Nýr hlaðvarpsþáttur, Klikkið, hefur göngu sína í Hlaðvarpi Kjarnans um þessar mundir. Þátturinn mun birtast reglulega í hlaðvarpsstraumi Kjarnans í sumar. Notendur samtakanna Hugarafls hafa umsjón með þættinum.
Hugarafl er vettvangur fyrir notendur geðheilbrigðiskerfisins og fagfólk til þess að koma saman á jafningjagrundvelli og vinna í bataferli með sjónarmið valdeflingar að leiðarljósi.
Í Klikkinu er skjólstæðingum Hugarafls gefið tækifæri til þess að deila reynsluheimi sínum og skoðunum. Við að koma þáttunum á fót naut Hugarafl aðstoðar nemenda í meistaranámi í verkefnastjórnun (MPM) við Háskólann í Reykjavík, en liður í öðru misseri námsins er að nemendahópar vinna raunhæft verkefni að eigin vali í þágu samfélagsmálefna.
Klikkið verður þannig liður í fræðslu- og kynningarstarfi Hugarafls. Markmiðið þáttagerðarinnar er samhljóða markmiðum samtakanna en það er að vera sýnileg í gegnum alls konar verkefni og opinni þátttöku í samfélagsumræðu í því skyni að draga úr fordómum, stuðla að aukinni þekkingu um bata og bataferli, efla samstarf notenda og fagfólks og stuðla að breidd í þjónustu við fólk með geðraskanir og auknum mannréttindum þeirra. Hugarafl hefur farið mjög vaxandi á undanförnum misserum og hefur fjölgun félagsmanna verið mest í yngsta aldursflokknum.
Í fyrsta þættinum er fjallað um batann og spurt: Hvað er bati? Hvað tekur við? Einnig er rýnt í bataferlið sjálft og spjallað um bata, lífið, geðveiki og allt þar á milli.
Þáttinn má heyra í spilaranum hér að neðan: