Mataræði sem felur í sér föstu í ákveðinn tíma hafa notið vaxandi vinsælda. Má þá nefna mataræði sem felur í sér föstu í eina viku, nokkra daga eða jafnvel bara einhverja klukkutíma yfir sólarhringinn.
Fjölmargar rannsóknir hafa verið framkvæmdar, í frumulínum og dýrum, sem sýna að fasta getur haft jákvæð áhrif á lífeðlisfræðilega ferla. Sem dæmi hafa rannsóknir sýnt fram á að fasta hægir á öldrun.
Nýlega birti rannsóknarhópur við Okinawa Institute of Science and Technology í Japan, grein í Scientific Reports þar sem þau skoða um 130 mismunandi niðurbrotsefni í líkamanum. Rannsóknin er framkvæmd á litlum hópi, fjórum einstaklingum, meðan þau fasta í allt að 58 klst.
Rannsóknin fer þannig fram að sjálfboðaliðarnir eru látnir fasta og blóðprufur eru svo teknar úr þeim eftir 10 klukkustundir 34 klukkustundir og í lokin eftir 58 klukkustundir. Blóðprufurnar eru svo notaðar til að skoða alls konar efni sem myndast í líkamanum vegna mismunandi ferla í frumunum.
Samantekið sá hópurinn aukningu í 44 af þeim efnum sem þau skoðuðu. Af þessum 44 hefur 14 verið lýst áður. Það sem vakti sérstaka athygli hópsins var aukning ýmissa andoxunarefna meðan á föstunni stóð og vísbendingar um aukna hvatbera virkni.
Aukin hvatberavirkni er mjög áhugaverð þar sem slíkt bendir til þess að þau næringarefni sem eru til staðar eru nýtt til hins ýtrasta til að mynda ATP, orkueiningar frumunnar.
Hér er að sjálfsögðu um mjög litla rannsókn að ræða, enda aðeins fjórir einstaklingar skoðaðir. Þrátt fyrir það gefur hún góðar vísbendingar um hvaða ferlar fara í gang þegar föstur eiga sér stað.
Með því að nota lítinn hóp til að skima yfir breitt svið efnahvarfa er auðveldara að þrengja leitina síðar meira með stærri hóp af sjálfboðaliðum.