„Við byrjuðum í Keflavík fyrir tveimur vikum síðan,“ segja Rita og Willem, tveir ferðalangar sem voru staddir á Drangsnesi þegar blaðamaður Kjarnans átti þar leið hjá. Ferðamannatímabilið á Drangsnesi er ekki nærri því byrjað, þó gistiheimilið sé opnað berist bókanir um veturinn. Rita og Willem voru þess vegna einu ferðamennirnir á gistiheimilinu á skírdag.
„Þetta hefur verið draumurinn minn í langan tíma að koma til Íslands og Willem gaf mér þessa ferð í afmælisgjöf,“ segir Rita og Willem er fljótur að benda á í gríni að þetta sé síðasta afmælisgjöfin til hennar í tíu ár, svo mikið hafi hún kostað.
Þau hafa ferðast á bílaleigubíl eftir hringveginum undanfarnar tvær vikur og hafa gist á gistiheimilum víða um landið. Þau fljúga heim til Belgíu í dag þar sem þau búa. Rita er lettnesk en Willem er Belgi.
Willem og Rita ákváðu að koma í apríl, á meðan það er enn vetur á Íslandi, því þá myndu þau síður lenda í vandræðum vegna mannmergðar og uppbókana. „Okkur þykir skemmtilegra að ferðast með lítil plön. Við viljum ákveða hvar við gistum næstu nótt á ferðinni. Ef við myndum koma um sumar þyrftum við að skipuleggja það í þaula,“ segir Rita.
„Þetta hefur verið geggjað. En maður finnur líka fyrir krafti náttúrunnar,“ segir Rita. „Ég vissi alltaf af veðrinu og hélt að við myndum alltaf ráða við það. En svo var bara hellidemba framan af ferðinni. Hún hætti aldrei og við vorum sífellt rennandi blaut og okkur var kalt. Þá fer maður að missa áhugann á þessum helstu stöðum. Og maður hugsar: „Annar foss! Komm on!“
„En þegar maður kemst í gegnum þessar tilfinningar – þegar náttúran er búin að brjóta þig niður – og maður áttar sig á að allt snýst um veðrið hér þá getur maður notið þess. Við höfum verið mjög heppin með veður síðan þá.“
Rita segist alveg höndla snjóinn enda komi hún frá Lettlandi þar sem hún lærði að aka í snjó. „Ég veit hvernig snjór er og það er ekkert svo slæmt að lenda í honum.“
Mun dýrara hér en þau héldu
Willem segir ferðina hafa verið mjög áhugaverða. „Ég kann vel við landið. Ég hef gaman af útiverunni, fjallgöngunum og ferðalaginu. Það hefur einnig verið auðvelt að ferðast hér. Við höfðum fullt að skoða og það var einfalt að finna allt sem okkur langaði að sjá. Og allar upplýsingar var auðvelt að nálgast, eins og hvernig færðin á vegunum yrði.“
Spurð hvers vegna þau ákváðu að koma á Drangsnes segjast þau hafa langað til þess að koma á Vestfirði en að þau hafi heyrt að það væri erfiðara á veturnar. „Svo frá hringveginum var auðveldast að koma hingað,“ segir Willem. „Fyrir mig er svolítið merkilegt að koma í þessa litlu bæi því í Belgíu eru engir bæir, bara borgir.“
Rita segir að þau hafi reynt að komast upp með að gera ferðina sem ódýrasta. Það hafi hins vegar reynst nokkuð erfitt að samræma væntingar við veskið. „Við eigum ekki endalausan pening. Við ætluðum að gista í heimagistingum, eins og AirBnB, en það kom í ljós að það væri í raun mun dýrara en að vera á gistiheimilum,“ segir Rita. „Okkur finnst skemmtilegra að vera í heimagistingum því þá hittir maður fólkið sem býr hérna. Alls staðar annars staðar eru bara túristar. Á gistiheimilunum hafa heimamennirnir ekki tíma fyrir túristana og maður getur ekki rætt við það.“
Hafiði blandað miklu geði við heimafólk?
„Fólkið hér er vinalegt en það er ekki eins og við höfum hitt marga. Samskiptin eru yfirleitt snubbótt, okkur er bara vísað til herbergis og þá er það búið,“ segir Willem og þau hlæja.
Rita segir það samt vera leiðinlegt því ferðalagið snúist einnig um að hitta fólk. „Fyrir mér snýst ferðalagið raunverulega meira um að hitta fólk. En hér sér maður eiginlega ekki fólkið, hér snýst allt um náttúruna og minna um fólkið. Kannski er það bara hluti af Íslandi og Íslandsupplifuninni...“
Rita og Willem ræddu mikið um að þeim fyndist Ísland dýrt. „Ekki svolítið dýrt, heldur ofboðslega dýrt,“ leiðréttir Rita þegar spurningin um verðlagið er borin upp. Þau segjast vera með meðallaun fyrir sína vinnu í Belgíu en þegar þau koma hingað verði þau að lifa verulega sparlega.
„Okkur þykir eðlilegt að geta farið út að borða einu sinni á dag þegar við ferðumst,“ útskýrir Rita. „Hér er það bara ekki mögulegt. Svo við höfum eldað mat sjálf á þeim gistiheimilum þar sem hefur verið aðstaða til þess. Við ætlum samt að leyfa okkur að fara út að borða síðasta kvöldið í Reykjavík.“