þurfa að greiða Apple hlutfall af hverju seldu tæki.
Apple svaraði þessum pælingum með afgerandi hætti í gær. Skilaboðin þar voru bæði einföld og skýr. Fyrstu orðin í kynningarmyndinni fyrir þráðlausu AirPods heyrnatólin voru;
„Við trúum á þráðlausa framtíð, framtíð þar sem öll tækin þín tengjast áreynslulaust saman“.
Apple ætlar sér nefnilega ekki að fjarlægja 3,5mm fyrir „nýtt og betra“ tengi eða til þess að þvinga notendur yfir í sinn lokaða staðal. Apple lítur einfaldlega á 3,5mm tengið með sömu augum og þeir
sáu LAN tengið; úrelt tækni sem þráðlaus tækni leysir af hólmi. Rökin fyrir því að hætta að styðjast við LAN tengið á þeim tímapunkti var einfaldlega sú að hinn valkosturinn, þráðlaust internet, var nógu gott fyrir flesta. Þrýsingur frá Macbook notendum hjálpaði svo til við að fá betri netbeina á markaðinn. Að sama skapi er Lighting tengi Apple eða USB Type-C ekki arftaki 3,5mm tengisins frekar en að USB sé arftaki LAN tengisins eða USB minnislyklar arftaki diskettudrifsins. Við ákveðnar aðstæður virkar beintenging klárlega betur. Fyrir þær aðstæður býður Apple upp á reddingu í formi breytistykkis. En með því að taka í burtu heyrnatólatengið þá ætlar Apple sér að setja þá 70 milljón síma sem þeir selja árlega á þráðlausa hluta vogarskálarinnar. Þannig munu tengjalausir iPhone símar gefa Bluetooth staðlinum og framleiðendum Bluetooth heyrnatóla það spark í rassgatið sem þeim hefur sárlega vantað.
Tæknileg leynisósa
Það skiptir Apple engu máli að Bluetooth sé ennþá ekki nógu góð. Og þetta ennþá er einmitt lykilatriðið hér því Bluetooth tæknin er langt í frá því að vera nógu góð til að leysa hefðbundna 3,5mm tengið fullkomlega af hólmi við allar aðstæður. Apple leysir mikið af þeim göllum með AirPods heyrnatólunum sem einnig voru kynnt í gær, $159 heyrnatól sem nota NFC ásamt tæknilegri leynisósu til þess að gera upplifun af Bluetooth margfalt betri. En AirPods eru engin töfralausn fyrir hinn hefðbundna notenda. Til þess eru þau allt of dýr. Það skiptir þó litlu máli því nóg er til af ágætis Bluetooth heyrnatólum frá óteljandi framleiðendum.
Eins og áður notast Apple áfram við opinn staðal sem stendur öllum framleiðendum til boða. Heyrnatól framleidd af Apple munu sannarlega virka betur með iPhone en Android símum, ef þau styðja Android á annað borð, en sá sem verslar dýr og vönduð heyrnatól þarf ekki að hafa áhyggjur af því að þau virki ekki með nýjum síma, óháð því hvaða stýrikerfi hann keyrir á. Í litlum tækjum þar sem hver millimeter af plássi er verðmætur mun 3,5mm tengið einfaldlega hverfa á allra næstu árum. Það er líklegt að þessar breytingar verða bæði sársaukafullar og óþolandi. Eina sem er öruggt að við þurfum að finna pláss fyrir enn eitt hleðslutækið.