François Fillon forsetaframbjóðandi Repúblikana í Frakklandi er í vondum málum og er boðaður þann 15. mars til rannsóknardómara þar sem opinber rannsókn mun væntanlega hefjast. Stuðningsmenn Juppé vilja að hann taki við. Á sama tíma nálgast fyrrum efnahagsráðherra François Hollande, Emmanuel Macron sem er sjálfstæður frambjóðandi, Marine Le Pen frá Þjóðernisfylkingunni í skoðanakönnunum. Hann kynnti stefnu sína í gær.
Á miðvikudagsmorgun aflýsti François Fillon heimsókn sinni á landbúnaðarsýninguna í París sem nú stendur yfir og hver einasti frambjóðandi til forseta í Frakklandi heimsækir og boðaði til blaðamannafundar á hádegi sem hófst hálftíma á eftir áætlun. Margir voru farnir að búast við stórtíðindum og spurningar vöknuðu um hvort frambjóðandinn myndi draga sig út úr baráttunni. Þegar Fillon loksins birtist tilkynnti hann að rannsóknardómari hefði boðað hann til yfirheyrslu og að opinber rannsókn færi væntanlega af stað. Fillon ætlar þó ekki að hætta við framboð sitt og sakar dómskerfið um að ofsækja sig fyrir hönd valdhafa. Hann talaði um opinbera pólitíska aftöku og að forsetakosningarnar væru hnepptar í gíslingu. Fillon sagði að hann myndi ekki láta undan og drægi sig ekki í hlé, aðeins dómur kjósenda væri marktækur. Staðan er þó sú að engar sýnilegar sannanir hafa fundist sem sýna að Penelope eiginkona hans og tvö af börnum þeirra, Marie og Charles, hafi leysti þá vinnu af hendi sem þeim var greitt fyrir. Þar stendur hnífurinn í kúnni, hér er ekki aðeins rætt um þá staðreynd að þingmenn ráða fjölskyldumeðlimi sem aðstoðarmenn heldur einnig greiðslur fyrir óunna vinnu og því fjársvik.
Viðbrögðin voru margvísleg í gær eftir fundinn og greinilega komnir brestir í stuðning framámanna í flokknum. Bruno Le Maire sem var einn af sex mótframbjóðendum Fillons í forkosningunum í nóvember sagði sig úr kosningastjórninni í gær ásamt nokkrum þingmönnum úr sínum stuðningsmannahópi. UDI sem eru samtök hægrimiðjumanna sem voru um það bil að skrifa undir samkomulag við Repúblikana um skiptingu kjördæma í þingkosningunum í júní sem fylgja forsetakosningunum, hafa dregið sig í hlé og koma saman eftir helgi til að taka formlega ákvörðun hvort þeir hætti stuðningi við Fillon. Fleiri þingmenn Repúblikana hafa lýst því yfir að þeir telji ófært að Fillon haldi áfram og hvetja hann til að hætta. Annar skorar á flokkinn að finna nýjan frambjóðanda. Flóttinn hélt svo áfram í gær þegar talan var komin upp í sextíu þingmenn sem neita að halda áfram, tveir aðstoðarkosningastjórar hættu ásamt einu tuttugu starfsmönnum á aðalskrifstofu frambjóðandans.
Í öllum fjölmiðlum er rætt um málið og fáir eru til að verja frambjóðandann. Í leiðara síðdegisblaðsins Le Monde segir meðal annars að það séu ekki rannsóknardómarar sem hneppi kosningarnar í gíslingu heldur François Fillon sjálfur með því að setja sig í stöðu fórnarlambs. Kosningabaráttan snýst ekki lengur um að ræða framtíð landsins sem almenningur bíði eftir heldur hvort hann sé hæfur eða ekki og hvort hann eigi að hætta. Kosningastjórn Fillons hefur ákveðið að efna til stuðningsgöngu á sunnudag en þetta fer mjög illa í suma í flokknum sem telja það ófært að stefna almenningi gegn dómurum og eru hræddir um að til uppþota komi. Einnig tala menn um aðförð að lýðveldinu, að frambjóðandi neiti að viðurkenna dómsvaldið og það sá sem á samkvæmt stjórnarskrá fimmta lýðveldisins á að vera verjandi þess og trygging sjálfstæðis þess verði hann kosinn. Jafnvel hefur verið talað um „Trump-lega“ aðferðafræði Fillons. Í fréttum í morgun er kemur fram að harðasti kjarninn í kringum Fillon sem ætlar að smala fólki fyrir sunnudagsgönguna séu þeir sem börðust hvað mest gegn samkynja hjúskaparlögum sem samþykkt voru 2013.
Nú er að nýju talað um „plan-B“, að einhver annar taki við sem frambjóðandi og stuðningsmenn Alain Juppé fyrrum forsætisráðherra eru farnir að safna meðmælendum fyrir hann en í Frakklandi geta aðeins kjörnir fulltrúar mælt með forsetaframbjóðanda og þarf 500 undirskriftir. Meðmælum þarf að skila 17. mars og því er tíminn knappur. Sömuleiðis eru tæpir tveir mánuðir í fyrri umferð kosninganna og því stuttur tími fyrir nýjan frambjóðanda í kosningabaráttuna. Þar er annað vandamál því Nicolas Sarkozy fyrrum forseti er sagður þvertaka fyrir að Juppé verði í framboði. Þetta gæti skýrst um helgina.
Á sama tími kynnir Emmanuel Macron, fyrrverandi efnahagsráðherra og frambjóðandi hreyfingarinnar „En marche“ sem útleggst: Á Hreyfingu, stefnu sína en hann hafði verið gagnrýndur fyrir að hafa enga. Hann vill koma landinu á hreyfingu og notaði aðferðir Barak Obama við undirbúninginn. Mánuðum saman hafa sjálfboðaliðar gengið í hús og talað við fólk. Hér er á ferðinni frjálslyndur sósíal-demókrati sem minnir dálítið á Tony Blair í Bretlandi og Gerard Schröder Þýskalands fyrir tuttugu árum. Hann vill bylta atvinnuleysisbótakerfinu og innleiða ákveðið „flexi-öryggi“ sem gæti minnt á skandinavíska aðferðafræði. Einnig á að sameina eftirlaunakerfið í eitt sem myndi þýða að opinberir starfsmenn missa sitt sérréttindakerfi. Macron vill siðvæða stjórnmál og meðal annars banna þingmönnum að ráða fjölskyldumeðlimi sem kemur líklega ekki á óvart eins og umræðar er. Emmanuel Macron sem hefur verið að síga fram úr Fillon í skoðanakönnunum síðan Penelopegate komst í umræðuna fyrir mánuði og nálgast nú Marine Le Pen sem er með 26-27 prósent í könnunum. Macron er með um 25 prósent. Þetta er einnig að þakka samkomulagi sem hann gerði við miðjumanninn François Bayrou í síðustu viku. Bayrou hefur í þrígang verið forsetaframjóðandi og náði hæst í 18 prósent 2007. Með honum fylgir smáflokkurinn Modem (Modern Democrate) og um fimm prósenta fylgi. Eins og staðan er nú lítur sem sagt allt út fyrir að Macron verði í annarri umferð forsetakosninganna 7. maí og mæti Le Pen og þar myndi hann vinna hana með yfirburðum, um 60 prósentum. Þetta er sögulegt því þá yrðu hvorki frambjóðandi hins klassíska hægri flokks né vinstri í annarri umferð.
Annað sem er einkennilegt er að þó að skrifstofustjóri Marine Le Pen sem var á launum sem aðstoðarmaður á Evrópuþinginu sæti nú rannsókn og að Le Pen hafi neitað að mæta til dómara og svara spurningum og notar til þess þinghelgi þá hefur það í augnablikinu ekki áhrif í skoðanakönnunum. Nú hefur hins vegar Evrópuþingið svipt hana þinghelgi til að svara fyrir sakir í öðru máli, hið svokallaða „Tweet-mál“. Þar er Le Pen ákærð fyrir að hafa dreift myndum frá Daech sem sýndu aftöku gísls sem hún tengdi við múslima. Þetta breytir þó engu um ásakanir um fjárdrátt á Evrópuþinginu en gæti þýtt að þinghelginni yrði aflétt að nýju og að Marine Le Pen geti ekki skotist undan dómurum frekar en aðrir. Hún hefur eins og Fillon talað um pólitískar ofsóknir valdhafa þó rannsóknin renni undan rifjum Evrópusambandsins.