Ég fer á kaffihús í miðbæ Reykjavíkur, svona til að breyta út frá hversdagslegu lesstofunni í Háskóla Íslands, fæ mér cappuccino og stærðarinnar gulrótartertu, sest niður á vel valinn stað. Er tilbúin að vinda mér í skrif eða lestur dagsins, en áður en ég tek bita eða sopa af kræsingunum, þá tek ég Snapchat-mynd og set í story. Um helgina fer ég síðan út á lífið með vinum mínum, mér finnst ég líta svo vel út eftir að ég er búin að eyða dágóðum tíma að gera mig til að ég ákveð að taka mynd af mér í flotta nýja kjólnum mínum, skelli henni á Instagram, set flotta síu sem lætur litarhátt minn líta betur út og bíð eftir að like-in hrannist inn. Tek síðan snapp af flöskuborðinu á B5 og af því hvernig vinur minn dansar asnalega upp á borði og tek eina sjálfu með vinkonu.
Daginn eftir er bröns og ég skelli í mímósu með, ég tek Snapchat-myndband af því þegar við vinkonurnar skálum. Læt það ekki nægja heldur tek líka mynd af hópnum, bið þær um að þjappa sér saman og halda á glösum og skelli síðan bestu myndinni af þeim tuttugu sem við tókum á Instagram aðgang minn, lýsi birtuskilyrðin og finn upp góða yfirskrift á myndinni. Deili síðan einnig á Facebook. Því ef ég miðla því ekki, hvernig á þá fólk að vita að ég hafi gert þessa hluti?
Flestir ungir snjallsímanotendur og samfélagsmiðlaskoðendur ættu að kannast við eitthvað af þessum dæmum sem sett hafa verið fram. Allir mis-„sekir“ um magn mynda eða myndbanda sem eru tekin og síðan deilt á samfélagsmiðlum á borð við myndforritin Instagram og Snapchat. Tvö fremur ólík forrit í verkan en deila hins vegar svipaðri ætlan. Bæði forritin hafa nefnilega nánast leyst af hlutverk raunveruleikasjónvarps og veita því gægjuhneigðu samfélagi mikilla ánægju og/eða óánægju. Sú hugmynd sem raunveruleikasjónvarpið innleiddi, þessa um að frægð væri eftirsóttur og góður hlutur, sem nánast hver sem er gæti öðlast ef hann legði sig fram í lífinu, liti vel út og klæddi sig í nýjustu tísku, hefur tvíeflst með tilkomu samfélagsmiðla sem hvaða meðaljón getur nýtt sér.
Samfélagsmiðlaforritið Snapchat vex sífellt meira í vinsældum hér á landi, sem og á mörgum öðrum stöðum í heiminum. Forritið, sem hægt er að fá í flesta nýjustu snjallsímana, er orðinn að einskonar fjölmiðli í þeim skilningi að fjöldamargar leiðir eru í boði til að notfæra sér forritið til að hafa samskipti og deila með öðru fólki upplýsingum og myndefni, þá bæði með spjallgluggum, myndbandaupptökum og beinni símtalatengingu. Miðillinn er auk þess ávallt í endurmótun og við hann bætast reglulega nýir eiginleikar í formi sía (e. filters), frétta og tákna.
Snapchat hefur þó þann háttinn á að öll miðlun er einungis sýnileg í stuttan tíma í senn, sem eykur einnig undir það sérkenni að þetta er miðlun á raunverulegu lífi sem er einungis hægt að horfa á í rauntíma. Engar endursýningar, allt er nýtt, ferskt og að gerast akkúrat þessa stundina. Stórar raunveruleikastjörnur á borð við Kardashian fjölskylduna nýta miðilinn óspart, og hafa þar með veitt aðdáendum sínum nánast óendanlegan aðgang að einkalífi sínu, sem nær langt út fyrir það sem sést í raunveruleikaþáttaseríu þeirra, Keeping up with the Kardashians. Fyrir utan þessa símiðlun þá gefur Snapchat einnig meiri loforð fyrir raunverulegum raunveruleika, ef svo má segja. Áhorfendur og aðdáendur stjarnanna fá þá tilfinningu að þekkja stjörnuna betur og nánar vegna persónulegra skilaboða í formi snappa.
Raunveruleikasjónvarp stjarnanna fær aukið vægi með Snapchat
Það sem Snapchat gerir einnig að verkum er að við, hinn óbreytti almúgi, alls óviðkomandi nokkrum papparössum eða milljón dollara villu í Los Angeles, fáum einnig að vera stjörnur. Snapchat býr til grundvöll fyrir miðlun sem er á pari við raunveruleikasjónvarp stóru sjónvarpsfyrirtækjanna. Við erum stjórnendur okkar eigin miðlunar og sköpunar. Við höfum mjög sterka þörf fyrir að deila hlutum með öðrum einstaklingum og er því þessi grundvöllur símiðlunar í formi samfélagsmiðla ákjósanlegur og vinsæll. Algengt er að deila fyndnum myndbrotum með vinum sínum og fjölskyldu en eftir því sem miðillinn óx í vinsældum fór það að færast í aukana að þeir notendur Snapchat sem voru hvað fyndnastir eða snjallastir í notkun miðilsins opnuðu aðgang sinn fyrir ókunnugum og leyfðu hverjum sem er að fylgjast með sínu daglega lífi.
Svokallaðir snapparar hafa því orðið til hér á landi sem og annars staðar. Raunverulegt fólk, sem er ekki andlit neinna stórfyrirtækja né frægt fyrir nein tiltekin verk, fá þúsundir fylgjenda með því einu að vera umtöluð um að vera fyndin, sniðug eða skemmtileg. Flottur og eftirsóknarverður lífsstíll er þó aðal aðdráttarafl gægjuhneigðar (e. mediated voyerism) en margir af vinsælustu snöppurunum klæðast einmitt fínum og vinsælum flíkum, eiga falleg og hrein heimili, vinna í eftirsóknarverðum störfum og eiga skemmtilegt og/eða fjölbreytt félagslíf.
Snapchat er þó ekki einungis hið nýja raunveruleikasjónvarp, heldur hefur miðillinn einnig leyst hið svokallaða blogg af hólmi. Lífstílsráð, húsráð og snyrtiráð eru því gríðarlega algeng inni á Snapchat og hefur þeim snöppurum farnast best sem gefa bestu ráðin sem henta í landann hverju sinni. Snappararnir fá síðan endalausar spurningar frá áhorfendum sínum, þar sem krafist er meiri upplýsinga um einkalíf, lífsstíl eða um persónulegar eigur snapparans. Fólk er forvitið um annað fólk og í þessari iðju brýst gægjuhneigð einstaklinga mest fram.
Snappararnir gefa innsýn inn í sín persónulegu líf, en því þarf þó að taka með fyrirvara þar sem að hægt er að taka myndskeiðin oft upp þangað til að fullkomnun er náð. Svokallaðar fegrunar-síu eða „beauty-filterar“ fegra ásýnd notenda og einungis er sýnt það sem snapparinn vill að sé sýnt. Hver og einn notandi miðlar því sem hann vill miðla. Snapchat og myndforritið Instagram gefa tækifæri fyrir hvern og einn að skapa sér ákveðna persónu og sjálfsmynd. Mögulega fegraða með ýmsum leiðum. „Like-in“, deilingarnar og fjöldi fylgjenda eru síðan þeir mælikvarðar sem eru notaðir á virði persónunnar. Enda mætti segja að við séum með sköpun okkar á eigin samfélagsmiðlapersónu að gefa færi á því að vera dæmd og dæma sjálf. Við erum hinar nýju raunveruleikastjörnur.