Getnaðarvarnarpillan hefur löngum valdið vísindamönnum, konum og mögulega fleirum höfuðverk. Notagildi hennar er ótvírætt, en það var mikil bylting þegar getnaðarvörn sem þessi kom á markað. Í dag eru pillur sem innihalda tvö hormón, samsett pilla, algengasta getnaðarvörnin sem notuð er í vestrænum ríkjum. Þrátt fyrir mikla notkun eru rannsóknir sem sýna áhrif lyfjanna á heilsu kvenna ekki á eitt sáttar um áhrifin.
Margar rannsóknir hafa bent til þess að notkun hormónanna auki líkur á þunglyndi, aðrar sýna fram á auknar líkur krabbameina, meðan enn aðrar rannsóknir sýna engin tengsl á notkun hormónapillunnar við nokkur veikindi. Til að skera úr um slík tengsl er best að notast við stórt úrtak, þar sem bæði er notast við hormónapillu og lyfleysu til samanburðar.
Á dögunum var ein slík rannsókn birt í vísindaritinu Fertility and Sterility. En hún var framkvæmd við Karolinska Institutet í Stokkhólmi. Í rannsókninni fá 340 konur annars vegar lyfleysu og hins vegar samsetta hormónapillu, með hormónunum ethinylestradiol og levonorgestrel.
Rannsóknin var tvíblind svo hvorki þátttakendur né rannsakendur vissu hvort um hormónapillu eða lyfleysu var að ræða. Þátttakendur voru svo eftir þriggja mánaða meðferð látin meta ýmsa þætti svo sem andlega og líkamlega líðan. Í ljós kom að þær konur sem fengu hormónapillu mátu lífsgæði sín marktækt lægri eftir þriggja mánaða meðferð, m.v. þátttakendur sem fengu lyfleysu.
Lífsgæðaskerðinginn birtist helst í skapsveiflum eða orkuleysi yfir daginn. Þrátt fyrir þetta voru þær konur sem fengu hormón ekki líklegri til að þjást af þunglyndi, samanborið við þær sem fengu lyfleysu.
Lífsgæðaskerðinginn var mjög misjöfn meðal kvennanna en sumar upplifðu svo mikil óþægindi að getnaðarvörn sem þessi á ekki við, þrátt fyrir að hafa ekki bein áhrif á heilsu. Það er því mikilvægt að hafa slíkt í huga þegar konur prófa nýjar getnaðarvarnir í samráði við sinn lækni.
Höfundar rannsóknarinnar benda á að þessi áhrif hormónanna geta leitt til stopulla notkunar og þar með leitt til þess að getnaðarvarnir eru ekki notaðar sem skyldi. Rétt er að taka fram að í þessari rannsókn var notast við eina tegund af samsettri pillu, fleiri samsettar pillur eru til sem mögulega hafa ekki sömu áhrif.