Forseti Bandaríkjana, Donald J. Trump, átti símtal frá Hvíta húsinu út í himingeiminn við geimfarann Peggy Whitson á dögunum. Tilefni símtalsins var að óska Whitson til hamingju með að hún hafi slegið met Jeff Williams um fjölda daga í geimnum.
Enginn bandarískur geimfari hefur dvalið jafnmarga daga og hún í geimnum, þegar metið var slegið þann 24. apríl síðastliðinn hafði hún dvalið þar samtals í 534 daga.
Samkvæmt áætlunum bandarísku geimferðastofnunarinnar, NASA, mun Whitson snúa aftur til jarðar í september 2017 og þá mun hún hafa dvalið rúmlega 650 daga frá jörðu. Ef þær áætlanir standast verður hún í sjöunda sæti þeirra geimfara sem hafa dvalið lengst í geimnum á heimsvísu en metið á rússneski geimfarinn Gennady Padalka; hann hefur nú þegar dvalið 879 daga samtals frá jörðu.
Stefnan tekin á Mars
Whitson sagði forsetanum að þó það væri vissulega gaman að slá þetta met þá væri afrekið ekki aðeins hennar heldur einnig samstarfsmanna sinna hjá NASA, án þeirra hefði hún aldrei getað yfirgefið jörðina.
Hún sagði forsetanum að þær rannsóknir sem framkvæmdar eru í alþjóðlegu geimstöðinni séu mikilvægar fyrir tækniþróun í geimferðum. Áður en hægt er að leggja í langar geimferðir, til að mynda til Mars, þurfi að finna lausnir á ýmsum vandamálum.
Hún benti forsetanum á að í geimstöðinni sé allt vatn endurunnið og þvag geimfarana er meðal annars hreinsað og endurnýtt sem drykkjarvatn. Hún fullvissaði forsetann um að drykkjarvatnið væri alls ekki eins slæmt og það hljómaði, Trump svaraði því að hann væri feginn að það væri hún en ekki hann sem sæi um þetta.
Elst, lengst og oftast
Whitson sló fleiri met á á árinu. Þegar hún lagði af stað í yfirstandandi geimför varð hún elsta konan sem skotið hefur verið út í geim, en hún er 57 ára gömul.
Hún varð einnig elsta konan sem verið hefur í geimnum utan geimfars, þegar hún ásamt öðrum geimfara sinnti viðhaldi á alþjóðlegu geimstöðinni. Þetta var jafnframt áttunda skiptið sem Whitson hefur verið utan geimfars í geimnum og sló þar með met Sunita Williams um að vera sú kona sem oftast hefur verið utan geimfars.
Í þau átta skipti sem hún hefur verið utan geimfars í geimbúningi er samanlagður tími við þær aðstæður 53 klukkustundir og 22 mínútur og er það lengsti tími sem nokkur kona hefur afrekað og fimmti lengsti tími allra geimfara frá upphafi geimrannsókna.
Whitson varð einnig fyrsta konan til að stýra alþjóðlegu geimstöðinni, og varð sú fyrsta til að gera það í tvígang fyrr á þessu ári.