Forsetakosningarnar í Frakklandi 2017 eru sögulegar og ekki hægt að finna sambærileg dæmi í fortíð fimmta lýðveldisins. Nú tveimur dögum fyrir fyrri umferðina er óvíst hvort að nöfn þeirra tveggja sem fara í aðra umferð þann 7. maí verði kunn klukkan átta nú á sunnudagskvöld, eins og venja er að lokinni fyrri umferð, svo lítill er munurinn á milli efstu frambjóðenda. Fjórir þeirra ellefu sem eru í framboði gætu komist áfram.
Í byrjun var það val frambjóðendanna sem var merkilegt. Þeir sem voru taldir öruggir um að hljóta útnefningu voru slegnir út (Sarkozy, Juppé, Valls, Montbourg). Svo dró forsetinn sig út úr baráttunni sem hefur aldrei gerst fyrr. Við þetta má bæta að Emmanuel Macron, fyrrverandi efnahagsráðherra sem er enn efstur í skoðanakönnunum hefur aldrei verið í framboði, hvorki til þings né forseta, var ráðherra í tvö ár og hefur engan flokk að baki sér. Marcon en einnig ungur fyrir frönsk stjórnmál, aðeins 39 ára en oft hafa stjórnmálamenn hér 30 ára þingmennsku að baki eins og François Fillon, frambjóðandi Repúblikanaflokksins til dæmis sem fór fyrst á þing 1981, ári eftir kjör Vigdísar Finnbogadóttur til forseta. Einhverjum kemur kannski orðið eftirlaun í huga. Hneykslismál Fillons vegna launa eiginkonu og barna sem og ýmis önnur óútskýrð mál, tengd gjöfum og fleiru, urðu til þess að hann hefur verið ákærður en þrjóskast við að draga sig í hlé. Hann hefur náð að neyða flokk sinn til að styðja sig á hverju sem dynur, ekki síst eftir útifundinn á Trocadero í París í byrjun mars sem var vel heppnaður vegna mikils stuðnings öfgakaþólikka úr „Sens commun“ sem þýðir mannleg skynsemi en þessi samtök vilja til dæmis minnka rétt á fóstureyðingum og banna samkynhneigðum að ættleiða börn maka sinna.
Yrði François Fillon forseti nyti hann verndar fyrir málsókn meðan á kjörtímabilinu stendur. Forsetafrúin væntanlega, sem einnig hefur verið ákærð, er aftur á móti aðeins venjulegur þegn og því gæti hún hugsanlega endað í fangelsi. Fillon hefur spilað meira undanfarna daga á velli Marine Le Pen þar sem að hann telur ólíklegt að hann geti unnið á miðjunni. Ef hann kæmist í aðra umferð veit hann að margir til vinstri myndu kjósa hann gegn Le Pen. Athyglisvert þó að Macron myndi vinna Fillon með mestum mun allra hugsanlegra mótherja myndu þeir mætast í annarri umferð með 68 á móti 32 prósentum. Stefna Fillons er harður Thatcherismi sem erfitt er fyrir hann að verja eftir að hafa verið sakaður um að misnota almannafé í þrjátíu ár. Hann boðar að stytta tímabil atvinnuleysisbóta, fækka opinberum starfsmönnum um 500.000 og lengja vinnutíma án þess að hækka laun.
Flokkakerfið í Frakklandi virðist vera að liðast í sundur. Sósíalistar styðja margir hverjir ekki frambjóðanda sinn, Benoît Hamon sem í fjögur ár hefur unnið á móti Hollande forseta og ríkisstjórn og telja hann allt of langt til vinstri og munu því kjósa Macron. Fylgi Hamon hefur farið úr fimmtán prósentum og er nú jafnvel undir átta prósentum og ljóst að flokkurinn klofnar eftir kosningar. Annars vegar í miðju sósíaldemókrata og svo vinstri arm. Þeir sem eru til vinstri í flokknum hafa verið að færast til Jean-Luc Melanchon eftir því sem fylgi Hamon minnkar. Melanchon er fyrrum sósíalisti en stofnaði sína eigin hreyfingu og nýtur stuðnings kommúnista. Hann hefur verið á hraðri uppleið í könnunum og er nú eins og Fillon, í um nítján prósentum og gæti því komist í aðra umferð. Melanchon er aðdáandi Hugo heitins Chavez í Venesúela en það hlýtur að vekja spurningar um hvað hann vill fyrir Frakkland ef litið er á ástandið þar. Hann vill einnig færa sig nær Pútín Rússlandsforseta og hefur meðal annars gagnrýnt einn af andstæðingum hans sem var myrtur í Moskvu fyrir nokkrum árum. Melanchon vill auka ýmis réttindi launafólks, til dæmis ráða atvinnulausa í vinnu hjá ríkinu, hann er mikill umhverfis- og dýraverndunarsinni, svo mikill að Birgitte Bardot hrósar honum. Svo vill Melanchon gjörbreyta Evrópusambandinu og ef það gengur ekki þá ganga út úr því.
Frambjóðandi öfga- hægriflokksins Þjóðarfylkingarinnar, Marine Le Pen, sem var komin upp í 28 prósent atkvæða í byrjun mars hefur hægt og rólega verið að tapa fylgi og er nú í um 22-23 prósentum en enn önnur í röðinni í könnunum. Le Pen hefur fátt nýtt fram að færa síðan 2012 og hefur smám saman verið að færa sig nær föður sínum í skoðunum sem hún er búin að vera að reyna fela árum saman til þess að kynna flokk sinn sem „venjulegan“ hægriflokk. Á dögunum hneykslaði hún marga þegar hún sagði Frakkland ekki bera ábyrgð á því þegar þúsundir gyðinga voru reknir úr húsum sínum árið 1942 á leikvanginn Vel´if áður en þeir voru fluttir í útrýmingabúðir. Það er því erfitt að kenna gömlum hundi að sitja. Grunur um að hún hafi misnotað fé frá Evrópuþinginu í þágu flokksins með því að setja starfsfólk hans á launaskrá í Brussel hefur haft áhrif. Frambjóðandi sem vill fara út úr Evrópusambandinu en misnotar fjármuni þess, notar þinghelgi sem afsökun til að neita að mæta til rannsóknardómara og kallar sig svo frambjóðanda „anti-system“. Svo segist Marine Le Pen vera að berjast fyrir verkamenn og láglaunafólk. Einnig gegn innflytjendum sem ræna frönsku þjóðina. Það þarf því ekki stórkostlega vitsmuni til þess að sjá í gegnum þetta. Kjósendur hennar eru einmitt, samkvæmt rannsóknum, þeir sem hafa minnsta menntun og búa við erfiðar aðstæður sem og atvinnuleysi og virðast ætla að kjósa milljónaerfingja og drottningu kerfismisnotkunar. Er einhver farinn að hugsa um Donald Trump?
Fyrrum efnahagsráðherrann, Emmanuel Macron, sem hefur náð að halda efsta sætinu í könnunum og ætti að eiga góða möguleika á að komast áfram, myndi vinna alla mögulega mótframbjóðendur. Hann hefur náð að spila inn á þema eins og atvinnusköpun og „start-up“ en einnig reynt á jákvæðan hátt á draga fram alla þá möguleika sem Frakkar hafa milli handanna, meðal annars með að einfalda kerfið og lækka skatta á frumkvöðla. Hann vill einnig að þeir sem taka áhættu og skapa fyrirtæki geti fengið atvinnuleysisbætur ef þeim mistekst, eins og aðrir sem missa vinnuna. Hann er eini frambjóðandinn sem ver Evrópusambandið en vill bæta það og telur það lykilinn að friði í álfunni og til að mæta samkeppni bæði frá Austri og Vestri.
Stóra spurningin er hins vegar hvað þriðjungur kjósenda, sem ekki hefur tekið afstöðu, geri á sunnudag, sem er einstakt og áður óþekkt í forsetakosningum hér. Yfirleitt eru línur farnar að skýrast tveimur dögum fyrir kosningar en í þetta skiptið virðist svo ekki vera. Önnur mikilvæg spurning er hver muni njóta atkvæða þeirra sem ákveða sig í kjörklefanum, sá sem hefur mest fylgi og er líklegastur til að koma í veg fyrir að Marine Le Pen geti orðið forseti. Eða munu Frakkar láta svartsýnina ráða og kjósa einhvern af þeim svartsýnu, Le Pen, Fillon eða Melanchon eða það sem er enn ótrúlegra, draumóramanninn Hamon sem sér allt í bleiku ljósi.
Á fimmtudagskvöld buðu svo hryðjuverk sér aftur í baráttuna með skotárás á Champ-Elysée-breiðgötunni, ein frægasta og fjölfarnasta gata í heimi, eitt af táknum Parísar. Lögreglumaður var skotinn sem og árásarmaðurinn. í byrjun vikunnar voru tveir menn handteknir í Marseille í íbúð þar sem fundust vopn og öflugt sprengiefni. Þeir voru að undirbúa árás. Frakkar standa þó uppréttir og gætu farið enn fleiri að kjósa sem svar við þessum árásum. Spurningin er hvort þeir muni halla sér að öryggishneigðum frambjóðendum eins og Le Pen og Fillon eða þeim sem vilja að Frakklandi ljómi af menningu og nýjum hugmyndum.