Áttundi og níundi áratugurinn voru gullöld myndasögunnar á Íslandi. Iðunn, Fjölvi og fleiri útgáfufyrirtæki punduðu úr fransk/belgískum myndasögum og persónur á borð við Tinna, Lukku-Láka og Sval og Val urðu órjúfanlegur þáttur af menningu okkar. Flestar þessara bóka voru unnar í samprenti með norrænum útgefendum.
Með tímanum hrundi myndasögusalan. Nýir miðlar tóku við og þótt þessi grein myndasöguheimsins lifði enn góðu lífi í Belgíu og Frakklandi var íslenski markaðurinn ekki svipur hjá sjón. Einstaka tilraun var gerð til endurútgáfu en útkoman varð einatt rýr. Það voru helst Tinnabækurnar sem helst reyndist markaður fyrir.
En svo breyttist allt. Gömlu myndasögurnar sem áður fengust á hrakvirði í Góða hirðinum urðu eftirsóttir safngripir, einkum fólks sem sá skrípó æskuáranna í nostalgískum ljóma. Og svo hófust endurútgáfurnar. Í Danmörku starfa nú um stundir nokkur bókaforlög sem sérhæfa sig í myndasöguútgáfu, en í stað þess að markhópurinn sé bara krakkar í leit að stundarafþreyingu eru kaupendurnir af breiðara aldursbili. Bækurnar eru því innbundnar, vandaðri í prentun og fylgir oft aukaefni.
Froskur útgáfa er hugverk fransks myndasöguhöfundar sem fluttist hingað til lands fyrir þremur áratugum, en ól ætíð þann draum að gefa út sínar eigin fransk/belgísku myndasögur. Sumar þeirra eru glænýjar, aðrar sígildar.
Fyrir nokkrum misserum hóf Froskur útgáfu á Sval & Val, annarri af tveimur mikilvægustu myndasöguflokkum Belgíu ásamt Tinna. Segja má að forlagið ráðist á bókaflokkinn úr báðum áttum. Tvær nýjustu sögurnar um ævintýri félaganna hafa komið út, en einnig bækur með allra elstu ævintýrunum, frá því að listamaðurinn Franquin tók við pennanum sem aðalhöfundur Svals laust eftir seinni heimsstyrjöldina. Á síðasta ári höfðu þrjár slíkar bækur litið dagsins ljós.
Nú í apríl (já, sérviska Frosks er slík að forlagið gefur út bækur allan ársins hring, en ekki bara fyrir jólin) kom svo út fjórða bókin frá þessu upphafsskeiði Franquins. Hún er þó í raun fyrst í röðinni, enda merkt sem nr. 1 og hefur að geyma allra elstu Svals og Vals-sögur listamannsins. Sögurnar heita Skriðdrekinn og Einingahúsið og eru einfalt ærslagrín, þar sem áherslan er frekar lögð á stuttar skrítlur en flóknari söguþráð – Franquin var lengur að þroskast sem höfundur en teiknari.
Sögurnar um Skriðdrekann og Einingahúsið eru óneitanlega byrjandaverk, en eru ómissandi fyrir allt áhugafólk um sögu fransk/belgísku myndasögunnar. Ekki spillir fyrir að í bókinni eru einnig stuttir sögukaflar um uppvaxtarár listamannsins, auk þriggja stuttra sagna (ein til fimm blaðsíður) sem prentaðar eru á sama formi og þegar þær birtust belgískum myndasagnablaðalesendum fyrst fyrir sjötíu árum. Drífið ykkur í næstu bókabúð sem fyrst. Verðþróun á Sval og Val síðustu árin sýnir að þetta er frábær fjárfestingarkostur!