Í frábærri bók fjárfestisins Paul Allen - The Idea Man - sem kom út árið 2011, er rakin saga frumkvöðuls sem átti stóran þátt í því að heimilistölvan varð útbreidd um allan heim og að lokum staðalbúnaður á öllum heimilum.
Hann stofnaði Microsoft ásamt Bill Gates 1975, þá 22 ára, en fór úr stjórnandahlutverki hjá fyrirtækinu átta árum síðar, og varð fyrst og síðast sjálfstæður fjárfestir og frumkvöðull, en áfram í hluthafahópnum. Hann er líkt og Bill búsettur á Seattle svæðinu og eyðir peningum og orku ekki síst innan Washington ríkis.
Saga hans er ekki aðeins merkileg vegna góðs árangurs í viðskiptum, heldur ekki síður vegna þess að hann hefur samtvinnað samfélagslegan áhuga sinn við fjárfestingarnar.
Started up @Stratolaunch's six 747 engines for the first time this past weekend!
— Paul Allen (@PaulGAllen) September 19, 2017
Read more: https://t.co/kuYH7YgJYG pic.twitter.com/CM2E2r9TsG
Miklar eignir
Hann hefur þessa fífldirfsku sem stórhuga fjárfestar þurfa að búa yfir og einnig örugga og óvenju skarpa langtímasýn á verkefni.
Í bókinni fjallar hann um sögu sína og feril, og lýsir á áhugaverðan hátt hvernig hann hefur hrint stefnu sinni í framkvæmd í hinar ýmsu fjárfestingum.
Hann er einn af 50 ríkustu mönnum heims, með eignir upp á 22 milljarða Bandaríkjadala, eða sem nemur um 2.300 milljarða króna. Það eru þó aðeins eignir sem Forbes hefur treyst sér til að verðleggja til fulls, en mikið af eignum hans liggur í óskráðum sjóðum, sem erfitt er að verðleggja. Í Seattle Times hefur því verið haldið fram að eignir Allens séu í það minnsta tvölfalt meiri en gefið hefur verið upp á lista Forbes.
Íslendingar muna kannski eftir snekkju hans, The Octopus, sem siglt var meðfram Íslandsströndum sumarið 2015 þegar hún var notuð við rannsóknarstörf.
Allen hefur einblínt á það allan sinn feril að elta það sem hann kallar góðar hugmyndir. Hljómar einfalt, en að baki þessi liggur dýpri speki.
Stundum virka þær fjarlægar, en í huga hans hafa góðar hugmyndir það einkenni að vandamálin sem er verið að glíma við eru margslungin og óvenjulega flókin, og leiða til grundvallarbreytinga ef það finnst á þeim lausn.
Og það er þessi lausnaleit sem er hans rauði þráður, eins konar leiðarljós.
Fjárfestingar hans í lyfjaþróun og læknisrannsóknum byggja ekki síst á þessu, en hann hefur stutt dyggilega við bakið á rannsóknarstarfi, ekki síst á sviði krabbameinsrannsókna og rannsókna á Alzheimer-sjúkdómnum. Sjálfur hefur hann í þrígang greinst með krabbamein, en náð bata. Fyrst 1982, síðan 1997 og svo 2009.
Þessi veikindasaga hans hefur eflt áhuga hans á heilbrigðismálum, að því er hann segir í bók sinni.
Allen segist trúa því að það sé hægt að finna lækningu við Alzheimer sjúkdómnum, og hefur fjárfest fyrir meira en 500 milljónir Bandaríkjadala, um 55 milljarða króna, í rannsóknum á sjúkdómnum í gegnum hina ýmsu sjóði og nýsköpunarfyrirtæki. Enginn hefur lagt meiri fjármuni í þessa vinnu en hann, og áhuga hans má rekja til baráttu móður hans við sjúkdóminn.
Sjálfur hefur hann sagt að hann búist við miklum framförum á næstu árum, og var styrkur nú nýverið úr fjölskyldusjóði hans, Paul G. Allen Family Foundation, upp á 7 milljónir Bandaríkjadala, eða um 800 milljónir króna, liður í aukinni sókn í þessari vinnu. Styrkurinn fór til fimm rannsóknarteyma sem eru að þróa lyf sem tengjast heilasjúkdómum.
Trúir á gott umhverfi
Það er kannski langsótt að tengja Allen, og feril hans, við litla Ísland og það sem það hefur upp á að bjóða, en þó ekki að öllu leyti. Hann er persónulegur vinur Haraldar Sigurðssonar, jarðfræðiprófessors, sem hefur byggt upp hið metnaðarfulla og skemmtilega Eldfjallasafn í heimabæ sínum Stykkishólmi.
Eitt af því sem Allen segir að sé grunnurinn að öllum tækninýjungum er samstarf hins opinbera og frumkvöðla. Hann segir að lausnir á stórum vandamálum séu aldrei leiddar fram af einhverjum einum aðila, heldur séu þær yfirleitt með áratuga „meðgöngu“.
Ekki aðeins með því að leiða saman fjármagn við spennandi verkefni, heldur líka að hjálpast að við að skapa gott umhverfi fyrir vöxt og tækniframfarir.
Allen trúir því að þetta að sé afar mikilvægt nú á tímum, og hafa fjárfestingar hans í flug- og geimvísindum - þar sem hann hefur meðal annars fjármagnað þróun á byltingarkenndum eldsneytisskiptibúnaði í lofti - byggt meðal annars á þessu. Nú síðast kom fram ein stærsta flugvél heimsins frá nýsköpunarfyrirtæki hans Stratolaunch, en það fyrirtæki var stofnað 2011 og vinnur að því að gera geimferðir þægilegri og áreiðanlegri, til framtíðar litið.
Í góðu ákjósanlegu umhverfi leggja opinberar stofnanir og rannsakendur fram mikilvæga vinnu sína - sem oft hefur verið knúin áfram í gegnum háskólastarf - og á þessu geta síðan frumkvöðlar og fjárfestar byggt. Allen telur að ganga þurfi mun lengra í samstarfi menntastofnanna og frumkvöðla, meðal annars með því að opna rannsóknir meira fyrir fjárfestingu á fyrri stigum.
Á heildina litið geti þetta leitt til góðra fjárfestingatækifæra sem síðan flýta tækniframförum.
Mikil áhrif á nærsamfélagið
Í verki hefur hann gert þetta á sínu heimasvæði, sem er Seattle svæðið. Hann hefur fjárfest að miklu leyti sínum fjármunum á svæðinu, og á til að mynda landssvæði undir höfuðstöðvum Amazon og starfsstöðum Oracle og Facebook í miðborg Seattle.
Fjárfestingarnar dreifast líka á nýsköpunarverkefni innan háskóla og utan, menningu, fasteignaverkefni, íþróttir (hann á bæði NBA liðið Portland Trailblazers og NFL liðið Seattle Seahawks), heilbrigðisrannsóknir og raunar ýmislegt fleira. Hann er þekktur safnari og hefur gefið Seattle borg 12 bókasöfn og hið metnaðarfulla Experience Music Project, samtímatónlistarsafn. Það var opnað árið 2000 og bera mikil merki arkitektúr Franks Gehry.
Allen er dæmi um mann sem hefur óvenju mikla stefnufestu þegar kemur að nýsköpunarfjárfestingum. Hann hefur átt mikinn þátt í ótrúlegum uppgangstímum á Seattle svæðinu undanfarna þrjá áratugi, líkt og fleiri frumkvöðlar sem hafa valið að byggja fyrirtæki sín upp á svæðinu.
Góðar hugmyndir eins og hann sér þær, hafa langan framkvæmdatíma, kalla á flókið samstarf margra - bæði hins opinbera og einkafjárfesta - og hafa samfélagslegt mikilvægi sem leiðarljós.