Maryam Mizakhani, prófessor í stærðfræði við Stanford háskóla, lést á laugardaginn, aðeins fertug að aldri. Hún lætur eftir sig eiginmann og dóttur. Banameinið var brjóstakrabbamein.
Mizakhani er kannski ekki heimsfræg, nema þá helst innan stærðfræði- og fræðaheimsins, en að margra mati var hún með allra mestu hugsuðum samtímans. Orðið snillingur er líklega ofnotað, en þegar hún á í hlut - og einstök afrekaskrá hennar innan stærðfræðinnar - þá er henni best lýst sem snillingi.
Þegar hún var 31 árs gömul var hún orðin prófessor við Stanford, og segir í tilkynningu frá skólanum, vegna andláts hennar, að vinna hennar hafi verið áhrifamikil og að hún muni aldrei gleymast.
Samstarfsmenn hennar lýsa henni sem „óttalausum“ stærðfræðingi sem þorði að nálgast djúp og flókin viðfangsefni af sjálfsöryggi, einfaldlega vegna þess að hún gat leyst þau, ólíkt flestum öðrum. „Þu verður að eyða orku og leggja mikið á þig til að sjá fegurðina við stærðfræðina,“ sagði Mizakhani í viðtali.
Mizakhani er fædd í Íran og lauk BS prófi frá Sharif University í höfuðborginni Teheran, áður en hún fór til framhaldssnáms við Harvard háskóla. Þar vakti hún fljótt athygli fyrir skarpar og „erfiðar“ spurningar til prófessora sem ekki allir skildu, vegna tungumálaörðugleika, þar sem enska var ekki hennar móðurmál. Fljótt kom í ljós að Mizakhani stóð öllum framar og er lokaritgerð hennar frá Harvard, þar sem hún lauk doktorsprófi 2004, sögð „meistaraverk“. Í henni leysti hún áður óleyst vandamál innan stærðfræðinnar, og tengdi lausnir auk þess saman með nýjum hætti, að því er segir í tilkynningu frá Stanford háskóla.
Eftir að námi lauk réð hún sig sem aðstoðarprófessor við Princeton en fór svo þaðan til Stanford háskóla, þar sem hún stundaði rannsóknir og sinnti kennslu. Hún þótti afburða kennari og var auk þess þægileg í umgengni og full af jákvæðri orku.
Ralph L. Cohen, prófessor við Stanford háskóla og samstarfsmaður Mizakhani, segir hana hafa verið einstakan samstarfsmann. Hún hafi verið framúrskarandi og óttalaus rannsakandi, sem hafi haft einstakt lag á fagi sínu. Þá hafi snilligáfa hennar verið einstök að því leyti, að hún hafi verið jafnvíg þegar kæmi að því að greina vandamál innan stærðfræðinnar, og síðan að leysa þau.
Oft sé sérhæfingin hjá stærðfræðingum einungis bundin við tiltekin þröng svið innan stærðfræðinnar, en þannig hafi það ekki verið hjá Mizakhani, eða Maryam eins og hún var oftast kölluð.
Mizkhani er eina konan í sögunni sem hlotið hefur Fields verðlaunin í stærðfræði, en þau fékk hún árið 2014, tæpu ári eftir að hún var greind með brjóstakrabbamein. Fields verðlaunin eru virtustu verðlaun sem veitt eru fyrir framlag til stærðfræðinnar og voru þau fyrst veitt árið 1936.
Þegar hún tók við verðlaunum sínum sagðist hún vona að þau væru hvetjandi fyrir aðra, ekki síst konur í heimi vísinda. Stanford háskóli ætlar að halda minningarstund um hana þegar nemendur og kennarar koma saman í haust, þegar nýtt skólaár hefst formlega.