Kannabis hefur lengi verið bitbein í samfélaginu, ekki bara íslensku samfélagi heldur um allan heim, þar sem margir halda því fram að efnið sé hægt að nota sem lyf við ákveðnum sjúkdómum. Þrátt fyrir möguleika kannabis til lækninga er erfitt að líta fram hjá þeirri staðreynd að kannabis hefur lengi vel og er enn notað sem vímugjafi, sem þýðir að efnið veldur eitrunaráhrifum í líkamanum.
Rannsóknir á þessu sviði hafa því oft reynst torveldar, raunar einungis á þeim forsendum að efnið er umdeilt. Með tímanum hafa vísindahópar þó fengið aukið brautargengi til að skoða hvort og þá hvernig kannabis getur haft áhrif. Ein slík rannsókn var birt í The New England Journal of Medicine í maí, síðastliðnum.
Í rannsókninni voru 120 sjálfboðaliðar á aldrinum 2-18 ára fengnir til að prófa cannabidiol, eitt af innihaldsefnum kannabis, sem meðferð við flogaveiki. Hópnum var skipt tilviljanakennt í tvennt, annars vegar lyfleysuhóp og hins var hóp sem fékk cannabidiol. Hvorki rannsakendur né þátttakendur vissu á meðan á rannsókninni stóð hvaða einstaklingar tilheyrðu hvaða hóp.
Eftir 14 vikna meðferð hafði flogum í meðferðarhópnum fækkað, að meðaltali, um helming, úr 12,4 í 5,9 flog á mánuði. Slíka minnkun var þó ekki að sjá í samanburðarhópnum, þar sem flogunum fækkaði úr 14,9 í 14,1 flog á mánuði. Fimm prósent þeirra þátttakenda sem fengu cannabidiol upplifðu engin flog eftir að hafa byrjað á lyfjunum, slík tilfelli voru ekki til staðar í lyfleysuhópnum.
Þrátt fyrir þessar jákvæðu niðurstöður verður ekki hjá því komist að nefna miður leiðinlegar aukaverkanir sem lyfin höfðu. Margir í meðferðarhópnum upplifðu ógleði, svima, þreytu og niðurgangur, sumir fengu svo alvarlegar aukaverkanir að þau urðu að draga sig út úr rannsókninni. Tíðni aukaverkananna og alvarleiki þeirra í sumum tilfellum sýnir að frekari rannsókna er þörf til að skilgreina skammtastærðir og samverkandi þætti við önnur lyf.
Í dag er kannabis ekki flokkað sem lyf, þó að sums staðar sé það leyft til slíkra nota, þá er framleiðslan á því ekki undir sama eftirliti og önnur lyfjaframleiðsla. Það þýðir að þeir sem nota kannabis sem lyf geta ekki vitað með vissu undir hvaða kringumstæðum það er framleitt, hver skammtastærðin af virka efninu er og svo framvegis.
Frekari rannsóknir þurfa því að fara fram til að skilgreina nákvæmlega hvaða virku efni það eru í kannabis sem virka gegn hvaða sjúkdómum. Í framhaldi af því er svo vonandi hægt að setja framleiðslu á þeim efnum undir sama hatt og aðra lyfjaframleiðslu þar sem gæðastýringin gerir það að verkum að neytandinn tekur litla sem enga áhættu þegar lyfjanna er neytt.