Nú er runninn upp sá tími ársins sem Íslendingar reyna að koma skikki á sinn eigin svefn sem og svefn barna sinna meðan haustrútínan skellur á. Svefnleysi og truflanir á svefni geta valdið fólki mikilli vanlíðan og fjölmargir sjúkdómar virðast hafa aukna tíðni meðal þeirra sem t.d. vinna næturvinnu eða eiga erfitt með svefn.
Truflanir í efnaskiptaferlum líkamans koma oft fram sem sjúkdómar eins og sykursýki, týpa tvö, og offita. Þessir tveir sjúkdómar eru einmitt algengari hjá fólki sem vinnur næturvinnu, samanborið við þá sem vinna á daginn.
Í rannsókn sem rannsóknarhópur við Uppsala Universitet birti í Science Advances er ljósi varpað á þá ferla sem hugsanlega liggja að baki þessari þróun.
Fimmtán heilbrigðir sjálfboðaliðar voru viðfangsefni rannsóknarinnar. Allir þátttakendur þurftu að undirgangast sömu meðferð. Annars vegar sváfu þátttakendur fullan 8 klukkustunda svefn og hins vegar var þeim haldið vakandi yfir heila nótt. Í báðum tilfellum fór fram vefjasýnasöfnun úr þátttakendur, blóð-, fituvefs- og vöðvasýni.
DNA var einangrað úr bæði fituvefs- og vöðvasýnunum en sameindir sem spá fyrir um ýmis efnaskiptaferli voru einnig skotmark allra vefjasýnanna, sér í lagi blóðsýnisins. Mesta athygli vöktu þó breytingar á erfðaefninu sem einangrað var úr fituvefnum.
Þó allar frumur líkamans geymi sama erfðaefni er misjafnt eftir vefjaverð hvaða gen eru tjáð hverju sinni. Þessu er stjórnað með margvíslegum hætti, ein algeng leið sem líkamsfrumur okkar nota kallast utangenaerfðir, þ.e. merkingar utan á erfðaefnið sem annð hvort lokar því eða auðveldar aðgang að þeim.
Ein týpa slíkra merkinga er metýlering á DNA-inu, sem lokar erfðaefninu svo tjáningin minnkar eða stöðvast. Þegar þátttakendur höfðu fengið lítinn svefn varð mikil breyting á metýleringu erfðaefnisins í fituvef þeirra. Þær utangenamerkingar sem hópurinn sá í þátttakendum eftir svefnlitla nótt voru svipaðar þeim sem sjást í fólki með sykursýki, týpu tvö, eða offitu.
Sömu breytingar var ekki að merkja í vöðvasýnunum, en þar voru þó breytingar á efnaskiptaferlum sem bentu til þess að vöðvinn væri að hefja niðurbrot prótína. Sem gefur til kynna upphafið að vöðvarýrnun. Samhliða þessu mældust smávægilegar breytingar í blóðsýnum sem gefa til kynna minnkað blóðsykursnæmi.
Þessar mælingar fengust úr einstaklingum sem höfðu upplifað eina svefnlausa nótt. Þó breytingarnar hafi verið vel mælanlegar er líklegt að þær geti gengið til baka þegar svefninn kemst í samt lag. Slíkt er þó alls ekki gefið fyrir einstaklinga sem vinna á næturnar. Mögulega getur svefnleysi til lengri tíma leitt til langvarandi breytinga á genatjáningu í þessum tveimur mikilvægu vefjatýpum, fitu og vöðvum.
Þessar rannsóknir ríma vel við þá upplifun sem margir hafa af svefnleysi, þ.e. erfiðleikar við að hreyfa sig og almennt orkuleysi sem oft er erfitt að svala nema með orkumiklum mat eins og sælgæti.
Skilaboð dagsins eru þess vegna að passa uppá svefninn sinn, hann gerir meira fyrir okkur en okkur grunar.