Í gær hélt Apple viðburð þar sem kynntar voru nýjar Mac tölvur ásamt endurhönnuðum iPad Pro. Ólíkt síðustu árum fór viðburðurinn fram í New York og var því talsvert fyrr á ferðinni en ella. Líklegt er að vinnuframlegð harðra Apple áhugamanna hafi dalað eitthvað milli 14 og 16.
Viðburðurinn fór fram í Brooklyn Academy of Music, rúmlega 150 ára gamalli listamiðstöð sem leggur mikið upp úr því að sýna það ferskasta hverju sinni. Viðburðurinn hófst á myndskeiði sem var einskonar ástarjátning Apple til New York sem var fagnað ákaft í salnum. Viðburðurinn gekk vel og það væri gaman að sjá Apple færa minni viðburði út fyrir austurströndina.
Endurhönnuð Macbook Air og uppfærður Mac mini
Apple hóf viðburðinn á því að fara yfir makkann með myndskeiði sem sýndi allt klára, fallega, fræga fólkið sem elskar makkann sinn og notar hann við sköpun. Látlaust og svarthvítt myndskeið með slagorðinu behind the mac.
Það var því viðeigandi að fjalla næst um Macbook Air, þá Apple tölvu sem hefur náð að fjölga Mac notendum hvað mest síðustu árin. Ný Air er ný eins og nýr Porsche 911. Heldur í grunn formið og bætir það sem vantaði með smáatriðunum. Stærsta breytingin (og sú eina sem í raun hefði þurft að gera) er nýr Liquid retina háskerpuskjár. Skjástærðin er áfram 13.3“ en ramminn utan um skjáinn er talsvert minni. Vélin er einnig minni um sig og örlítið léttari. Tölvan kemur með tveimur Thunderbolt tengjum og heyrnatólatengi (átti það ekki að vera dautt?). Vélin kemur einnig með Touch ID fingrafaralesara í Lyklaborðinu. Hátalararnir eru endurhannaðir og mikið bættir.
Sumir myndu segja að með gömlu Air fór síðasta Macbook fartölvan með góðu lyklaborði. Nýja vélin kemur með sama umdeilda lyklaborði og Macbook Pro. Margir hata það og afar fáir virðast kjósa það frekar. Að öðru leyti er vélin rökrétt framhald. Nógu öflugur örgjörvi fyrir almenna vinnslu og grunntýpan með of litlu minni og geymsluplássi, 8GB og 128GB, þannig að flestir munu kaupa týpuna fyrir ofan grunntýpuna. Það væri þó huggandi ef verðið væri áram $999 eins og forverinn en í takt við verðhækkanir á iPhone þá kostar ný Air $200 meira en forverinn. Það mun þó ekki breyta því að ný Air er virkilega aðlaðandi pakki og ætti að vera í kringum (eða jafnvel undir) 200.000 kr. hér á landi. Hún mun því vafalaust seljast mjög vel.
Hin tölvan sem Apple kynnti var uppfærður Mac mini. Í orðrómagrein minni í gær þá spáði ég því hún yrði meiri Pro græja en núverandi vél en það er erfitt að segja Apple hafi gengið svo langt. Vélin notar þó ekki lengur fartölvu örgjörva og er FIMM SINNUM HRAÐARI. Sem er varla mikið afrek þegar þú berð hana saman við tölvu sem hefur ekki fengið uppfærslu í 3 ár. En til að vera sanngjarn þá er aflsmunurinn umtalsverður og fyrir rétt verð er hægt að fá öfluga borðtölvu í litlum pakka. Talandi um pakkann þá er skelin nákvæmlega sú sama og áður nema nú kemur hún í geimgráum lit. Verðið hækkar einnig (í takt við þema Apple 2018) og eins og með Air þá er grunntýpan svelt bæði minni og geymsluplássi. En fyrir þá sem eiga vandaðan skjá og vilja litla Apple borðtölvu þá er Mac mini að minnsta kosti orðin valkostur aftur.
iPad Pro
Ég skil vel ef þeir sem hafa lesið hingað í greininni eru að fá þá mynd að viðburðurinn í gær hafi verið óttalegt vindhögg. Ástlausar vörur fengu löngu nauðsynlegar uppfærslur en ekki mikið meira. Nýr iPad Pro gefur þessum pælingum snöggan, fastan, kinnhest. Útgáfan sem kom í fyrra skildi aðra framleiðendur eftir í rykinu. Apple hefði vel getað haldið í þá hönnun næstu 1-2 árin með minniháttar afl breytingum. En í stað þess kynnti Apple algjörlega endurhannaðan iPad Pro sem færir forskot Apple langt út fyrir sjóndeildarhringinn.
Nýr iPad Pro kemur í rammalausri hönnun í anda iPhone X. Tvær skjástærðir eru í boði, 11“ og 12.9“. Minnni iPad Pro er nú með stærri skjá í sama pakka og 10.5“ Pro hafði á meðan 12.9“ útgáfan er talsvert minni um sig en heldur sömu skjástærð. Áhugavert er að nýr 12.9“ iPad Pro er nú léttari en fyrsta útgáfa iPad.
Hönnunin fær margt lánað frá fyrsta iPad og iPhone 4/5. Heim takinn er farinn og í staðinn er iPad Pro nú aflæst með Face ID og virkar aflæsingin óháð því hvernig hann snýr. Eigendur iPad Pro síðustu ára finna varla fyrir aflleysi. 2015 útgáfan af 12.9 flýgur t.d. á iOS 12 og er Því nokkuð öruggt að A12X Bionic örgjörvinn í nýja iPad Pro mun varla þurfa að svitna mikið fyrr en langt inn í seinna kjörtímabil Trump. Skjárinn er auðvitað betri, hátalararnir öflugri og myndavélarnar báðar endurbættar…eins og alltaf. Rafhlöðuending er áfram 10 tímar. Ólíkt öllum öðrum snjalltækjum Apple þá kemur nýr Pro með USB-C í stað Lightning. Stærsti ávinningurinn af þessu er stuðningur við 4K skjái og betri tengimöguleikar við myndavélar. Einnig er svo hægt að hlaða iPhone beint úr iPad Pro með USB-C í Lighting snúru. Eins og á iPhone er heyrnatólatengið farið og kemur aldrei aftur.
Nýr Pencil snjallpenni var einnig kynntur. Pencil festist við brúnina á iPad með öflugum seglum og fær einnig þráðlausa hleðslu á meðan hann hvílir þar. Lyklaborðið er einnig endurhannað og styður nú tvær hallastillingar á skjánum. Surface notendur frussa út kaffinu af hlátri yfir þessu á meðan iPad notendur fagna örugglega ákaft.
Verðið hækkar (að sjálfsögðu) um $150. Dýrasti iPad sem hægt er að kaupa, 12.9“ með 1TB Plássi og 4G, kostar nú $1.899. Í raun mun ódýrasti iPad Pro væntanlega kosta meira en fartölvur flestra. En þeir neytendur eru væntanlega ekki markhópurinn. Ódýri 9.7“ iPad mun sjá um þennan markhóp áfram. iPad Pro 10.5 verður einnig áfram í boði á sama verði fyrir millistéttina.
Það er augljóst að þegar Adobe kynnti fyrr í mánuðinum Photoshop fyrir iPad þá var það hugsað fyrir þennan iPad. Alvöru vinnutæki með nægilegt afl og geymslupláss (allt að 1TB) fyrir alvöru vinnu. Eina sem Apple þarf bara að gera er að sannfæra aðra app framleiðendur að iPad sé alvöru tölva sem þarf alvöru forrit. Bara að Apple myndi nú leyfa alvöru vafra á iPad…en það er önnur umræða fyrir annan tíma.
Heilt yfir var þessi viðburður góður. Gott flæði og lítið um óþarfa blaður. Lekar voru færri en fyrir mánuði og margt sem kom á óvart. Það er augljóst að á mörgum sviðum er Apple hætt að keppa á verðum. iPhone þarf ekki að vera á verðbili annarra síma. iPad þarf ekki að huga að verðinu á Surface. Apple Watch er ekki að keppa við neinn annan framleiðanda snjallúra. Miðað við þær vörur sem fyrirtækið hefur kynnt á síðustu vikum er líklegt að fyrirtækið haldi áfram að vera það verðmætasta í heimi.