Lauren Singer ákvað fyrir rúmlega fjórum árum að hefja ruslausan lífsstíl og koma öllu því rusli sem hún gat ekki losað sig við á umhverfisvænan hátt í krukku. Hún heldur úti vefsíðunni Trash is for tossers þar sem hún gefur fólki innsýn í rusllaust líf sitt, svarar spurningum og ráðleggur fólki sem vill taka þetta skref. Hún lifir eftir lífsspeki sem hún kallar „zero waste“ þar sem allt sem hún notar er endurnýtt á einhvern hátt.
Nema það sem hefur farið í krukkuna.
Í upphafi árs ákvað hún að róta aðeins í krukkunni sinni og telja upp þá hluti sem hafa fallið til og hún hefur ekki fundið nyt fyrir. Allt í krukkunni er úr plasti sem ekki er hægt að endurvinna í endurvinnslustöðvum í New York í Bandaríkjunum þar sem hún býr.
Singer hefur það að markmiði að allt sem lendir í fórum hennar veriði að vera endurvinnanlegt á einhvern hátt. Þeir hlutir sem hafa lent í krukkunni eiga það hins vegar sameiginlegt að vera eitthvað sem hún hefur fengið, þrátt fyrir að hafa beðið um annað.
Allt annað sem hún hefur eignast eða notað síðustu fjögur ár hefur ekki farið á ruslahaugana. „Allt sem ég nota rotnar og verður að mold, hægt að endurnýta óendanlega eða endurvinnanlegt að fullu,“ segir Singer.
Lærði umhverfisfræði
Singer nam umhverfisfræði í háskóla og hefur alltaf haft áhuga á náttúrunni og náttúruvernd. Hún segir að tvö augnablik í lífi hennar hafi ráðið því að hún ákvað að breyta um lífsstíl þar sem ekkert ætti að fara til spillis:
„Það fyrsta var á útskriftarárinu mínu í skólanum þegar kennarinn minn lagði áherslu á mikilvægi þess að lifa eftir eigin lífsgildum,“ segir hún á vef sínum. „Það fékk mig til þess að hugsa um mitt eigið vistspor.“
„Seinna augnablikið var þegar samnemandi minn kom með nesti í skólann alla daga; innbundið í plastpoka og vatn í nýrri plastflösku. Ég fylgdist með þessu og hugsaði við eigum að vera framtíð þessarar plánetu og hér erum við með ruslið okkar að rusla allt til.“
Singer segist síðar hafa heyrt af fjölskyldu í Kaliforníu sem lifði rusllausu lífi. „Þá ákvað ég fyrir alvöru að ég ætti ekki aðeins að segjast elska umhverfið, heldur lifa eftir þeirri staðreynd.“
Hægt er að lesa nánar um það hverju Lauren Singer hefur skipt út á heimili sínu til þess að forðast óþarfa úrgang á vefnum hennar.