Ef Google Maps er tól til að skipuleggja ferðalög, þá er Google Earth tól til að kynnast áfangastaðnum.
Bandaríska hugbúnaðarfyrirtækið Google kynnti endurbætt veraldarforrit sitt á dögunum. Nýja forritið er töluvert öflugra en það sem fyrst var gefið út árið 2001 en um er að ræða níundu útgáfu stafræna hnattlíkansins.
Með nýja hnattlíkaninu má ferðast til helstu borga og ferðamannastaða á vesturlöndum og virða fyrir sér stræti og byggingar – eða heilu fjalldalina – í þrívídd.
Veröldin okkar sem speglast í þessu nýja hnattlíkani er furðulega skökk og sveigð til þess að hún passi inn í stafrænan heim Google. Og eftir því sem maður leiðist lengra frá fjölförnustu stöðum birtist veröldin flöt eins og búið sé að varpa gervitunglamynd á yfirborð sýndarveraldarinnar. Kannski af því að það er nákvæmlega það sem hefur gerst.
Upp úr miðborg Reykjavíkur rís þess vegna ekkert hús hærra en yfirborð Tjarnarinnar. Og Reykjavík er ekki eina flata höfuðborgin í sýndarveröldinni. Moskva hefur aldrei legið jafn flöt á Jörðinni og í líkani bandaríska tölvurisans.
Magnaðar nýjungar
Nýja hnattlíkanið frá Google býður þó upp á spennandi tól fyrir almenning til þess að fræðast um heiminn. Hægt er að lenda á áfangastöðum af handahófi og fræðast þannig um furðulega kima sem merktir hafa verið á kort Google.
Google bregður sér einnig hlutverk ferðaþjónustufyrirtækis í nýju uppfærslunni. Google Earth-teymið segist ætla að bæta við nýjum leiðsagnarferðum um heiminn í hverri viku.
Enn sem komið er þá virkar nýja Google Earth aðeins í Chrome-varanum í borð- og fartölvum og einungis Android-snjalltæki geta sótt sérstakt app. Kannaðu nýja Google Earh hér.