Mænusótt (lömunarveiki) er veirusjúkdómur sem polioveiran veldur. Þó sýkingin lýsi sér í flestum tilfellum sem flensa lendir 1 af hverjum 1000 sem smitast af veirunni í því að veiran leggst á taugakerfið og getur hún valdið lömun.
Fyrir tæpum tveimur árum voru jákvæð teikn á lofti um að veiran heyrði brátt sögunni til, þökk sé góðum árangri bólusetninga. Hér á Íslandi hefur ekki komið upp tilfellu mænusóttar í háa herrans tíð, enda er bólusetning gegn veirunni ókeypis fyrir ungbörn.
Því miður ætlar það að reynast þrautin þyngri að losna alfarið við þennan vágest. En í síðustu viku bárust okkur sorglegar fréttir, þegar fyrsta mænusóttartilfellið síðan 1989 greindist í Delta Amacuro, einu af 23 ríkjum Venesúela.
Þó hér sé aðeins um eitt tilfelli að ræða þá er staðsetning þess ógnvekjandi. Hingað til hafa mænusóttartilfelli, þó fá séu, helst verið að greinast í tveimur löndum, Pakistan og Afganistan en þar hefur bólusetningum einmitt verið ábótavant.
Nú er svo komið að Venesúela er að komast í sama hóp og ofantalin lönd hvað varðar bólusetningartíðni. Í Delta Amacuro héraði hefur bólusetningartíðni dottið niður í 67% og samhliða því hefur tilfellum mislinga, berkla og fleiri sýkinga fjölgað.
Ástæðan er því miður, eins og svo oft áður, fjárskortur. Venesúela hefur verið að ganga í gegnum skarpa niðursveiflu í efnahagsmálum og hefur fyrirbyggjandi heilbrigðisþjónusta beðið heilmikla hnekki af því. Ungbarnabólusetningar eru nú af skornari skammti en áður og afleiðingar eftir því.
Þó hér sé um einstaklega sorgleg tíðindi að ræða vonum við að þetta verði til þess að opna augu stjórnvalda fyrir því hversu mikil hætta er fyrir höndum. Þegar upp er staðið sparast litlar fjárhæðir með því að skerða grunnheilbrigðisþjónustu og allra síst með því að skerða fyrirbyggjandi aðgerðir gegn sjúkdómum.
Fréttin birtist fyrst á Hvatanum.