Fyrri umferð forkosninga franska Sósíalistaflokksins fer fram á morgun, sunnudaginn 22. janúar. Þetta er flokkur fráfarandi forseta, François Hollande, sem verður ekki í framboði í væntanlegum forsetakosningum í maí í vor. Það er í fyrsta skipti í sögu landsins sem fráfarandi forseti sækist ekki eftir endurkjöri eftir aðeins eitt kjörtímabil. Áhugi almenning s á þessum kosningum er lítill og mun minni en á forkosningum Lýðræðisflokks Nicolas Sarkozys, fyrrum forseta, þar sem François Fillon vann glæsilegan sigur í nóvember.
Frambjóðendur hjá Sósíalistum eru sjö en þrír berjast á toppnum. Þeir eru Manuel Valls sem var forsætisráðherra Hollandes þar til fyrir skemmstu, Arnaud Montbourg, fyrrum iðnaðarráðherra, og sá þriðji er Benoit Hamon, fyrrum menntamálaráðherra. Þá tvo síðarnefndu rak Valls á sínum tíma úr ríkisstjórninni fyrir að andmæla efnahagsstefnu hennar.
Valls hefur verið sakaður um að hafa ýtt forsetanum til hliðar með þeim rökum að hann hafi verið kominn í vonlausa stöðu vegna óvinsælda sinna. Reyndar hefur forsetinn hækkað um átta prósentustig í vinsældakosningum eftir yfirlýsingu sína um að hann sækist ekki eftir endurkjöri. Valls virðist hins vegar eiga dálítið erfitt með að spila sig upp sem einu von vinstrimanna, ríkisstjórn hans varð sífellt óvinsælli og hann getur ekki hlaupist undan því að hafa setið að völdum síðustu ár og framfylgt stefnu forsetans. Hann er einnig sakaður um að hafa klofið vinstrimenn og að vera bæði ónærgætinn og ráðríkur. Manuel Valls var lengi vel efstur í skoðanakönnunum, ef taka má mark á þeim, en hefur heldur lækkað og stendur nú í stað meðan hinir tveir sem eru lengra til vinstri flokknum hafa verið að sækja í sig veðrið.
Það virðist einnig vera lenska í forkosningum fyrir væntanlegar forsetakosningar að almenningur kýs ekki eins og áætlað er. Hjá hægrimönnum duttu þeir sigurstranglegustu út. Sarkozy, fyrrum forseti, strax í fyrri umferðinni og Alain Juppé, fyrrum forsætis- og utanríkisráðherra, sem hafði í tvö ár verið efstur í öllum könnunum, í þeirri seinni. Forsetinn er hættur við og hvers vegna skyldi forsætisráðherra hans ekki fjúka líka? Enginn virðist eiga sitt á þurru hjá kjósendum.
Arnaud Montbourg var fyrir síðustu forsetakosningar hinn svokallaði „þriðji maður“ í prófkjöri Sósíalista og studdi svo Hollande þegar hann vann útnefningu sína. Hann hefur mikið gagnrýnt Hollande og Valls fyrir sósíal-líberalisma sem rekinn hefur verið síðustu þrjú ár og vill iðnvæða landið að nýju og setja franska framleiðslu í forgang. Fylgja eins konar verndarstefnu sem virðist mjög eiga upp á pallborðið víða um heim um þessar mundir, til dæmis hjá Donald Trump í Bandaríkjunum og Theresu May í Bretlandi. Montbourg hefur hingað til verið annar í könnunum á eftir Manuel Valls en síðustu tvær vikur hefur „þriðji maðurinn“, Benoit Hamon, komist á flug og er stundum annar í könnunum. Hann þótti standa sig best í öðrum sjónvarpskappræðum frambjóðendanna á sunnudaginn var. Hamon er líklega sá frambjóðandi Sósíalista sem hvað ferskastur þykir, hefur ýmsar nýjar hugmyndir, til dæmis að lögleiða lágmarksframfærslu fyrir alla, óháð vinnu, eins og nýlega hefur verið rætt í Finnlandi.
Þessar kosningar eru því að opnast og erfitt að spá um úrslit á sunnudagskvöld. Fari svo að Manuel Valls, fyrrverandi forsætisráðherra, verði efstur þá á hann eftir að eiga í erfiðleikum með að safna saman fylgi hinna sem falla úr leik. Hinir tveir sem líklega keppa hvað harðast um sæti í annarri umferð, Montbourg og Hamon, eru á svipaðri pólitískri línu og því líklegra að þeir geti safnað saman fylgi hins, falli annar hvor þeirra út, og þá er Valls í vondum málum.
Á fimmtudagskvöld í síðustu viku fóru fram þriðju kappræður milli frambjóðendanna sjö, á besta tíma ríkissjónvarpsins France2 og voru heldur líflegri en þær fyrri. Sigurvegara seinni umferðarinnar, sem fram fer 29. janúar bíður svo ekki létt hlutverk. Eins og stendur er verðandi frambjóðandi Sósíalistaflokksins fimmti í könnunum á landsvísu. François Fillon er efstur en hefur tapað frá því að hann vann prófkjör Lýðræðisflokksins. Marine Le Pen úr Þjóðernisfylkingunni er önnur og nú fyrrum efnahagsráðherra, Emmanuel Macron, þriðji en hann neitaði að taka þátt í forkosningum Sósíalista. Macron er rétt fyrir ofan Jean-Luc Mélenchon sem er fjórði en hann er enn lengra til vinstri við Sósíalistaflokkinn.
Sterkur orðrómur er um að Ségolène Royal umhverfisráðherra, sem tapaði á móti Sarkozy í forsetakosningunum 2007 og er reyndar fyrrverandi sambýliskona Hollandes forseta, sé orðin ráðgjafi Macrons og muni fljótlega lýsa yfir stuðningi við hann. Einnig heyrðist í síðustu viku að Hollande sjálfur muni jafnvel gera slíkt hið sama og þannig veita Sósalisaflokknum náðarhöggið. Macron gæti því orðið eina von þeirra sem teljast til vinstri við öfga hægrimenn og hið klassíska hægri í Frakklandi.