Bókin Factfulness: Ten Reasons We're Wrong About the World – and Why Things Are Better Than You Think (2018) eftir Hans Rosling heitinn kom út í vor.
Rosling var sænskur læknir sem er minnst fyrir byltingakenndar og innblásnar greiningar og myndræna framsetningu á margvíslegri tölfræði.
Rosling var hugsjónamaður og bókin er „hinsta orrustan í ævilangri baráttu minni gegn eyðileggjandi afli hnattrænnar fáfræði“ (bls 15). Vopn hans er staðreyndasemi: „Hin stress-minnkandi venja að tileinka sér að hafa einungis þær skoðanir sem hægt að að rökstyðja með áreiðanlegum staðreyndum.“
Í baráttu sinni við hnattræna fáfræði ferðaðist Rosling víða um heiminn og hélt fyrirlestra. Honum fannst einkar svekkjandi að sama hverjir áhorfendur hans voru þá sýndu þeir rótgróna fordóma um stöðu heimsins – jafnvel vel menntað og gáfað fólk virðist hafa óraunsæja neikvæða mynd af þeim framförum sem hafa orðið á lífsgæðum mannkyns sem og í hvað stefnir.
Rosling kennir okkur mikilvægi þess að safna áreiðanlegum gögnum um viðfangsefni sitt. Hann safnaði sjálfur gögnum um áhorfendur sína með því að leggja fyrir þá spurningakannanir. Ein af spurningunum er um dreifingu mannkyns eftir heimsálfum. Á myndunum táknar hver fígúra milljarð manns. Hversu margir búa í hverri heimsálfu? 70% þeirra sem Rosling lagði þessa spurningu fyrir svöruðu vitlaust.
Rétta svarið er B. Rosling hefur gott lag á að koma flóknum upplýsingum til skila með einföldum hætti. Hann kallar þetta pin-kóða heimsins 1-1-1-4 (bls 136-8). Það er merkilegt sem hann bendir á í bókinni, að meirihluti fólks skuli ekki vita að meirihluti mannkyns býr í Asíu (hér eru fleiri spurningar úr bókinni).
Á tímum Trumps og almennrar afturfarar til þjóðernishyggju er mikil nauðsyn á fólki eins og Rosling sem stuðla að raunverulega upplýstri vitund um stöðu heimsins. Rosling hvetur okkur til þess að taka yfirvegaðar og upplýstar ákvarðanir byggðar á gögnum.
Þróunarlönd eða hin fjögur stig
Rosling hefur áhyggjur af því að heimsmynd fólks sé of tvískipt og vill hætta að nota hin tvískiptu hugtök þróunarlönd og þróuð lönd. Viðtekinn mælikvarði á það hvað teljist þróunarland er annað hvort að nota þjóðarframleiðslu á mann eða vísitölu S.Þ. um þróun lífsgæða. Þess í stað setur Rosling fram eftirfarandi tekjuskipta flokkun, sem byggist á fjórum stigum:
Rosling skýrir ekki nógu vel hvers vegna. Fyrst rifjar hann upp samtal við nemanda sem segir að fólk í þróunarlöndum geti aldrei haft sömu lífsgæði og fólk í þróuðum löndum. Rosling reynir að fá nemandann til þess að skilgreina hver „þau“ eru en í stað þess að ljúka umræðunni um það hvort að „þau“ geti lifað eins og „við“ kýs Rosling að fjalla um þróun frjósemi kvenna. Hann sýnir fram á að árið 1965 hafi konur í þróunarlöndum átt mörg börn og konur í þróuðum ríkjum fá börn, en í dag sé þessi fylgni horfin (bls 22-38). Þetta skýrir ekki gagnsleysi þess að tala um þróuð lönd vs. þróunarlönd sem byggir á öðrum mælikvarða.
Nú má ekki skilja mig sem svo að ég telji eitthvað athugavert við þessi fjögur stig. Það er mikið gagn í því að skilja annars vegar 1) hversu afstæð fátækt er og hvernig töluverður munur í lífsgæðum getur verið á milli (því sem okkur finnst vera) lágar upphæðir á dag og hins vegar 2) hvernig mannkyn skiptist niður í þessa flokka. Þó svo að mikill munur geti verið á lífsgæðum fólks í þróunarlöndum þá sé það ekki ástæða til þess að hætta að tala um þróunarlönd. Ég held að það þurfa að lifa á stigi 2, á $0-8 á dag, í svo lítið sem eina viku væri nær óbærilegt fyrir mig (og flesta þá sem lesa þetta).
Rosling er bara alls ekki búinn að skipta út hugtökunum þróunarlönd vs. þróuð lönd heldur er hann búinn að búta þróunarlönd niður í þrjá undirflokka. Fyrir mér er þetta svolítið eins og að segja að ekkert vit sé í því að tala lengur um svartan eða hvítan lit því til séu svo margir grátóna litir. Ef við skoðum þau lönd í heiminum þar sem tekjur eru undir $32 á mann á dag þá eru það gróflega þau lönd sem flestir telja „þróunarlönd“.
Hlýnun jarðar
Helsta ógnin sem steðjar að mannkyninu er hnattræn hlýnun. Einu stjórnmálaöflin sem virða þessa vá að vettugi eru hægri stjórnmálaöfl. Einarðir markaðssinnar trúa því að einkaeignarétturinn sjái til þess að markaður myndist um hverja þá vöru sem eftirspurn er af og að skilvirkur markaður sjái til þess að að verðleggja þær í samræmi við raunvirði þeirra. Ef kolefnaeldsneyti væri í raun þess valdandi að hitastig jarðar færi hækkandi þannig að mannkyni stæði ógn af þá væri bensínlítrinn á töluvert meira en 195.90 kr. Því miður eru hugsanlegar yfirvofandi hamfarir af völdum hlýnunar jarðar ekki verðmyndandi og harla lítið gagn að kenna Clinton um orðinn hlut.
Rosling er laus við slíkar ranghugmyndir, hann tekur skýra afstöðu gagnvart hnattrænni hlýnun. Hann er „mjög áhyggjufullur yfir hlýnun jarðar […] Svo hver er lausnin? Nú, hún er einföld. Hver sá sem losar mikið magn gróðurhúsalofttegunda verður að hætta því eins fljótt og auðið er.“ (bls 231) og hann gengur lengra en það og lýsir því yfir að leiðin til þess að ráða bót á vandanum sé í gegnum alþjóðlegt samstarf S.Þ. (bls 239). Einfalt.
Einn mikilvægasti lærdómurinn sem hægt er að draga af bók Roslings er að mannkynið muni toppa í á bilinu 10-12 milljörðum manna á næstu hundrað árum eða svo (bls 82). Áhyggjur manna af malthúsískum veldisvexti eru blessunarlega ekki á rökum reistar.
Meðal fjölda heillandi grafa og skýringarmynda í bókinni er heillandi opna í lok bókar þar sem heildarfjölda mannkyns er spáð 9 milljörðum árið 2040. Þegar þar að kemur verða framfarir búnar að sjá til þess að 1,7 milljarðar manna verði á stigi fjögur (112,5% aukning) og að 4,2 milljarðar verði á stigi þrjú (110% aukning).
Getum við vænst þess að aukning á losun gróðurhúsaloftegunda verði í svipuðu hlutfalli? Ég þykist ekki vita það. En hvað með auðlindanýtingu? Mun hún aukast í svipuðu hlutfalli og mannfjöldinn?
Líffræðilegur fjölbreytileiki og skógeyðing
Það er erfitt að mæla með áreiðanlegum hætti hnattræna neyslu á náttúrulegum auðlindum og hverjar birgðir jarðar af náttúrulegum auðlindum eru. Hversu mikið af olíu er eftir? Hversu mikið af járni? o.s.frv. Þessar áhyggjur virðast ástæðulausar. Þau náttúrulegu efni sem skortur gæti orðið á eru sjaldgæfir jarðmálmar sem eru nauðsynlegir í nútímatölvubúnað á borð við farsíma, spjaldtölvur og rafmagnsbíla (sjá rannsóknir hér og hér). Kína hefur lengi verið leiðandi útflutningsland slíkra efna en á síðastliðnum áratug eða svo hafa Kínverjar dregið úr útflutningnum. Nýlega lýstu Japanir því yfir hafa fundið mikið magn þessara efna innan efnahagslögsögu sinnar.
Það virðist því sem að við þurfum ekki að hafa áhyggjur af skorti á náttúruauðlindum. Þó er ein náttúruauðlind sem maðurinn hefur gengið mikið á og við þurfum að gefa betur gaum, það eru skógar jarðar. Rosling víkur ekki sérstaklega að skógeyðingu í bók sinni – nema ef til vill mjög stuttlega.
Skógeyðing er ekki eingöngu spurning um þverrandi náttúruauðlind. Skógeyðing hefur neikvæð bein áhrif á hlýnun jarðar því upptaka skóga á koltvísýringi minnkar. Skógeyðing hefur einnig neikvæð bein áhrif á líffræðilegan fjölbreytileika því regnskógar eru heitir reitir þegar kemur að líffræðilegum fjölbreytileika.
Opinberar tölur Matvæla og landbúnaðarstofnunar SÞ sýna að á árunum 2010-2015 minnkaði skóglendi á hnattræna vísu um 3,3 milljón hektara á ári að meðaltali, eyðing skóglendis hefur dregist saman um meira en helming frá árunum 1990-2000 þegar 7,3 milljónir hektara eyddust að meðaltali á hverju ári. Rannsóknir gefa að vísu til kynna að enn muni hægja á skógeyðingu þrátt fyrir aukinn fjölda mannkyns.
Það sem er eftir sem áður áhyggjuefni er að þegar skoðað er hver skógeyðing er eftir tegund skóglendis þá var skógeyðing í hitabeltinu 5,5 milljónir hektara á ári á árunum 2010-2015. Það er á hitabeltinu þar sem mesta hættan steðjar að skóglendi, regnskógar eru þau svæði þar sem líffræðilegur fjölbreytileiki er mestur. Nýlega kom t.d. fram að aukin eftirspurn eftir nautakjöti í Kína á árunum 2011-2016 hafi leitt til skógeyðingar sex þúsund km2 regnskógar í Brasilíu (til samanburðar er Vatnajökull átta þúsund km2).
Ef haldið verður áfram að eyða skóglendi á núverandi hraða tekur það okkur 606 ár að eyða helming skóglendis á jörðinni, það mjög stuttur tími í stóra samhenginu.
Hvað varðar líffræðilegan fjölbreytileika, þá setur Rosling sem dæmi fram spurningu um tegundadauða. Spurningin hljómar svo:
In 1996 tigers, giant pandas and black rhinos were all listed as endangered. How many of these three species are more critically endangered today?
- A. 2 of them
- B. 1 of them
or
- C. none of them?
Sé þessi spurning til marks um framfarir þá er það ákaflega þröng skilgreining því spurt er að því hvort tekist hafi að halda í óbreytt ástand. Rétta svarið samkvæmt Rosling er C en það má deila um það. Hinn vestræni svarti nashyrningur, sem er undirtegund svartra nashyrninga, var úrskurðaður útdauður árið 2011. Finna má fleiri tígrisdýr í bakgörðum ríkra í Bandaríkjunum en í villtri náttúrunni. Þó svo að stofnar þessara þriggja tegunda hafi stækkað á undanförnum árum hefur flokkun þeirra hjá hinum Rauða lista IUCN yfir staðfestar tegundir í hættu eða útdauðar ekki breyst frá 1996. Sumir vísindamenn eru sannfærðir um að sjötta fjöldaútrýmingin sé hafin, og sé af manna völdum.
Afrek Roslings
Rosling hafði persónuþokka, sjaldgæfa blöndu af greind, ástríðu og húmor, sem skein í gegn. Hann kennir okkar leitast við að skilja stöðuna í dag, skilja nútímann en þóttist ekki geta veifað töfrasprota um það hvað morgundagurinn ber í skauti sér. Á einum stað í bókinni er málsgrein sem gæti vel sómt sér sem eins konar manifestó fyrir Vesturlandabúa:
„Við skulum vera raunsæ gagnvart því hvað hinir fimm milljarðar manna í heiminum sem enn handþvo þvottinn sinn vonast eftir og hvað þau munu leggja á sig til að ná þessum markmiðum. Að ætlast til þess að þau geti sjálfviljug hægt á hagxexti sínum er algerlega óraunhæft. Þau vilja þvottavélar, rafmagnsljós, almennileg skólpkerfi, ísskáp til að geyma mat, gleraugu ef þau eru með slæma sjón, insúlín séu þau með sykursýki, og samgöngur sem gerir þeim kleyft að fara í frí með fjölskyldum sínum rétt eins og þú og ég. Nema að þú sért reiðubúinn til þess að afsala þér þessum þægindum og byrja að handþvo gallabuxurnar þínar og rúmlökin, hvers vegna ættu þau að taka ábyrgð, það sem við þurfum til þess að bjarga jörðinni frá þeirri gríðarlegu ógn sem að okkur steðjar vegna hnattrænnar hlýnununar er raunhæf áætlun. Við verðum að kappkosta við að finna upp nýja tækni sem gerir 11 milljörðum manna kleyft að hafa þau lífsgæði sem eðlilegt er að þau gerir sér vonir um. Sömu lífsgæði og við höfum nú á stigi fjögur, en með klárari lausnir.“ (bls 220-1)
Til aflestrar er bókin í léttari kantinum, eins og blanda af æviminningum – þar sem Rosling rekur með sínum húmorsríka hætti hina og þessa atburði og uppákomur á ferlinum – og praktískri sjálfhjálparhandbók, með einföldum þumalputtareglum, um það hvernig beri að leggja mat á fullyrðingar sem byggja á tölfræði og hugsa með gagnrýnum hætti. Bókin er tilvalin á náttborðið hjá ungum fullorðnum einstaklingi, til dæmis sem útskriftargjöf til þeirra sem útskrifast úr framhaldsmenntun. En líka til allra annarra sem vilja vera með undirstöðuatriði um stöðu heimsins á hreinu.
Mér þætti æskilegt ef Menntamálastofnun myndi nýta þessar upplýsingar og miðla þeim í kennsluefni. Upplýsingamolar Roslings eru alfræðilegir og eiga við flest ef ekki öll fög sem kennd eru; tungumál, félagsfræði, líffræði, sálfræði, stærðfræði, samfélagsfræði og landafræði svo dæmi séu nefnd. Í íslenskukennslu gæti stafsetningarverkefni verið eitthvað á þessa leið: „Helstu sérfræðingar í lýðfræði telja að í lok 21. aldar telji mannkynið á bilinu 10-12 milljarða.“ Í trúarbragðafræði væri hægt að leggja áherslu á að lifnaðarhættir, með tilliti til frjósemi og lífsgæða, eru víðast hvar sambærilegir óháð trúarsannfæringu. Og þar fram eftir götunum.
Ég gæti haldið áfram og rætt margar af þeim áhugaverðu staðreyndum sem Rosling setur fram. Ég ætla hins vegar að láta hér staðar numið og ljúka yfirferðinni með því að hvetja þig til þess að lesa þessa mögnuðu bók.