Umræðan um örveruflóruna heldur áfram. Það að viðhalda heilbrigðri örveruflóru er ekkert grín, og getur heilbrigði þarmanna haft heilmikið að segja um heilbrigði okkar sem einstaklinga. Það er því skiljanlegt að fólki sé mikið í mun að koma skikki á þessar milljónir lífvera í líkama okkar.
Þegar við komum í þennan heim er líkami okkar svo gott sem bakteríu laus. Hvernig fæðingin á sér stað, þ.e. hvort við eru tekin með keisaraskurði eða fæðumst í gegnum leggöngin hefur sýnt sig að hefur áhrif á örveruflóru okkar. Annar mjög stór þáttur í uppbyggingu örveruflóru ungra barna er svo auðvitað fæðuval.
Móðurmjólkin er sú fæða sem er ætluð ungabörnum og er hún ekki aðeins fullkomlega samsett af næringarefnum fyrir nýbura heldur inniheldur hún einnig efni sem stuðla að heilbrigðri örveruflóru. Í rannsókn sem var birt í Nature í síðasta mánuði staðfestir vísindahópur við Newcastle University þetta í örveruflóru hátt í 800 ungabarna.
Til að skoða þróun örveruflórunni voru gerðar raðgreiningar úr saursýnum barnanna frá 3ja mánaða aldri þeirra og allt þar til þau urðu 46 mánaða. Í árum talið eru 46 mánuðir svo gott sem 4 ár.
Í rannsókninni kemur skýrt fram hvernig móðurmjólkin viðheldur vexti Bifidobacterium baktería en þær teljast almennt góðar fyrir heilsu okkar (probiotics). Um leið og börn fara að borða fasta fæðu verða heilmiklar breytingar á örveruflórunni, sem sér í lagi sést á aukningu Firmicutes baktería helst á kostnað Bifidobacterium.
Firmicutes eru mjög algengar í örveruflóru fullorðinna einstaklinga, enda eru börn sem eru að byrja að borða fasta fæðu að mynda sína eigin örveruflóru sem mun fylgja þeim fram á fullorðins ár. Samkvæmt mælingum rannsóknarhópsins er örveruflóran einmitt nokkurn veginn stöðug þegar börn hafa náð 30 mánaða aldri (sem samsvarar 2,5 ári).
Rúmlega fyrsta árið eru börn að þróa með sér örveruflóru. Hún stjórnast m.a. út frá því hvort þau eigi eldra systkini, búi nálægt dýrum eða eru nærð á móðurmjólk. Frá 15 mánaða til 30 mánaða aldri verða svo miklar breytingar í örveruflórunni, vegna breytinga á fæðuvali sem endar svo í stöðugri flóru eftir tveggja og hálfs árs aldur.
Þessi rannsókn undirstrikar enn og aftur hversu mikilvæg móðurmjólkin er fyrir ungabörn. En á sama tíma hjálpar hún okkur að skilja hvaða þættir eru mikilvægir við þróun þurrmjólkur. Sum börn eiga einfaldlega ekki kost á því að fá móðurmjólk og því er mjög mikilvægt að við nýtum þá miklu vitneskju og tæknina til að afla hennar til að búa þessum börnum til fæðu sem kemst eins nálægt því og mögulegt er.