Útlit er fyrir að gamalgrónar hefðir verði rofnar í tvígang í vikunni framundan þegar valdaskipti verða á aðalþingi kínverska Kommúnistaflokksins í Peking. Þingið er haldið á fimm ára fresti og hætta þá leiðtogar sem komnir eru á aldur og yngri flokksgæðingar taka við. Ef ákveðin mannaskipti verða ekki að veruleika mun óvissa í kínverskum stjórnmálum aukast og stjórnámálaskýrendur greina afturhvarf til áratuga embættis setu aðalmannsins í flokknum líkt og tíðkaðist á tímum Maós formanns.
Fyrir þingið er mesta spennan um það hverjir verma hvaða sæti í fastanefnd miðstjórnar flokksins. Miðstjórnin telur um 200 flokksmenn en einungis 7 sitja í fastanefndinni. Þessir 7 sjá um æðstu yfirstjórn ríkisins. Lesa má framtíð kínverskra stjórnmála næstu 15-20 árin út frá því hverjir eru inni og hverjir úti. Áður hefur einföldum aldursreglum verið beytt við val í nefndina en nú sér fram á meiri háttar breytingar.
Stóru breytingarnar tvær
Önnur breytingin hefur að gera með aldurstakmark þeirra sem sitja í fastanefndinni. Skömmu eftir að Maó dó, tók Deng Xiaoping við sem helsti leiðtogi Kína og hafði frumkvæði að ótrúlegri efnahagsuppbyggingu landsins fram á okkar tíma. Óskrifaðar reglur sem kenndar eru við hann kváðu á um að embættismenn sem væru 67 eða yngri gætu hlotið ný fimm ára skipunartímabil en þeir sem væru 68 eða eldri yrðu að hætta (reglan er kölluð 67 upp, 68 niður). Nú þykir líklegt að í það minnsta einn eldri maður í fastanefndinni fái að halda sæti sínu eftir flokksþingið. Það er hann Wang Qishan, 69 ára agameistari flokksins, sem leitt hefur herferð gegn spillingu í flokknum og þykir sérlega hliðhollur Xi Jinping forseta í þeim störfum.
Hin breytingin hefur að gera með val á framtíðararftaka Xi Jinpings forseta. Samkvæmt stjórnarskránni þarf hann að hætta sem forseti ríkisins eftir tvö kjörtímabil en hann getur haldið áfram sem aðalflokksritari lengur og í Kína er að flokkurinn sem ræður. Sú hefð hefur verið að einn eða tveir ungir og efnilegir fulltrúar flokksins koma í fastanefndina á sama tíma og nýr forseti eða eftir fyrra af hans tveimur fimm ára skipunartímabilum. Þessir arftakar þurfa að vera yngri en 57 þannig að þeir séu ekki orðnir of gamlir (rúmlega sextugir) þegar forseti og forsætisráðherra hætta og nýjir taka við. Bæði Hu Jintao forseti sem tók við völdum 2002 og Xi Jinping forseti og Li Keqiang forsætisráðherra sem skipaðir voru 2012 öðluðust sína dýrmætustu reynslu á þennan hátt.
Sjanghæ-klíkan og Ungliðahreyfingin
Þeir Xi Jinping og Li Keqiang tilheyra tveimur öflugustu klíkunum í kínverska Kommúnistaflokknum. Xi forseti og Jiang Zemin fyrrverandi forseti eiga það sameiginlegt að hafa verið aðalflokksritarar í Sjanghæ og eiga þar sterkt bakland og tengslanet. Þeir tilheyra Sjanghæ-klíkunni.
Li forsætisráðherra og Hu Jintao fyrrverandi forseti voru í ungliðahreyfingu flokksins og klíkan þeirra er kennd við hana. Sú síðarnefnda hefur undanfarið fallið í skuggann á þeirri fyrrnefndu.
Nú eru líkur á því að Xi Jinping muni einfaldlega sleppa því að skipa ungan og efnilegan flokksgæðing sem arftaka. Helsta ástæðan sem nefnd hefur verið er sú að Xi vilji standa vörð um völd sín og halda áfram sem formlegur leiðtogi flokksins lengur en í tíu ár. Einnig hefur verið gefið til kynna að hann vilji hleypa lífi í kappreiðarnar um æðstu embættin.
Ákvarðanir Deng Xiaoping í gröfinni
Áhugavert er að Deng Xiaoping tókst í sína tíð að útnefna framtíðar leiðtoga Kína áður en hann dó árið 1997. Efnilegur flokksmaður, Hu Jintao, úr Ungliðahreyfingunni var skipaður í fastanefnd árið 1992 og tók við sem forseti árið 2002. Voru það fyrstu friðsamlegu leiðtogaskiptin í Kína á tímum kommúnista.
Nú, fimmtán árum síðar, eru fimm af sjö meðlimum fastanefndarinnar komnir á aldur og ættu, venju samkvæmt, að stíga til hliðar í vikunni. Aðdragandinn að aðalflokksþinginu í Peking fer fram á bak við tjöldin og lítið er vitað um hverjir hætta og hverjir bætast við þar til tíðinda dregur.
Kjarnaleiðtogi
Orðrómur um tvær áðurnefndar breytingar endurspegla sterka stöðu Xi Jinpings forseta. Í fyrra var hugtakið kjarnaleiðtogi notað um hann opinberlega og var það í fyrsta skipti eftir stjórnarkreppuna í kjölfar mótmælanna á Torgi hins himneska friðar árið 1989. Þá notaði Deng Xiaoping sama hugtak til að byggja upp einstaklingsbundinn stuðning við nýjan leiðtoga, Jiang Zemin, án þess þó að skilja hann frá öðrum meðlimum fastanefndarinnar með formlegum flokkstitli.
Forveri Xi Jinpings í forsetastóli, Hu Jintao, var aldrei kallaður kjarnaleiðtogi og tókst aldrei að tryggja sér nógu sterkt bakland og smala sínum mönnum í æðstu stöður líkt og Xi Jinping er nú að gera. Enn fremur reynir áróðursvél flokksins að hífa Xi Jinping upp á sama stall í hugmyndafræðilegu samhengi og Maó formaður og Deng Xioping.
Pappírstígrar og drekar
Áframhaldandi valdaseta agameistarans Wang Qishan er bæði orsök og afleiðing aukins vægis Xi Jinpings forseta. Wang Qishan hefur leitt baráttuna gegn spillingu embættismanna og ráðist gegn bæði pappírstígrisdýrum (lægra settum) og drekum (hærra settum). Allt í allt er talið að yfir 100 embættismenn með tign jafngilda eða hærri en vara-ráðherra eða vara-héraðsstjóri hafi verið ákærðir. 250 hátt settir embættismenn hafa misst æruna og 1.4 miljón flokksmanna verið ákærðir eða áminntir.
Áhugaverðustu dæmin um hausana sem fengið hafa að fjúka eru m.a. tilfelli Zhou Yongkang, fyrrverandi forstóra Petrochina, kínverska olíurisans, og æðsta yfirmann öryggismála í landinu. Hann var í fastanefnd miðstjórnarinnar á sama tíma og Xi Jinping forseti. Hann var rekinn úr flokknum fyrir margar sakir, m.a. fjárdrátt og lauslæti. Fyrrverandi viðskiptaráðherra Kína, Bo Xilai, var rekinn úr embætti aðalflokksritara í Chongqing eftir morð eiginkonu hans á breskum kaupsýslumanni, Neil Heywood. Það var lygileg atburðarás þar sem m.a. yfirlögreglustjórinn í héraðinu flúði í bandaríska ræðisskrifstofu í næstu stórborg eftir æsilegan bílaeltingaleik. Nú nýlega hurfu tveir af virtustu herforingum Frelsishers alþýðunnar, þeir Fang Fenghui og Zhang Yang, af sjónarsviðinu.
Í ljósi bráðlegra leiðtogaskipta var brottvikning Sun Zhengcai, aðalflokksritara í Chongqing héraði, úr flokknum sérlega eftirtektarverð þar sem hann var álitinn næsti forsætisráðherra og yrði þá næst valdamestur í landinu á eftir forseta. Sun Zhengcai var rekinn fyrir að brjóta gegn hugsjónum flokksins, sjálftekju og leti í starfi. Mál hans verður tekið fyrir dómstóla sem í Kína þýðir að yfirgnæfandi líkur eru á lífstíðarfangelsi. Sun Zhengcai var hliðhollur Hu Jintao, fyrrverandi forseta. Með fráhvarfi hans losnaði núverandi forseti við efnilegan kálf úr Ungliðahreyfingar-klíkunni.
Bandamenn og arftakar
Í kjölfar þessara höfðingjavíga er staða forsetans enn öruggari en forvera hans við sömu tímamót. Öruggt er að hann fái nýtt fimm ára skipunartímabil á aðalflokksþinginu. Almannarómur í Peking hermir að staða hans sé svo sterk að ekki verði framtíðararftakar tilnefndir í fastanefndina heldur einungis nánir bandamenn forsetans. Hér á eftir verður bakgrunni nokkurra þeirra lýst en hann varpar ljósi á þyrnum stráða vegferð þeirra til metorða. Aldur þeirra er eftirtektarverður þar sem hefðir um aldurstakmark verða e.t.v. rofnar. Gróflega er reglan sú að þeir sem komast í fastanefndina og eru yngri en 58 eiga séns á því að verða forseti eða forsætisráðherra.
Li Zhanshu (67) er framkvæmdastjóri kínverska Kommúnistaflokksins og var áður aðalfokksritari í Guizhou og Xi’an héruðum. Hann þykir njóta sérstaks trausts Xi Jinping og ferðast oft erlendis með forsetanum. Athygli vakti þegar hann fór sem sérstakur sendiboði forsetans til funda við Vladimir Pútín í Moskvu. Li var fyrstur miðstjórnarmanna til að nota hugtakið kjarnaleiðtogi um Xi Jinping.
Cai Qi (61) starfaði með Xi Jinping á 17 ára löngum og mikilvægum starfsárum forsetans í suðræna strandhéraðinu Fujian, miklu verslunarsvæði meginlandsmegin við Tævan-sund. Xi Jinping var aðalflokksritari þar í héraðinu á árunum 2002 til 2007. Cai Qi hefur risið hratt upp metorðastigann eftir að Xi varð forseti og var skipaður aðalflokksritari í höfuðborginni Peking s.l. maí. Titillinn aðalflokksritari í héraði eða nokkrum stærstu risaborgum Kína er hæsta svæðisbundna staðan sem flokksmaður getur hlotið. Það að gegna henni í Peking getur varla verið áhrifameira. Cai er upprunalega frá Fujian héraði.
Chen Min’er (56) var aðalflokksritari í fátækasta og afskekktasta héraði Kína, Guizhou, og þótti standa sig vel við efnahagslega uppbyggingu. Í júlí var hann skipaður aðalflokksritari í einni af risaborgunum, Chongqing, þeirri sömu og hvar áðurnefndir Bo Xilai og Sun Zhengcai féllu í ónáð. Chen er upprunalega frá Zhejiang, næsta héraði norðan við Fujian, þar sem Xi Jinping var líka aðalflokkssritari. Chen Min’er var áróðursstjóri hans í Zhejiang. Hann þykir vera kandídat í fastanefnd miðstjórnarinnar og ef aldursreglur verða virtar þá passar hann ágætlega sem næsti maður í forsetastólinn eftir næsta fimm ára tilskipunartímabil.
Chen Quanguo (61) er hörkutólið í hópnum en hann var áður leiðtogi í Tíbet og nú í Xinjiang en í báðum héruðum gætir mikillar ólgu meðal stórra minnihlutahópa, Tíbet-Búddista í fyrra héraðinu og Uygur-múslima í því síðara. Hann þykir hafa staðið sig vel í að stjórna þessum afskekktu landsvæðum. Ekki þarf að spyrja hvort stjórna með harðri hendi þar sé honum til framdráttar. Chen hefur aldrei unnið beint með Xi Jinping.
Li Xi (60) er aðalflokksritari í Liaoning, þungaiðnaðarhéraði í norð-austur hluta Kína skammt frá Kóreuskaganum. Hann vann áður í Shaanxi héraði, á heimaslóðum fjölskyldu Xi Jinping.
Samantektir erlendu blaðanna á hugsanlegum kandídötum í efstu stöður kínverskrar stjórnmála nefna allt frá fimm og upp í fimmtán nöfn. Við ofangreindan lista má bæta helstum við þeim Ding Xueqiang (55) sem er e.k. aðstoðarmaður Xi Jinping og vann með honum þegar hann var aðalritari í Sjanghæ um skamma hríð og He Lifeng (62) sem er stjórnarformaður Þróunar- og Endurbótaráðs (e.k. súper-efnahagsstefnustofnunar Kína).
Foringinn ræður
Stóra spurningin eftir þingið verður sú hvort í fastanefndinni verði einvörðungu bandamenn Xi Jinpings forseta í eldri kantinum og enginn augljós arftaki blasi við. Einnig verður spennandi að sjá hvort Li Keqiang haldi áfram sem forsætisráðherra eða verði lækkaður í tign. Ef Xi Jinping bolar honum, valdamesta manni númer 2, út yrði lítið eftir af Ungliðahreyfingunni og bandamönnum þeirra í efsta lagi kínverskra stjórnmála. Það yrðu stórfréttir. Kínverskum jafnt sem erlendum fréttaskýrendum, og jafnvel tveimur eftirlifandi forsetum Kína, yrði brugðið. Þeim fyrrnefndu verulega en þeim tveim síðarnefndu óverulega.