Þegar ég bjó í París fannst dapurlegt að sjá varla eina einustu jólaseríu og jólaskraut í gluggum í heimahúsum. Nánast undantekning að svalir væru skreyttar og ekki vantaði handriðin úr málmi á fjölbýlishús í París. Svo sannarlega breyting frá ofskreyttu Íslandi. Auðvitað er eins og að heimsækja ævintýraheim að ganga eftir Champs-Elysée breiðgötunni um jólin sem Frakkar af mikilli hógværð kalla fallegustu breiðgötu í heimi. Trén eru skreytt þúsund ljósa og jólamarkaður á torgi um miðbik götunnar. Verslanir eru einnig skreyttar eins og torg víða um borga.
Þetta var á þeim árum þegar ekki var beint flug heim yfir vetrarmánuðina frá París og ég fór frá Gare de l´Est lestarstöðinni til Lúxemborgar til að ná í flug Flugleiða heim. Í austurhluta Frakklands var heldur meira um skreytt tré í görðum að norrænum hætti og ekki að ástæðulausu að frægasti jólamarkaður Norð-Austur-Frakklandi sé í Strassborg. Eftir því sem norðar er komið er kaldara og þar snjóar og því meiri jólastemning eins og þekkist heima á Íslandi. Seinna eftir flutninginn til Nice var svo sem ekki við neinu sérstöku að búast hér enda apertíf stundum drukkinn úti á svölum á jóladag fyrir jólamatinn. Staðreyndar var öll önnur þegar jólin 2011 nálguðust og jólaljósin á hinum fjölmörgu svölum hér í Suðrinu fóru að skjóta upp kollinum.
Suðrið sem ég kalla stundum Villta Suðrið í samanburði við Villta Vestrið í Ameríku er nokkuð sérstakt. Hér er nefnilega ekki aðeins hærra hitastig heldur sömuleiðis blóðhiti þegar eitthvað bjátar á. Ekki óalgengt að sjá hnefa bílstjóra á lofti þegar vegfarandi hefur farið yfir á grænu gönguljósi og bílstjórinn nærri því keyrt yfir vegfarandann. Allt þeim gangandi að kenna! Það er eins og það séu einhver ósýnileg landamæri hér fyrir ofan Frönsku Ríveríuna og Miðjarðarhafsströndina sem á sér ýmsar birtingarmyndir. Í hugum margra er kvikmyndahátíðin í Cannes og síðkjólar, Mónakó og casínó sem kemur fyrst upp í hugann en veruleikinn er nokkuð ólíkur þegar litið er á líf almennings í Nice svo ekki sé minnst á úthverfin.
Hér í landi er töluverður sjáanlegur stéttamunur milli þeirra sem hafa einhverja menntun. Einnig milli þeirra sem búa í stærri borgum og á minni stöðum. Merkilegt að bera saman við Ísland þar sem enginn munur er á þeim sem búa í þéttbýli eða dreifbýli. Þessi munur er mjög áþreifanlegur hér Syðra. Í Nice sést það til dæmis á klæðnaði fólks, sérstaklega kvenna. Hér er gjarnan hver silkihúfan upp af annarri. Ekkert er betra en að blanda saman tveimur, þremur hlébarðamynstrum í sama „lúkkið“ eða þá bæði semelíusteinum og pallíettum, allt fullkomnað með glimmer í kringum augum og glitrandi blómaspennu í hárið. Á tíu fingur þarf tíu hringi og svo má gjarnan sjá pils með kögri og notað með jakka með kögri í stíl og jafnvel handtaskan sömuleiðis. Vel klætt fólk sést minna í miðborginni en í flestum frönskum borgum sem ég hef komið til. Efnaðir fara annað.
En hvers vegna að ræða klæðnað kvenna í tengslum við jólaskreytingar? Jú, einmitt vegna þess að þær eru önnur birtingarmynd af þessum stíl eða eigum við að leyfa okkur sem Íslendingar sem skreyta af smekklegheitum að tala um smekkleysu. Í Nice er reglan að blanda saman sem flestu líkt og í klæðnaði. Þar má finna upplýst dýr og snjókarla, langar slöngur vafðar um handrið með ljósum, ljósaskilti með „Joyeux noël“. seríur í öllum regnbogans litum og auðvita blikkar allt með stressandi takti. Ekki er óalgengt að finna fimm til sex mismunandi seríur á sömu svölum og í sitthverjum litnum. Teldist líklega glæpur eða tískuslys á Íslandi. Fyrirbærið að íbúar í fjölbýlishúsi taki sig saman og hafi eins svalaskreytingar er algjörlega óþekkt hér. Punkturinn yfir I-ið er svo oft jólasveinn sem er hengdur upp í stiga utan á svalirnar líkt og hann sé að mæta með gjafir í poka.
Í fimm ár hef ég reynt að kenna Nice-verjum hvernig Íslendingar gera þetta og set upp einlitar óblikkandi jólaseríur en hingað til hefur það ekki erindi sem erfiði og því baráttan fyrir fallegri jólaskreytingum í heimahúsum í Nice líkust Don Kíkóte í stríði hans við vindmyllur. Eða eins og Frakkar myndu segja „að pissa í fiðlu“. Veit ekki hvort að merkingin er í líkingu við íslenska máltækið ,„að pissa upp í vindinn“. En þá er bara að ylja sér við minningar af hvítum jólum á Íslandi þar sem fannhvít mjöll skreytir upplýst tré og ekkert blikkar.