Öldur bruggar handverksmjöð (craft mjöð) sem hefur hlotið frábærar viðtökur og hlutu miðir frá Öldri annað og þriðja sætið á Bjórhátíðinni að Hólum í sumar. Aðstaðan sem þeir höfðu varð fljótt of lítil svo það þurfti að ráðast í það verkefni að finna stærra og hentugra húsnæði. Félagarnir Helgi Þórir Sveinsson og Sigurjón Friðrik Garðarsson standa að verkefninu.
Hvernig vaknaði hugmyndin að því að stofna mjaðargerð?
Okkur hafði lengi langað til þess að vinna saman að einhverju bruggtengdu. Það var svo í kútapartýi Fágunar (Félags Áhugafólks um Gerjun) á Menningarnótt í fyrra að hjólin fóru fyrst almennilega að snúast. Við höfðum bruggað kirsuberjamjöð sem fólk gat smakkað og fannst mjög góður, en þarna voru líka yfirkokkur og einn af eigendum Nostra Restaurant. Þeim fannst mjöðurinn frábær og spurðu hvort það væri hægt að kaupa hann.
Um hvað snýst verkefnið?
Verkefnið er fyrst og fremst til þess að hjálpa okkur að koma okkur fyrir í stærra húsnæði. Framleiðslan á gamla staðnum var afar smá og nánast á barmi þess að hún borgaði sig ekki. Í stærra húsnæði getum við aukið framleiðsluna og stefnan er sett á að koma vörunum okkar í ÁTVR og seinna meir í fríhöfnina. Á nýja staðnum verður líka aðstaða til vöruþróunnar sem er okkur mjög mikilvæg því fyrirtæki í nýsköpun þarf jú að geta boðið upp á eitthvað nýtt.
Af hverju mjöður, og er mjöður ekki annað orð yfir bjór?
Mjöður og bjór eru eins ólíkir drykkir og vín og bjór og gerðir úr mismunandi hráefnum. Mjöður og bjór hafa líka ólíka sögu en það er einmitt sagan sem heillar okkur hvað mest við mjöðinn. Þetta er talið vera einn elsti áfengi drykkur sögunnar og var aðeins ætlaður konungum og guðum. Víkingarnir drukku jú líka mjöð og okkur fannst tímabært að kynna Ísland fyrir miðinum aftur.
Hér er hægt að skoða verkefnið og taka þátt í að framleiða mjöð.