Minnið er einn mest heillandi, lítt kannaði eiginleiki mannslíkamans. Fjölmargar rannsóknir hafa verið gerðar með það að markmiði að sýna fram á hvernig best er að bæta minnið eða viðhalda virkri heilastarfsemi. Ekki síst með vaxandi fjölda einstaklinga með heilabilanir sem og hækkandi aldurs vestrænna þjóða.
Karolinska institutet, í Stokkhólmi, hefur ekki látið sitt eftir liggja í rannsóknum á minninu. Þar er rannsóknarhópur sem nýlega birti grein í Journal of Neuroscience, sem fjallar um það hvernig öndun okkar getur haft áhrif á minnið.
Í rannsókninni voru þátttakendur beðnir um að leggja 12 mismunandi lyktir á minnið. Helmingi hópsins var svo fyrirskipað að anda með munninum í klukkutíma eftir lyktarpróf meðan hinum helmingnum var uppálagt að anda með nefinu. Að klukkutíma liðnum voru þátttakendur svo beðnir um að þefa aftur af 12 ilmtegundum, að hluta til þeim sömu og að hluta til nýjum. Síðan áttu þátttakendur að bera kennsl á þær ilmtegundir sem þeir höfðu þefað af áður.
Þeir þátttakendur sem voru beðnir um að anda með nefinu voru marktækt betri í að muna hvaða ilmi þeir höfðu fundið áður, í samanburði við þá sem voru beðnir um að anda með munninum. Þetta bendir til þess að við innöndun í gegnum nefið virkjast einhver hluti lyktarklumbunnar (olfactory bulb). Þessi virkjun styrkir þá minningu sem einstaklingarnir höfðu búið til í lyktarprófinu.
Þessar niðurstöður einar og sér eru mjög áhugaverðar, en það sem verður enn áhugaverðar að sjá eru niðurstöður áframhaldandi rannsókna. Þar býst hópurinn við að geta kortlagt hvaða svæði í heilanum og lyktarklumbunni eru að virkjast. Með því móti verður hægt að skilgreina hvaða ferlar fara í gang við það eitt að anda með nefinu.