Loftslagsbreytingar eru ein helsta ógn mannkynsins um þessar mundir. Margir hafa því áhyggjur af því að forsetakjör Donald Trump komi til með að hafa slæmar afleiðingar fyrir framtíð Parísarsáttmálans sem undirritaður var í fyrra.
Áhyggjurnar verða að teljast nokkuð eðlilegar, sér í lagi vegna yfirlýstrar andstöðu Trump gegn loftslagsmálum og með óendurnýjanlegum orkugjöfum. Ef marka má orð sérstaks sendimanns loftslagsmála í Bandaríkjunum, Dr. Jonathan Pershing, mun Parísarsáttmálinn þó lifa af kjörtímabil Trump, þrátt fyrir fyrirséða mótstöðu hans.
Áframhaldandi viðræður eftir Parísarsáttmálan standa nú yfir í Marokkó og tilkynnti Dr. Pershing á fundi þar í gær að hann teldi að sú ástríða sem kom Parísarsáttmálanum í gegn sé nógu sterk til að standast mótlæti frá forseta Bandaríkjanna ef til þess komi. Hann bætti við að „þjóðhöfðingjar geta og munu breytast en ég er fullviss um að við munum halda uppi varanlegu alþjóðlegu verkefni til að berjast gegn loftslagsbreytingum“.
Donald Trump hefur verið stórorður í garð málefna sem snúa að loftslagsbreytingum og sagðist meðal annars ætla að slíta Parísarsáttmálanum yrði hann forseti auk þess að neita að láta af hendi fjármögnun til Sameinuðu þjóðanna vegna lofslagsmála.
Síðan hann var kjörinn fyrir um viku hefur Trump þegar stigið skref gegn loftslagsmálum með því að skipa Myron Ebell, sem kallaður hefur verið versti óvinur málstaðsins, til að leiða breytinga á Umhverfisverndarstofnun Bandaríkjanna.