Seinna í dag verður seinni haustviðburður Apple. Viðburðurinn fer fram í Brooklyn Academy of Music í New York borg. Eins og venjulega gefur Apple ekkert upp hvað þeir ætla að ræða en fastlega má búast við því að Apple kynni uppfærða iPad Pro, Macbook fartölvur og Mac mini.
iPad
Búist er við því að nýr iPad Pro muni koma í rammalausri hönnun sem mun svipa til iPhone X. Heim takkinn fær að fjúka og face-id verður notað til aflæsa tækinu eins og á iPhone X. Skjárinn stækkar úr 10.5“ í 11“ á minni iPad Pro en verður áfram 12.9“ á stærri útgáfunni.
Líklegt er að nýr iPad Pro muni verða með USB-C tengi í stað hefðbundins lightning tengis eins og hefur verið á öllum snjalltækjum Apple frá 2012. USB-C bíður upp á ýmsa nýja möguleika eins og hraðhleðslu og stuðning við 4K skjái. Allt innvolsið fær svo uppfærslu sem og myndavélin. Til viðbótar við nýja iPad Pro þá mun Apple kynna nýjan Pencil snjallpenna og mögulega uppfærða iPad mini 4 sem væri þá hugsuð sem ódýrari valkostur en hefðbundni iPad 9.7 sem hefur kostað um 50.000 kr. ($329). Nýr mini verður með öflugri innvolsi en ódýrari skjá. Ekki er búist við því að útlitinu verði breytt.
Macbook (Air?)
A síðustu árum hefur Apple lítið sem ekkert uppfært Macbook Air fartölvuna. Tölvan var einu sinni söluhæsta tölva fyrirtækisins en er nú bara vandræðalegur minnisvarði um úreltan vélbúnað. Margt bendir til þess að þegar Apple kynnti nýju 12“ Macbook fartölvuna árið 2015 hafi áætlunin verið að drepa Macbook Air í vörulínunni og einfalda framboðið með því að hafa Macbook sem ódýrari valkostinn og svo Macbook Pro fyrir þá sem þurfa öflugri valkost. En intel Core-M örgjörvinn hefur ekki ennþá náð því flugi sem Intel vonaðist eftir. Hann er dýr og afllítill miðað við verð og því ekki góður valkostur í ódýra Mac tölvu.
Mac mini og iMac
Fáar vörur hafa fengið eins litla ást innan fyrirtækisins og Mac mini. Núverandi mini fékk síðast uppfærslu fyrir rúmum fjórum árum. Í ljósi þess bjuggust flestir við því að Apple myndi einfaldlega hætta framleiðslu á Mac mini en nýjasti orðrómurinn er sá að ekki aðeins fái tölvan innvols uppfærslu heldur verði nýr og endurhannaður Mac mini kynntur og muni þá einnig koma í útgáfa sérstaklega fyrir þá sem þurfa mikið af. Apple uppfærir iMac tölvurnar reglulega og er líklegt að nýjar og bættar vélar verði kynntar á eftir. ólíklegt er þó a útlitinu verði breytt heldur aðeins skjáir og innvols.
…Eitt að lokum?
Mögulega mun Apple sýna nýju Mac Pro tölvuna sem er væntanleg á næsta ári eða jafnvel uppfærðan iMac Pro. Einnig er líklegt að Airpods heyrnartólin fái stuðning við þráðlausa hleðslu. Svo er alltaf möguleiki að Apple kynni loks Airpower hleðslumottuna sem átti að koma í sölu í fyrra og hefur verið einn vandræðalegur brandari á kostnað fyrirtækisins.
Hvernig er best að fylgjast með?
Viðburðurinn er sá fyrsti í mörg ár sem er ekki kl. 17:00 að íslenskum tíma heldur byrjar hann klukkan 14:00. Þetta er sökum þess að viðburðurinn er í New York en ekki San Francisco eins og venjan er. Apple verður með streymi af viðburðinum og helstu tækniblogg verða með beina textalýsingu. Tæknivarpið mun svo gera þættinum góð skil í þætti vikunnar.