Nýjasta bók rithöfundarins Wladimir Kaminers heitir „Goodbye Moskau“ og er kveðja til Sovétríkjanna sem hann ólst upp í. Helga Brekkan hitti Kaminer á Meta Cafe nærri Mauerpark í Berlín.
Bókin „Plötusnúður rauða hersins - Russendisko“, eftir höfundinn hefur komið út á íslensku og hefur hún verið þýdd á fjölda tungumála og kvikmynd gerð eftir sögunni. Kaminer segist hafa heimsótt Ísland.
„Ég hef nokkrum sinnum heimsótt Ísland og einu sinni hélt ég fyrirlestur í Reykjavík með slædsmyndum. Um hvunndagshetjur. Vinur minn safnaði ljósmyndum af allskonar fólki. Til dæmis af mönnum að vísa til vegar eða konur við garðhlið eða fólk upp við hillusamstæður. Alltaf þegar einhver keypti svona stóran hilluvegg var tekin mynd. Vinur minn safnaði þannig myndum á elliheimilum og flóamörkuðum og ég samdi sögur við myndirnar,“ segir Kaminer um tengingu sína við Ísland.
„Það gerði ég á Íslandi og fólkið hlustaði af athygli... og já nú man ég þetta. Þemað var mannkynið í öllum sínum myndum. Eftir fyrirlesturinn spurði ég hvort það væru einhverjar spurningar en svarið var: „Nei, engar spurningar um mannkynið.“ Það hafði djúp áhrif á mig... sem sagt vel upplýstir Íslendingar með engar spurningar um mannkynið.“
Þegar Berlínamúrinn féll flutti Kaminer frá heimaborg sinni Moskvu til Berlínar. Þar lærði hann þýsku og nýtur nú mikilla vinsælda sem metsöluhöfundur í Þýskalandi og víðar. Hann hefur einnig stjórnað sjónvarpsþáttum þar sem hann ferðast um Þýskaland. Og sterkur rússneskur hreimur og húmor hefur slegið í gegn.
Persónur bóka hans eru oftast fjölskyldan; tengdamóðir og móðir börnin tvö og eiginkonan Olga. En saman mynda þau ásamt fleirum plötusnúðateymi og útgáfuna Russiendisko. Þau hafa lengi spilað víða um Evrópu blöndu af rússneskri danstónlist.
Þú hefur búið hér síðan 1990 ert þýskur ríkisborgari og skrifar á þýsku. Ertu samt alltaf „rússinn“ í augum þjóðverja?
„Satt að segja hef ég mestan áhuga á Evrópu og lít á mig sem Evrópubúa. Hef áhuga á evrópskri sögu og hvernig þjóðirnar hafa lifað saman hver með annari. Hver er grunnurinn að þessu samlífi?“ veltir Kaminer fyrir sér.
„Ég lít fyrst og fremst á mig sem Evrópubúa, sérstaklega vegna framtíðarinnar hér og fjölskyldu minnar. En ég skil það núna þegar rússnesk stjórnvöld hafa ekið svona algerlega útaf veginum, þá tek ég það á mig að reyna að segja frá og útskýra, og segja að Rússar séu í lagi og að þeir muni koma aftur. Að þetta sé máttleysi sem líði hjá. Máttleysi úr eigin veikleika og af ótta við að enginn muni hjálpa þeim, sem er ekki rétt. Það er bara þess vegna sem ég tala um Rússland. Eiginlega væri ég heldur mikið meira með hugann við Þýskaland.“
Hver er munurinn á þýskri og rússneskri þjóðarsál?
„Þýska þjóðarsál má finna í orðum eins og forsjálni. Þeir hugsa mikið um framtíðina þeir vilja vita hversu há eftirlaunin sem barnabörnin þeirra fá verða. Á bakvið það er sterk trú um að hægt sé að setja reglur um allt. Setja ramma utan um framtíðina. Rússarnir vita hins vegar að þegar kemur að því að fara á eftirlaun þá kemur ríkið og tekur peningana; Það eru engar væntingar um framtíðina. Rússneska sálin segir: hér og nú skal lifað því það er engin framtíð.“
Í Goodbye Moskau er eins og þú sért að kveðja, heimalandið, Sovétríkin.
„Það er vandasamt að kveðja þetta ríki – sem er fallið – því það er samt svo mikið eftir af því enn þá. Leyniþjónustuforingjarnir stjórna; Þeir sem fengu ekki lengur að vera embættismenn í Austur-Þýskalandi. Þetta eru þeir sem björguðu sér á breytingatímum á meðan ríkið sem þeir áttu að gæta hrundi. En þeir sjálfir héldu velli og passa upp á sjálfa sig og eigið viðurværi á kostnað allra hinna,“ útskýrir Kaminer.
„Bókin mín heitir Goodbye Moskau vegna þess að ég vil meina að þessi afar athyglisverði og margbreytilegi sovéski tími hefur ekki verið kvaddur almennilega. Í rússneskri hjátrú er sagt að það sem er ekki kvatt í alvöru heldur áfram að vera til og gengur aftur í höfði fólks. Til dæmis þá trúa margir Rússar því að lík Lenins beri ábyrgð á því að þjóðfélagið kemst ekki áfram. Ég skrifa til dæmis um það í bókinni að á meðan þessi Lenin er ekki jarðsettur getur landið ekki haldið áfram veginn. Svo eru allskonar hópar; Ég lýsi einum í bókinni sem kemur í grafhýsi Lenins með vígt vatn. Þau skvetta á hann og skipa honum að standa upp og ganga. En það getur hann ekki.“
Þú segir líka frá heila Lenins sem vísindamenn hafa fengið hluta af til að rannsaka.
„Já, ég las mér til um það. Þriðjungur er hér í Þýskalandi einhvers staðar, annar þriðjungur í Bandaríkjunum og sá síðasti í Rússlandi.“
Trúir fólk því að dreifing heila Lenins sé óheillamerki?
“Nei, ekki dreifing heilans út af fyrir sig, heldur líkið. Múmían hún þarf að komast út. Allar manneskjur eiga það skilið að vera grafnar á einhvern hátt. Og Sovétríkin líka. Eins og Þjóðverjar gerðu með nasisma þar sem voru sett nokkuð skýr mörk, þannig ættu Rússar einnig að gera upp kommúnismann. Þannig að hver manneskja – að minnsta kosti þær sæmilega skynsömu – geta sagt við hið svokallaða hægra- og vinstraöfgafólk: „Þakka ykkur fyrir athyglisverðar hugmyndir en við höfum þegar prófað þetta og það virkar ekki“.“
Fyrsta saga bókarinnar fjallar um ísskáp
„Ísskápurinn er nokkurs konar líking fyrir Sovétríkin. Allir sem ólust upp í þessu ríki – eins og ég – spyrja sig hver tilgangurinn hafi verið. Það hlýtur að hafa verið einhver tilgangur... og varðandi þennan risaísskáp er það eins. Enginn veit fyrir hvað hann var byggður. Þeir sem það gerðu eru löngu dánir,“ segir Kaminer.
„Sennilega er þetta raunverulega eldflaug sem fljúga á til sólarinnar. Og hér fjallar þetta um það þegar heilt ríki flýgur um borð í ísskáp til sólarinnar. Ísskápsagan er sönn eins og allar, ég bý þetta ekki til.“
Önnur sagan um frænkuna í Donetsk
Í annari frásögn kristallast sambandið á milli Rússlands og Úkraínu í frænku þinni.
„Vandamálið með frænkuna í Donetsk var að hún fór til skiptis á mismunandi mótmæli. Það fór eftir skapi hennar en svo vakti hún grunsemdir hjá báðum hópum og varð að flýja. Sagan um frænkuna útskýrir kannski mannlegu hörmungarnar sem dynja á fólki í Austur-Úkraínu að tveir þriðju hlutar íbúanna hafa þurft að yfirgefa heimili sín.“
Kaminer segir söguna hins vegar ekki skýra stríðið í Úkraínu út af fyrir sig. „Því þessi mótmæli sem hún tók þátt í voru friðsamleg. Alveg eins og á Krímskaga áður. Það er ekki eins og þetta fólk hafi fallið niður af tunglinu. Þetta var greinileg innrás rússneskra sérsveita. Hvorki hernámið á Krímskaga né stríðið í Austur-Úkraínu hófust með fólkinu þar. Heldur með innrás rússneska hersins. Á Krímskaga hernumdu þeir þingið og tóku þingmenn sem gísla og þvinguðu til að leysa upp þingið. Síðan settu þeir annað fólk í stólana sem héldu þessar gervikosningar. Í Donetsk var þetta nákvæmlega eins.“
Þú komst til Þýskalands frá fallandi Sovétríkjunum. Nú er nýr hópur Rússa að setjast að í Berlín.
„Nú koma margir blaðamenn og allir sem hafa eitthvað að gera með fjölmiðla því frelsi fjölmiðla í Rússlandi er ógnað. Allir fjölmiðlar eru undir hæl stjórnvalda. Allir þeir sem neita að fylgja þeirri línu eru reknir eða fara til útlanda. Núna eftir fjöldamótmælin í lok mars eru fréttir frá Rússlandi sem eru frá mínu sjónarhorni mjög mikilvægar og jákvæðar. Ég legg mikið á mig við að segja frá því hér í Þýskalandi og víðar í Evrópu að Rússar láta ekki bjóða sér hvað sem er frá stjórnvöldum og að þau eru ekki jafn andsnúin Evrópu og stjórnvöld þar. Ég segi frá því að Rússar séu í fínu lagi, þeir eigi bara í vandræðum með stjórnvöld.“
„Það er mjög mikilvægt fyrir mig að segja frá þessu og því sem er jákvætt. Og stöðugt er ég spurður um þessar tölur úr rússneskum skoðanakönnun: 86% stuðningur! Í mótmælunum á sunnudaginn sáum við að það er ekki svo. Margir eldri – svona 60% – sitja heima og glápa á sjónvarpið en restin fór út á götu – um það bil 40% – að mótmæla. Það var unga fólkið, þessir ungu strákar sem klifruðu upp á ljósastaur við Pushkin-torgið.“
Og núna er búið að loka torginu verið að gera við styttuna.
„Já, Puskin er alltaf sá seki!“
Hvað myndi þjóðskáldið segja í dag?
„Hann myndi örugglega segja það sem strákarnir sögðu uppi í ljósastaurnum. Af spillingu Medvedev forsætisráðherra, hvers spillingu fólkið var að mótmæla. Sá er hrifinn af orðum eins og: „Það eru ekki til peningar en þraukið áfram.“ Það viðhafði hann umkringdur ellilífeyrisþegum.“
„Og þessir strákar þegar lögreglan sá þá uppi í ljósastaurnum, þeir sögðu við löggurnar: „Við höfum enga peninga en við þraukum áfram!““
Hvert heldur þú að verði framhaldið í Rússlandi?
„Pútín er undir pressu, hann getur ekki gefið eftir því það þýðir að hann verður að láta sitt fólk fjúka. Hann getur ekki hent þessum forsætisráðherra út um gluggann. Því þá segja allir hinir félagarnir í kringum hann: „Hey, hann gefur eftir bara vegna þrýstings frá fólki á götunni.“ Og það myndi veikja völd hans. Og því verður hann að auka valdið og ofsóknir. En hann heldur sig innan marka, eins og allir svona hálf-einræðisherrar. Jafnvel þó hann vildi, þá getur hann ekki orðið Stalín.“
Hvernig var að koma til Berlínar með tvær hendur tómar fyrir 27 árum?
„Þegar ég kom til Berlínar árið 1990 þurfti ég að fylla út eyðublað með nafninu mínu og þar var þessi spurning: „Hvers vegna viltu búa í Þýskalandi?“ Maðurinn við hliðina á mér skrifaði: „Af því ég elska þýska menningu, Nietzsche og Wagner.“ Ég skrifaði það sama eftir honum, eins og strákur frá Afganistan sem var við hliðina á mér og þetta gerðu svo aðrir í röðinni. Þetta varð svona keðjuverkun og skyndilega vorum við allir miklir aðdáendur þýskrar menningar.“
„Það hefur mjög margt breyst síðan ég flutti hingað, en það eru enn margir staðir eins. Til dæmis þetta kaffihús sem við sitjum á; það var hérna þegar ég kom og þá áttu þeir í vandræðum með reksturinn. Ég spurði mig fyrir 27 árum hvernig þeir færu að þessu? En einhvern veginn gengur þetta alltaf áfram. Berlín getur tekið við mörgum því borgin er nógu stór. Hér geta verið fjöldamótmæli, hátíðir og annað í gangi samtímis en ef maður vill vera í friði þá er það líka hægt.“
„Þegar ég var á Íslandi tók ég eftir því flest það sem fólk vill skoða er grjót eða úr grjóti. Við fórum í skoðunarferð með konu sem sýndi okkur hvar fólk býr í steinum og ég lærði það. Ég nota þetta þegar ég sé stóra steina í Berlín, til dæmis hér í Mauerpark.“